c

Pistlar:

2. nóvember 2016 kl. 7:01

Guðrún Bergmann (gudrunbergmann.blog.is)

Betra Líf í 27 ár

Þann 2. nóvember árið 1989 opnaði ég verslunina Betra Líf að Laugavegi 66. Við vorum, ég og samstarfskona mín Snæfríður Jensdóttir, með nokkurn hnút í maganum og steininn tígrisauga í vösunum, svona til að auka okkur styrk fyrir daginn sem framundan var. Við höfðum ekki hugmynd um hver viðbrögðin yrðu við þessari nýstárlegu verslun, þeirri fyrstu sinnar tegundar, sem seldi orkusteina af ýmsum gerðum, reykelsi, skart og framúrstefnulegar sjálfsræktarbækur.

Viðtökurnar voru hins vegar mun betri en við höfðum þorað að vona og fylltu okkur trú um að svona verslun hefði vantað á markaðinn. Nú tuttugu og sjö árum síðar er Betra Líf enn starfandi á 3ju hæð í norðurenda Kringlunnar. Ég hætti rekstrinum árið 1994, þegar ég hafði tekið ákvörðun um að flytja að Hellnum á Snæfellsnesi. Snæfríður tók við keflinu og hefur, ásamt dóttur sinni Stellu Sæmundsdóttur rekið verslunina æ síðan.

Ímynd þess sem selt var í versluninni var tengd við Nýöld (New Age) eða þá bylgju sjálfsræktar sem hafði hafist nokkru fyrr í Bandaríkjunum. Í hillunum var líka að finna bækur sem fjölluðu um miðlað efni, óhefðbundnar lækningar og úrvinnslu tilfinningaáfalla. Ýmis ný hugtök fylgdu því efni sem þar var til sölu, eins og að vinna með barnið innra með sér, sem hafði nú ekki mikið verið rætt fram til þess tíma.

Vísað var á þessum tíma til allra bóka sem fjölluðu um meðvirkni, sem bóka um “co-dependency”. Það hugtak fékk ekki íslenska heitið meðvirkni, fyrr en árið 1993, þegar Bókaforlagið Birtingur, sem við hjónin stóðum að, ásamt Jörundi Guðmundssyni, gaf út bókina Aldrei aftur meðvirkni eftir Melody Beattie.

Á upphafsárum Betra Lífs vildu almennar bókabúðir ekki koma nálægt sölu á þeim bókum sem þar var að finna. Nú eru hins vegar sérstakir rekkar fyrir þessar bækur í öllum helstu bókaverslunum, nema kannski þær sem eru á jaðrinum, en þær má eins og fyrr finna í Betra líf.

Á þessum degi gleðst ég yfir því að eitthvað sem ég sáði fræjum að fyrir þetta mörgum árum síðan skuli hafa dafnað svona vel og vera enn á lífi, þökk sé þeim sem við rekstrinum tóku.

 

Guðrún Bergmann

Guðrún Bergmann

Guðrún er einn af frumkvöðlum ýmis konar sjálfsræktarnámskeiða, sem hún hefur haldið í rúm 26 ár. Undanfarin tvö ár hefur hún beint sjónum sínum að heilsunni með námskeiðunum HREINT MATARÆÐI. Annars hafa námskeið hennar spannað vítt svið, en þó alltaf með fókus á hvernig bæta má andlega og líkamlega líðan, ná meiri árangri í starfi og njóta aukinna lífsgæða. Nýjasta bók Guðrúnar er matreiðslubókin HREINT Í MATINN, en það er sextánda bók hennar. Að auki hefur hún þýtt fjölda bóka.

Meira