c

Pistlar:

26. mars 2020 kl. 9:36

Guðrún Bergmann (gudrunbergmann.blog.is)

Ónæmiskerfið þarf að vera öflugt

Ég fylgist daglega með ótal bloggpóstum frá bandarískum og breskum náttúrulæknum og læknum sem stunda heildrænar lækningar (functional medicine). Einn af þeim er náttúrulæknirinn Dr. Sharon Stills, en fyrir rétt um tíu árum síðan leitaði ég einmitt til hennar eftir aðstoð. Hún hjálpaði mér að rétta við ónæmiskerfi mitt, sem var við núllið og ná heilsu á ný, eftir ýmis áföll og útbruna í starfi. 

ALDREI OF VARLEGA FARIÐ

Grein Dr. Stills á Women‘s Health Network, fjallar um viðbrögð við Covid-19 smiti og mikilvægi þess að við tökum þá hættu alvarlega. Það eru ekki bara þeir sem eldri eru sem eiga á hættu að smitast, heldur í raun allur aldur, þótt þeir sem yngri eru séu fljótari að jafna sig. Flestir sem lentu á sjúkrahúsum í Bandaríkjunum vegna smitsins í síðustu viku voru á aldrinum 20-54 ára.

Ein ástæða þess að vírusinn dreifir sér jafn hratt og hann gerir er að um 80% þeirra sem smitast fá mild einkenni sem líkjast bara venjulegu kvefi. Þar sem þeir gera sér ekki grein fyrir að þeir séu smitaðir, halda þeir áfram með daglegt líf eins og ekkert hafi í skorist og smita aðra.

SKERT ÓNÆMISKERFI HJÁ MÖRGUM

Dr. Stills segir að mesta hættan á alvarleika veikinnar sé hjá þeim sem eru með skert ónæmiskerfi. Hún segir jafnframt að margir geri sér ekki grein fyrir því í hvaða ástandi  ónæmiskerfi þeirra sé. Ýmsir sjúkdómar geta dregið úr styrkleika þess, svo sem almennt heilsufar, skurðaðgerðir og lyfjanotkun. En hverjir eru að hennar mati með skert ónæmikerfi?

Hér á eftir fylgir stuttur listi frá Dr. Stills:

  • Þeir sem eru með sjúkdóma sem draga úr styrk ónæmiskerfisins. Þeir geta verið krabbamein, sykursýki, hár blóðþrýstingur, liðagigt , bólgusjúkdómar í meltingarvegi, lungnasjúkdómar eins og bronkítis, allir sjálfsónæmissjúkdómar og margir fleiri.
  • Þeir sem þjást af einkennum sem haga sér á svipaðan hátt. Þessi einkenni geta meðal annars verið efnaskiptavandamál, allir krónískir bólgusjúkdómar, iðraólga og fleira.
  • Þeir sem hafa verið í kímó eða geislameðferð vegna krabbameina eða hálskirtlar hafa verið teknir úr.
  • Þeir sem hafa fengið sýkingar sem hafa haft eyðileggjandi áhrif á öndunarkerfið, einkum lungnabólgu og krónískan bronkítis, eða aðrar krónískar sýkingar.
  • Þeir sem taka lyf, ekki bara þau sem ætlað er að hafa bælandi áhrif á ónæmiskerfið (þar eru margir flokkar), heldur þau sem eru með aukaverkanir sem skerða ónæmisvarnir líkamans, þar á meðal mikið af þeim lyfjum sem mest er ávísað í heiminum: Statin-lyf, getnaðarvarnarlyf (p-pillan), sýklalyf og öll hugbreytandi lyf.
  • Hinir eldri, því ónæmisvarnir minnka almennt með aldrinum.
  • Barnshafandi konur, sem vegna einhvers ofangreinds eiga á hættu að sýkjast af Covid-19, sem hefur þá bæði áhrif á móður og fóstur.

Mikilvægt er því að sýna nærgætni nálægt fólki sem er í þessum áhættuflokkum, jafnvel þótt við „höldum“ að við séum ekki smituð.

5 MERKI UM AÐ ÓNÆMISKERFIÐ ÞURFI STUÐNING

Hér á eftir koma svo fimm þættir sem Dr. Stills telur upp sem merki um að ónæmiskerfið þurfi sérstakan stuðning.

#1-ÞÚ ERT UNDIR STÖÐUGU STREITUÁLAGI

Færðu oft kvef eða mikið nefrennsli eftir að hafa lokið stóru verkefni í vinnunni eða farið í gegnum tilfinningaleg vandamál heima? Undirliggjandi ástæða þess gæti verið streita, en hún er þekktur þáttur í skertum ónæmisviðbrögðum.

Streita og sú bylgja af hormóna- og lífeðlisfræðilegum breytingum sem hún veldur í líkamanum, tengist minna magni af eitilfrumum, eða hvítum blóðfrumum sem vinna á sýkingum. Skortur á þeim eykur möguleikann á að þú fáir frekar kvef eða flensuvírusa. 

Einmitt núna er mikilvægt að finna leiðir til að slaka á, hugleiða eða hlusta á róandi hugleiðslutónlist.

Smelltu HÉR til að finna ókeypis hugleiðslu og HÉR til að finna ókeypis hugleiðslutónlist.

#2-ÞÚ ERT MEÐ MELTINGARVANDAMÁL

Rannsóknir benda til þess að allt að 80% af ónæmiskerfi okkar sé að finna í meltingarveginum. Þarmarnir eru því „heimahöfn“ ónæmiskerfis líkamans.

Á öllum þarmaveggjunum eru góðgerlar og örverur sem verja þarmana fyrir sýkingu og stuðla að virkni ónæmiskerfisins, þar með talið framleiðslu hvítra blóðfrumna. Aðrar frumur sjá um að nema sjúkdómsvalda og láta ónæmiskerfið vita að það þurfi að bregðast við.

Þegar ekki er nægilega mikið af góðgerlum eða góðum bakteríum á þarmaveggjunum, taka slæmar bakteríur yfir (candida sveppur, mygla o.fl.) og trufla virkni ónæmiskerfisins í þörmunum. Við það skapast meiri hætta á sýkingum og sjálfsónæmissjúkdómum.

Ef þú ert með mikið af meltingarvandamálum – þar með talið mikið loft í þörmum og þaninn kvið – er það merki um að lítið sé af góðgerlum í þörmunum og að þú þurfir að birgja þig upp af þeim.

#3-ÞÚ FINNUR ALLTAF TIL ÞREYTU

Ef þú ert alltaf þreytt/þreyttur, jafnvel þegar þú vaknar eftir langan nætursvefn, telst þreytan vera viðvörunarmerki frá ónæmiskerfinu. Rannsóknir sýna að þegar ónæmiskerfið er í vanda statt, reyndir líkaminn að senda meiri orku til þess til að auka virkni þess.

Við það verðurðu orkulausari og þreyttari. Ef þú ert algerlega orkulaus, er mikilvægt að taka inn andoxunarefni. Þau veita ónæmiskerfinu styrk og auka virkni þess.

Smelltu HÉR til að fá ókeypis E-bók með 5 RÁÐUM TIL AÐ STYRKJA ÓNÆMISVARNIR

#4-ÞÚ BORÐAR MIKIÐ AF SYKRI

Ef þú borðar eða drekkur of mikið af sykraðri fæðu eða vökva, slær það á starfsemi ónæmiskerfinsins. Við það falla hvítu blóðfrumurnar í nokkurs konar dá (coma) eins og vísindamenn lýsa því.

Ef þú vilt að ónæmiskerfi þitt sé öflugt og starfi vel, þarftu að hætta sykurneyslunni og neyta fæðu sem styrkir kerfið. Hana er meðal annars að finna í ávöxtum og grænmeti, sem eru rík af andoxandi vítamínum eins og A, C og E. Þau er meðal annars að finna í berjum, sítrusávöxtum, eplum, rauðum vínberjum, grænkáli, lauk, spínatkáli, sætum kartöflum og gulrótum.

Hvítlaukur er líka góður fyrir ónæmiskerfið, því hann inniheldur efni sem ráðast á vírusa og bakteríur. Shitake sveppir geta líka styrkt ónæmiskerfið. 

#5-SÁR TAKA LANGAN TÍMA AÐ GRÓA

Ef þú skerð þig eða færð skrámu á hné eða hendur, sendir líkaminn næringarríkt blóð beint á staðinn til að byrja að heila og græða húðina. Til að það takist þarf heilbrigðar ónæmisfrumur.

Ef sár og skrámur gróa seint og illa gæti það verið merki um lélegar ónæmisvarnir, hugsanlega vegna undirliggjandi sykursýki. Ef þetta kemur fyrir hjá þér, hafðu þá samband við lækni og láttu kanna blóðsykurinn.

FÁTT ER SVO MEÐ ÖLLU ILLT

Undir lok greinar sinnar segir Dr. Stills að fátt sé svo með öllu illt að ei boði eitthvað gott. Umræðan hefur loks beinst að mikilvægi ónæmiskerfisins og öllu því sem við getum gert til að efla það.

Hún hvetur fólk til að kanna ástand eigin ónæmiskerfis og hvað gera þarf til að efla það og styrkja, svo það viðhaldi heilbrigði og vellíðan.

Skráðu þig að PÓSTLISTANN til að fá reglulega pósta með greinum og upplýsingum um náttúrulegar leiðir til að efla og styrkja heilsuna.

Guðrún Bergmann

Guðrún Bergmann

Guðrún er einn af frumkvöðlum ýmis konar sjálfsræktarnámskeiða, sem hún hefur haldið í rúm 26 ár. Undanfarin tvö ár hefur hún beint sjónum sínum að heilsunni með námskeiðunum HREINT MATARÆÐI. Annars hafa námskeið hennar spannað vítt svið, en þó alltaf með fókus á hvernig bæta má andlega og líkamlega líðan, ná meiri árangri í starfi og njóta aukinna lífsgæða. Nýjasta bók Guðrúnar er matreiðslubókin HREINT Í MATINN, en það er sextánda bók hennar. Að auki hefur hún þýtt fjölda bóka.

Meira