c

Pistlar:

12. maí 2018 kl. 12:02

Guðrún Bergmann (gudrunbergmann.blog.is)

Fæturnir elska þetta

Fætur og fótleggir bera okkur ekki bara áfram í lífinu, heldur “standa undir okkur” alla ævi. Við leggjum ýmislegt á þá, ekki bara með líkamlegum þunga, heldur einnig áhyggjum og tilfinningalegum áföllum. Því er ekki að undra þótt þeir verði stundum þreyttir og þurfi á umhyggju að halda til að geta sinnt hlutverki sínu sem best.

Þrátt fyrir það gleymist oft að sinna þeim, húðin verður þurr á iljum og tám og það myndast sigg undir hælunum. Auðvitað er hægt að fara í fótsnyrtingu, en það er líka hægt að gefa þreyttum fótum næringu heimavið.

RAKASOKKAR ERU FRÁBÆRIR

Fyrir einhverju síðan var mér sagt af rakasokkum, en veitti þeirri umsögn litla athygli, því ég skildi ekki hversu frábærir þeir eru fyrir fæturnar fyrr en mér voru gefnir svoleiðis sokkar. Með rakasokkunum fylgdi líka fótakrem frá Meraki og þar sem mér fannst fæturnir á mér þurfa á "skyndihjálp" að halda var ekki eftir neinu að bíða. Ég bar því strax á mig kremið og skellti mér í sokkana. Settist svo niður með fæturna uppi í sófa og hvíldi mig í um klukkustund meðan kremið virkaði.

Það voru allt aðrir og hressari fætur sem komu upp úr sokkunum að þeim tíma liðnum, mjúkir og endurnærðir. Ég fylgdi leiðbeiningunum á umbúðunum, sneri sokkunum við og skolaði þá að innan og þurrkaði, full tilhlökkunar um að geta enn notað þá fjörutíu og níu sinnum áður en ég þarf að kaupa mér nýja.

Hugsaði líka með mér meðan ég var að þrífa sokkana að þetta gæti orðið frábær gjöf sem ég gæti gefið öðrum við gott tækifæri. 

MAGNESÍUMOLÍA FYRIR SOGÆÐAKERFIÐ

Það er fleira en bara tær og hælar sem þurfa athygli þegar kemur að þessari undirstöðu okkar í lífinu. Stundum verða fótleggirnir, einkum fyrir neðan hné, stífir og safna á sig smá bjúg. Oft er það vegna þess að sogæðakerfið í fótleggjunum er ekki að virka sem skyldi. Þá er gott að nýta sér eitt af þessum dásamlegu náttúrulegu ráðum og bera magnesíum-olíu á fótleggina, alveg  frá ökkla og upp í nára.

Það er mikið salt í magnesíumolíunni, svo hún verður dálítið klístruð á húðinni. Þess vegna er gott að bera hana á sig á kvöldin, fara í góðar náttbuxur og skola svo olíuna af í sturtunni næsta dag. Gott er að hafa í huga að það svíður undan saltinu í olíunni ef það er einhvers staðar opið sár eða skráma á húðinni, svo farið varlega og þvoið hana þá strax af svæðinu.

Sú olía sem ég nota er úr Zachstein námunum í Hollandi. Hallgrímur heitinn Magnússon læknir byrjaði á að flytja hana inn til landsins og ekkjan hans hefur haldið þeim innflutningi áfram. Hægt er að nálgast hana í Betra líf á 3ju hæð í Kringlunni og ég hef fundið út að Meraki vörurnar eru seldar bæði í Fakó í Ármúlanum og í Lyf og heilsu í Kringlunni. 

www.gudrunbergmann.is

Guðrún Bergmann

Guðrún Bergmann

Guðrún er einn af frumkvöðlum ýmis konar sjálfsræktarnámskeiða, sem hún hefur haldið í rúm 26 ár. Undanfarin tvö ár hefur hún beint sjónum sínum að heilsunni með námskeiðunum HREINT MATARÆÐI. Annars hafa námskeið hennar spannað vítt svið, en þó alltaf með fókus á hvernig bæta má andlega og líkamlega líðan, ná meiri árangri í starfi og njóta aukinna lífsgæða. Nýjasta bók Guðrúnar er matreiðslubókin HREINT Í MATINN, en það er sextánda bók hennar. Að auki hefur hún þýtt fjölda bóka.

Meira