c

Pistlar:

5. september 2013 kl. 12:10

Guðrún Arnalds (gudrundarshan.blog.is)

Kundalini jóga gegn streitu og álagi

Flest okkar erum að glíma við streitu og álag hvort sem það er heima fyrir eða í vinnunni. Streita birtist á ólíka vegu hjá okkur. Sumir verða kvíðnir, aðrir pirraðir, sumir fá vöðvabólgu og enn aðrir eru sífellt þreyttir. Streita veldur því að hugsanir fara að hringsóla í höfðinu og við hættum að geta einbeitt okkur. Hún hefur áhrif á meltinguna, hormónastarfssemina, ónæmiskerfið og hæfileika líkamans til að endurnýja sig. Í hraða og amstri dagsins er nauðsynlegt fyrir okkur öll að kunna aðferðir til að lifa með streitu.

Kundalini jóga er aldagamalt form af jóga og býður upp á virkar leiðir til að takast á við streitu og álag nútímans. Það getur verið erfitt fyrir okkur mörg að setjast niður og slaka á þegar búið er að vera mikið að gera og hugurinn er á flögri um víðan völl. Kundalini jóga byggir á taktföstum hreyfingum í takti við öndun og það er einmitt takturinn í æfingunum sem hjálpar huganum að sleppa streitunni og spennunni sem eru búnar að byggjast upp í annríkinu. Það er minni áhersla á teygjur og kyrrstöðu og meiri áhersla á að hreyfa við orkunni í gegnum öndun og takt. Hugleiðsla í kundalini jóga er mjög aðgengileg og gerir okkur kleift að hreinsa og kyrra hugann. Kundalini jóga getur hjálpað iðkendum að umbreyta neikvæðum hugsunum og mynstrum sem hindra þá í lífinu og koma sér upp heilbrigðari venjum og hugmyndum um sjálfa sig.

Jóga er nefnilega ekki bara eitthvað sem við gerum á jógadýnu. Það er í raun aðeins  undirbúningur fyrir lífið sjálft. Jógarnir segja að æðsta form af jóga sé hjónabandið og upplyftandi samskipti við okkar nánustu. Það sem hindrar okkur í því að vera í okkar besta formi eru ekki aðstæðurnar sem við búum í heldur okkar eigin hugur og innri takmarkanir. Hugur okkar býr yfir óendanleikum möguleikum. Við þurfum bara að þjálfa hann og rækta svo hann þjóni okkur. Þá getum við verið meistarar í eigin lífi. Og samfélagið hefur svo sannarlega not fyrir heilsteipta og sterka einstaklinga.

gudrun@andartak.is   www.andartak.is

Guðrún Arnalds

Guðrún Arnalds

Guðrún Arnalds starfar sem jógakennari, markþjálfi og leiðbeinandi í Fókusing - aðferð til að hlusta á líkamann og sína innri veröld. Hún rekur jóga- og heilsustöðina Andartak. Hún hefur starfað við heildræna heilsu í 30 ár og kennt jóga í 20 ár og hefur viðað að sér þekkingu og reynslu á þessum sviðum og á öðru því sem snýr að þroskaferðalagi manneskjunnar. 

www.andartak.is

Meira