c

Pistlar:

22. apríl 2019 kl. 9:43

Guðrún Bergmann (gudrunbergmann.blog.is)

Dagur Jarðar 2019

Í dag er DAGUR JARÐAR. Sameinuðu þjóðirnar tilnefndu 22. apríl formlega sem alþjóðlegan dag tileinkaðan Jörðinni árið 1990. Það væri samt frábært ef við hugsuðum um alla daga sem DAGA JARÐAR, því Jörðin er hnötturinn sem við lifum og hrærumst á.

Við köllum hana stundum Móður Jörð, en komum á engan hátt fram við hana sem slíka. Umgengni okkar og ágangur á gæði Jarðar hefur engan saðningspunkt. Þjóðir og einstaklingar keppast um aðgang og yfirráð að auðlindum hennar.  Þetta endalausa kapphlaup hefur búið til það félagslega ójafnvægi sem ríkir í flestum samfélögum heims. Það hefur einnig leitt til mikillar mengunar og þeirra loftslagsbreytinga sem ógna nú lífríki jarðar. Breytingarnar eiga sér stað hraðar en spáð var – sjá viðvaranir David Attenboroughs – og koma til með að hafa mikil áhrif á lífsafkomu manna á Jörðinni.

SAGAN Á BAK VIÐ DAG JARÐAR

Upphafið að hinum alþjóðlega DEGI JARÐARmá rekja til hreyfingar í Bandaríkjunum, sem staðið hafði fyrir DEGI JARÐARárlega þann 22. apríl frá árinu 1970. Það var Gaylord Nelson, sem þá var þingmaður Wisconsin á Bandaríkjaþingi sem stóð fyrir fyrsta DEGI JARÐAR. Hann skildi brýna þörf þess að vinna að umhverfismálum með samstilltu átaki eftir að hafa orðið vitni að miklu olíuslysi við Santa Barbara í Kaliforníu árið 1969.

Á þessum árum voru stúdentaóeirðir tíðar og mikið um mótmæli gegn stríðinu í Vietnam. Nelson tókst á einhvern ótrúlegan hátt að virkja þessa mótmælendahópa til að mæta á fjöldafundi til að mótmæla mengun og umhverfisslysum. Ég segi á ótrúlegan hátt, því á þessum árum var hvorki til að dreifa samfélagsmiðlun né tölvupóstum.

VIÐBRÖGÐ STJÓRNVALDA

Eftir þennan fyrsta DAG JARÐAR árið 1970 brugðust Bandaríkjaþing og Nixon, þáverandi forseti Bandaríkjanna strax við. Í júlí það sama ár (innan 3ja mánaða) var sett á  stofn umhverfisráðuneyti undir heitinu Environmental Protection Agency (EPA). Samhliða því voru sett lög um verndun vatnsbóla og árfarvega og verndun dýra í útrýmingarhættu.

EARTH DAY ERU ÖFLUG SAMTÖK

Í dag eru það samtökin Earth Day Network, sem halda utan um viðburði og útifundi í tenglsum við DAG JARÐAR.Þau eru talin vera öflugustu óháðu umhverfisverndarsamtök í heiminum. Earth Day Network hefur dreift umhverfisverkefnum sínum yfir allan aprílmánuð. Í ár er gert ráð fyrir að meira en einn milljarður manns um allan heim taki þátt í þeim víða um heim. Útifundir og samkomur tengdar umhverfisvernd eiga sér þó flestar stað í dag 22. apríl.

ÁHERSLAN Í ÁR

Þótt Earth Day Network samtökin starfi um allan heim, eru stærstu verkefnin ár hvert gjarnan í Bandaríkjunum. Í ár er unnið að því að hreinsa umhverfið, öll græn svæði, árfarvegi og vötn. Þegar er búið að skipuleggja hreinsunarstarf í áttatíu borgum, þar á meðal Chicago, Dallas, Denver, Honolulu, Los Angeles, Miami, New York, Richmond, San Diego, San Francisco, Seattle og Washington D.C.

Fleiri borgir bætast sífellt við, en stærstur hluti hreinsunarstarfsins er unninn af sjálfboðaliðum, enda er mikil hefð fyrir sjálfboðaliðastarfi í Bandaríkjunum.

ALLT MÆLT OG METIÐ

Hreinsunarstarf Earth Day Network á DEGI JARÐAR2019 miðar að því að hvetja til frekari stuðnings sjálfboðaliða við starfið og sýna fram á að hægt sé að hafa áhrif á magn úrgangs í umhverfinu. Í ár verður tæknin notuð til að skrá og staðsetja allan árangur.

Árið 2020 á 50 ára afmæli DAGS JARÐAR, er síðan stefnt að verkefni, sem kallað er HIN MIKLA ALHEIMSHREINSUN. Markmiðið er að verkefnið leiði til yfir 100.000 viðburða víða um heim og að það takist að hreinsa upp minnst 1 milljarð eininga af úrgangi.

„Þetta víðtæka hreinsunarstarf mun tengja saman milljónir manna um allan heim, í vinnu að stærsta samhæfða sjálfboðaliðaviðburði sögunnar“,segir Kathleen Rogers forseti Earth Day Network.

Markmiðið er frábært, en þó er sorglegt til þess að hugsa að umgengni manna sé slík að það þurfi að hreinsa allan þennan úrgagn.

TEKUR ÍSLAND ÞÁTT Á NÆSTA ÁRI?

Ég hef verið í sambandi við Tómas J. Knútsson, herforingja Bláa hersins. Hann hefur í gegnum árin verið ötull við að hreinsa hafnir og fjörur á Reykjanesi og víðar. Auk þess hefur hann árlega gengið meðfram flugvallagirðingunni á Keflavíkurflugvelli, ásamt hópi fólks til að hreins upp rusl þar. Sjálf hef ég staðið að ýmsum umhverfisverkefnum, allt frá árinu 1990. Einnig var ég ein af þeim sem stóð fyrir GRÆNUM APRÍL, fimm ára umhverfisverkefni sem stóð frá apríl 2011 til apríl 2015.

Stefna okkar Tómasar er að kanna hvort við getum fundið samstarfsaðila, sem vilja vinna með okkur að því að gera Ísland að þátttakanda í þessu stóra verkefni Earth Day Network á næsta ári.

Guðrún Bergmann

Guðrún Bergmann

Guðrún er einn af frumkvöðlum ýmis konar sjálfsræktarnámskeiða, sem hún hefur haldið í rúm 26 ár. Undanfarin tvö ár hefur hún beint sjónum sínum að heilsunni með námskeiðunum HREINT MATARÆÐI. Annars hafa námskeið hennar spannað vítt svið, en þó alltaf með fókus á hvernig bæta má andlega og líkamlega líðan, ná meiri árangri í starfi og njóta aukinna lífsgæða. Nýjasta bók Guðrúnar er matreiðslubókin HREINT Í MATINN, en það er sextánda bók hennar. Að auki hefur hún þýtt fjölda bóka.

Meira