c

Pistlar:

11. maí 2020 kl. 9:36

Guðrún Bergmann (gudrunbergmann.blog.is)

Orkan og tíminn

canstockphoto30400144„Ég hef bara ekki tíma...“. Flest þekkjum við þessa setningu og sjálf hef ég oft óskað eftir fleiri klukkustundum í sólarhringinn. En kannski snýst þetta ekki svo mikið um tímann sem við höfum, heldur hvernig við veljum að nota þann tíma sem við höfum og hversu mikla orku við höfum.

Sú orka sem við búum yfir og hvernig við nýtum hana leiðir oft til þess að við höfum meiri tíma – eða öllu heldur, nýtum tímann sem við höfum betur. Með nægri orku er nefnilega hægt að fullnýta tímann sem við fáum öll úthlutað á degi hverjum og þá breystist ýmislegt.

En hvað þarf að breytast og hvað þurfum við að skoða og velja að gera til að hafa meiri orku?

ÞETTA RÆNIR ORKU OG TÍMA

Hverjir eru helstu orku- og tímaþjófarnir hjá þér? Hjá mörgum eru það pottþétt samfélagsmiðlarnir. Allar þeir sem þú ert að fylgjast með á Instagram – eða Facebook.

Myndböndin sem þú verður að horfa á hjá áhrifavaldinum sem þú fylgist með – því þú verður að sjá hvernig hann/hún tekur til, málar sig, klæðir sig, hvort það sé töff útlit heima hjá henni/honum og hvaða brúnkukrem notað er.

Sjónvarpið er líka mikill tímaþjófur og margt af því sem hangið er yfir er svo ekkert spes. Gæti orkan og tíminn sem fer í þetta nýst betur annars staðar í lífi þínu?

AÐALORKUGJAFINN 

Einn helsti orkugjafi okkar allra er góður svefn. Samt hafa flestir lengi hundsað svefnþörf sína og um leið rýrt styrk eigin ónæmiskerfis.

Flesta skortir orku ef þeir fá ekki minnst 7-9 tíma svefn á nóttu. Best er að fara alltaf að sofa á sama tíma og vakna á sama tíma – alla daga vikunnar. Líkaminn elskar slíka reglu og hún kemur til með að skila meiri orku og öflugra ónæmiskerfi.

Ef þú ferð að sofa klukkan hálfellefu á kvöldin og vaknar klukkan sex á morgnana, færðu flottan klukkutíma fyrst á morgnana sem hægt er að nýta vel.

Líkamsrækt kemur kannski fyrst upp í hugann, því það er svo gott að stunda hana fyrst á morgnana og byggja upp orku fyrir daginn. Nú þegar morgnar eru bjartir er hægt að hjóla, hlaupa eða ganga úti og byggja upp styrk fyrir daginn – eða stunda æfingar inni.

ORKAN ÚR FÆÐUNNI

Til að hægt sé að nýta vel orkuna sem kemur úr fæðunni, þarf tvennt til. Annars vegar þarf fæðan að vera holl, hrein og vel samsett fyrir þinn blóðflokk. Hins vegar þurfa smáþarmar þínir að vera í góðu lagi, til að næringin úr fæðunni skili sér út um allan líkama og veiti orku.

Þeir heildrænu læknar sem ég fylgist með í Bandaríkjunum, telja að við sem höfum borðað hveitivörur (glúten) undanfarna áratugi séum flest, ef ekki öll með leka þarma og skaddaðar þarmatotur. Það þýðir jafnframt að í þörmunum er mikið slím, sem líkaminn hefur myndað til að verja þarmatoturnar, en glútenið skemmir þær svo þær falla saman. Sjá greinina: 9 merki um leka þarma

Séu þarmarnir í lélegu ástandi og lekir, eiga þeir erfitt með að dreifa næringu þangað sem hún á að fara út um líkamann og að framleiða þá orku sem líkaminn þarf á að halda. Því ræðst það af ástandi þarmanna hversu orkumikil eða -lítil við erum, þar sem þeir eru aðal orkuframleiðslustöð líkamans.

Til að byggja upp öflugri orkuframleiðslustöð (smáþarma) þarf fyrst að hreinsa þá, svo að næra þá á góðri fæðu, byggja upp örveruflóruna í þeim með góðgerlum eins og Probiotic 10 og svo að taka inn bætiefni eins og L-Glutamine sem styrkir og gerir við þarmaveggina.

VALIÐ ER ALLTAF OKKAR

Það er áhugavert að skoða hversu margt í lífi okkar og líkama tengist vali okkar. Hvaða fæðu við veljum að borða og hversu vel við hugum að því að fá nægan svefn.

Hversu vel við kunnum að hlusta á líkama okkar og hvað við veljum að gera með þær upplýsingar sem við fáum og hvort við stundum reglulega einhverja hreyfing til að styrkja okkur.

Með því að breyta vali okkar getum við bætt heilsu okkar, haft meiri orku og þar af leiðandi meiri tíma til að gera svo marga skemmtilega hluti.

Mynd: CanStockPhoto

Þú getur náð þér í ókeypis MORGUNHUGLEIÐSLU inni á vefsíðunni minni með því að SMELLA HÉR!

 

Guðrún Bergmann

Guðrún Bergmann

Guðrún er einn af frumkvöðlum ýmis konar sjálfsræktarnámskeiða, sem hún hefur haldið í rúm 26 ár. Undanfarin tvö ár hefur hún beint sjónum sínum að heilsunni með námskeiðunum HREINT MATARÆÐI. Annars hafa námskeið hennar spannað vítt svið, en þó alltaf með fókus á hvernig bæta má andlega og líkamlega líðan, ná meiri árangri í starfi og njóta aukinna lífsgæða. Nýjasta bók Guðrúnar er matreiðslubókin HREINT Í MATINN, en það er sextánda bók hennar. Að auki hefur hún þýtt fjölda bóka.

Meira