c

Pistlar:

9. ágúst 2017 kl. 8:41

Guðrún Bergmann (gudrunbergmann.blog.is)

Að velja rétta liti er list

Ég var að flytja, sem er kannski ekki í frásögur færandi, en það er samt alltaf eitthvað lærdómsríkt við flutninga. Í þetta skipti flutti ég í Ljónsmerkinu og er því spennt að sjá hversu frábrugðið það er því að flytja Tvíburamerkinu, en ég hef í þrjú síðustu skipti flutt í því merki. Þá voru heimili mín alltaf eins og “járnbrautarstöð” með gesti sem komu og fóru, alls konar fræðsla og miðlun í gangi og mikið líf og fjör. Hvað fylgir Ljónaheimilinu kemur í ljós á næstu mánuðum.

RÉTTU LITIRNIR
Ég keypti mér íbúð í gömlu fjölbýli og því var ýmislegt sem þurfti að gera, áður en ég gat flutt inn, svona eins og að mála bæði íbúðina og geymsluna. Ég hafði um það leyti sem ég keypti íbúðina séð grein hér á Smartlandinu þar sem fjallað var um endurgerð á gömlu eldhúsi og minnst var á að málningin hefði verið keypt í SérEfni. Ég þurfti nú að leita á vefnum til að finna hvar sú verslun er staðsett, en eftir fyrstu heimsókn varð ég fastagestur – alla vega þar til málningin var þornuð á síðasta fletinum.

Móttökurnar voru frábærar, ótal litaprufur dregnar fram og spáð og spekúlerað með mér. Ég valdi nokkra liti og er svo ótrúlega þakklát ráðum Árnýjar, sem hvatti mig til að kaupa litlar dósir af litunum sem ég væri spennt fyrir og gera prufur á veggina. Sem betur fer fylgdi ég þeim ráðum, því ég skipti alveg um skoðuna á litavali eftir það og er ekkert smá ánægð með útkomuna á möttu málningunni frá þeim.

GAMLIR TAKTAR
Ég hafði nú ekki mikið málað í rúm 20 ár eða frá fyrstu árunum á Hellnum, þegar við gerðum allt sjálf, hvort sem var að mála, smíða eða gera við hitt og þetta. Því kom mér á óvart hversu stutt var í gömlu taktana og hvað gaman það var að vera aftur með pensil í hönd. Nú er ég með hugmyndir um að mála hitt og þetta með afganginum af málningunni – þótt ég láti nú duga í bili að taka upp úr kössum, skrúfa saman stóla og festa upp gardínur.

Ég fékk reyndar hjálp við gardínurnar í dag frá einum í fjölskyldunni, en þegar ég límdi upp svartan plastpoka fyrir svefnherbergisgluggann til bráðabirgða fyrstu næturnar, velti ég því fyrir mér hvort löggan myndi mæta með hund í stigaganginn til að kanna hvort ég væri að rækta hass.

Guðrún Bergmann

Guðrún Bergmann

Guðrún er einn af frumkvöðlum ýmis konar sjálfsræktarnámskeiða, sem hún hefur haldið í rúm 26 ár. Undanfarin tvö ár hefur hún beint sjónum sínum að heilsunni með námskeiðunum HREINT MATARÆÐI. Annars hafa námskeið hennar spannað vítt svið, en þó alltaf með fókus á hvernig bæta má andlega og líkamlega líðan, ná meiri árangri í starfi og njóta aukinna lífsgæða. Nýjasta bók Guðrúnar er matreiðslubókin HREINT Í MATINN, en það er sextánda bók hennar. Að auki hefur hún þýtt fjölda bóka.

Meira