c

Pistlar:

23. september 2018 kl. 15:59

Guðrún Bergmann (gudrunbergmann.blog.is)

Hvenær er best að taka bætiefnin inn?

Ég fæ oft þessa spurningu frá þátttakendum á HREINT MATARÆÐI námskeiðunum mínum. Í raun er ekki til nein regla um hvenær best er að taka þau, svo ég ráðlegg fólki yfirleitt að taka þau á morgnana og svo aftur með kvöldmatnum. Sé hins vegar verið að taka inn mikið af bætiefnum er gott að dreifa þeim yfir daginn og taka þá einn skammt í hádeginu líka.

Þumalputtareglan er að taka bætiefnin með eða strax eftir mat, þar sem sum bætiefni geta valdið brjóstsviða ef þau eru tekin á fastandi maga. Ef morgunverðurinn er ekki staðgóður er ekki ráðlegt að taka mikið af bætiefnum með honum. Þá er betra að taka þau með hádegis- eða kvöldmat.

Á FASTANDI MAGA

Yfirleitt eru leiðbeiningar á umbúðum sem gefa upp hvenær best er að taka bætiefnin. Hér kemur listi yfir helstu bætiefni sem ráðlagt er að taka á fastandi maga:

1-Glutathione, sem er sérlega öflugt andoxunarefni.

2-Góðgerla, eins og Probiotic 10 góðgerlana frá NOW eða Women’s Probiotic, sem eru gerlar sem stuðla að réttri örveruflóru í leggöngum kvenna. 

3-L-Glutamine sem er amínósýra sem er aðalorkugjafi frumna ónæmiskerfisins og meltingavegarins. Stuðlar að endurnýjun og uppbyggingu þarmaveggjanna.

4-B-vítamín eins og Ultra B-12 frá NOW, sem er í vökvaformi, en B-12 vítamín er sérlega mikilvægt fyrir heila og taugakerfið. Að auki er það nauðsynlegt til framleiðslu á rauðum blóðfrumum og viðhaldi á heilbrigðum meltingarvegi.

5-Rhodiola, sem er enska heitið á burnirót er einnig gott að taka á fastandi maga. Rhodiola eykur súrefnisupptöku og er styrkjandi fyrir ónæmiskerfið, einkum yfir vetrartímanna, auk þess sem það hefur góð áhrif á geðheilsuna.

6-Bætiefni fyrir liði, ef það er ráðlagt á umbúðunum. Sum er ráðlagt að taka með mat, svo fylgið leiðbeiningunum.

7-Meltingarensím ætti að taka fyrir máltíðir, til að þau virki sem best.

MEÐ MAT FYRRI HLUTA DAGS

Eftirfarandi bætiefni er gott að taka með mat fyrri hluta dags:

1-Fjölvítamínblöndur eins og EVE fyrir konur og ADAM fyrir karla. Þær eru frá NOW.

2-Psyllium Husk trefjar, sem fela ekki í sér neina næringu fyrir líkamann, en eru næring fyrir örveruflóruna í þörmum. Trefjarnar draga líka í sig vökva og efni sem eru á leið í gegnum ristilinn og þétta því hægðir.

3-C-vítamín, sem er vatnsuppleysanlegt. Það þýðir að ef líkaminn notar það ekki skolast það úr honum í gegnum þvag. Gott er að taka stærri skammta af því undir miklu álagi eða ef verið er í mjög menguðu umhverfi.

4-Gott er að taka D-3 og K-2 bætiefnið fyrri hluta dags, svo og Sink.

5-Omega-3 í hylkjum eða í fljótandi formi, eins og AstaLýsi, sem er blandað með astaxanthin sem er öflugt andoxunarefni.

6-Best er að taka MSM (Methylsulfonylmethane), túrmerik og Chlorella fyrri hluta dags.

7-E-vítamín er fituuppleysanlegt efni, svo það þarf að taka það með máltíð sem inniheldur fitur. Því gæti verið gott að taka það með hádegis- eða kvöldmat.

8-Seleníum er steinefni með andoxandi eiginleikum. Selenium og E-vítamín styðja að upptöku hvors annars, svo það er gott að taka þessi bætiefni saman. Bandaríski læknirinn og rithöfundurinn Dr. Andrew Weil segist taka þau með hádegis- eða kvöldmat.

MEÐ MAT SÍÐARI HLUTA DAGS

1-Oft er ráðlagt að taka magnesíum inn síðari hluta dags eða jafnvel eftir kvöldmat, þar sem það hefur slakandi áhrif og bætir líkur á góðum nætursvefni. Ég tek hins vegar Magnesium & Calcium reverse ratio frá NOW oft inn bæði á morgnana og kvöldin. Skammturinn er 3 töflur en ef ég deili honum niður á tvær inntökur, tek ég 2 og 2 í hvort skipti.

2-Gott er að taka Q-10 inn síðari hluta dags, en það virkar vel með bæði E-vítamíni og seleníum, svo ef það er tekið tvisvar á dag, má taka það bæði með hádegis- og kvöldmat.

3-Silymarin, sem er virka efnið í mjólkurþistli, svo og önnur bætiefni sem styrkja lifrina er best að taka með kvöldmatnum. Samkvæmt kínverskri læknisfræði (sá greinina: Líkamsklukkan) er tími lifrarinnar rétt eftir miðnætti og því er gott að styrkja hana með mjólkurþistli áður en að mesta úrvinnslutíma hennar kemur. 

4-Kelp eða þaratöflur er gott að taka með kvöldmatnum, en í þeim er að finna A-, B-1, B-2, C-, D- og E-vítamín, auk steinefna eins og sinks, joðs, magnesíums, járns, kalíums, kopars og kalks. Þaratöflur eru sérlega blóðaukandi.

EFTIR KVÖLDMAT

Í grein á vefsíðu sinni ráðleggur Dr. Mercola að eftirfarandi bætiefni séu tekin á kvöldin, þ.e. eftir kvöldmat.

Collagen, sem styrkir húðina. Magnesíum, sem ég fjallaði um hér að framan. Resveratrol, sem er andoxunarefni. Eplaedik, sem er sérlega hreinsandi og jafnar Ph gildi líkamans. Og hann ráðleggur einnig að öll bætiefni sem tekin eru fyrir augun og innihalda efni eins og Lutein og Zeaxanthin séu tekin á þessum tíma dags.

HVENÆR OG HVERSU LENGI

Hvenær sem bætiefnin eru tekin er alltaf mikilvægt að drekka mikið vatn með þeim. Gott er fyrir þá sem eru viðkvæmir í nýrum að sjóða fyrst allt vatn sem þeir drekka og kæla það svo niður fyrir neyslu eða drekka það við stofuhita.

Ég fylgi alltaf ráðum Hallgríms heitins Magnússonar læknis, en hann sagði mér að taka daglega bætiefni sem ég ætlaði til að styrkja líkamann í minnst 3-4 mánuði. Hans mat var að þau skiluðu ekki viðvarandi árangri á styttri tíma.

Heimildir: www.mercola.com og www.drweil.com

Guðrún Bergmann

Guðrún Bergmann

Guðrún er einn af frumkvöðlum ýmis konar sjálfsræktarnámskeiða, sem hún hefur haldið í rúm 26 ár. Undanfarin tvö ár hefur hún beint sjónum sínum að heilsunni með námskeiðunum HREINT MATARÆÐI. Annars hafa námskeið hennar spannað vítt svið, en þó alltaf með fókus á hvernig bæta má andlega og líkamlega líðan, ná meiri árangri í starfi og njóta aukinna lífsgæða. Nýjasta bók Guðrúnar er matreiðslubókin HREINT Í MATINN, en það er sextánda bók hennar. Að auki hefur hún þýtt fjölda bóka.

Meira