c

Pistlar:

8. janúar 2015 kl. 1:10

Guðrún Arnalds (gudrundarshan.blog.is)

Fyrst skapar þú vanann og svo skapar vaninn þig

7360135_s.jpgFyrst skapar þú vanann og svo skapar vaninn þig. Þú ert það sem þú endurtekur. Það sem þú gerir aftur og aftur ómeðvitað styrkir “meðvitundarleysi" og “slæmu og óhollu” venjurnar þínar. Það sem þú endurtekur meðvitað og reglulega styrkir “góðu og hollu” venjurnar þínar. Góðu venjurnar styrkja þig í að verða betri manneskja, að vaxa og upplifa þig sem sterka manneskju.

Okkur hættir til að láta jólafríið setja okkur úr takti og þá missum við stundum út góðu venjurnar. það getur verið sérstaklega mikið átak að koma sér af stað og finna taktinn aftur í byrjun árs.

Það er átak fyrir flesta að breyta venjum sínum og mikilvægt að koma sér upp stuðningsneti og leiðum sem styðja og styrkja okkur í að viðhalda þeim. Mér finnst oft gott að byrja á að fjarlægja úr umhverfinu það sem viðheldur gömlu venjunum. Ef ég held til dæmis áfram að kaupa súkkulaði eftir jólafríið þá verður eiginlega ómögulegt fyrir mig að borða það ekki - sem er kannski ekki vandamál ef ég get stoppað.

Það er líka mjög gagnlegt að koma sér upp reglu í lífinu. Að vakna alltaf á svipuðum tíma og helst að fara snemma að sofa og vera ekki að vinna frameftir. Mér finnst líka mjög gott að koma mér upp ákveðinni rútínu. Ég er með ákveðna morgunrútinu sem hjálpar mér að fara endurnærð út í daginn,  Ég byrja daginn á hugleiðslu sem ég geri alltaf áður en ég fer fram úr rúminu. Svo ber ég á mig olíu og fer í sturtu áður en ég fæ mér morgunverð. Olíunuddið mitt á morgnana endurnærir mig alltaf - sama hversu þreytt ég er þegar ég vakna. Þegar ég fer þannig út í daginn verður dagurinn miklu auðveldari og skemmtilegri en annars. Og ég er líklegri til að sýna sjálfri mér og öðrum þá alúð sem við eigum öll skilið.

Ég hugleiði yfirleitt alla daga og mér finnst það vera akkerið í lífi mínu. Dagleg hugleiðsla gefur mér svör þegar mig vantar góð ráð - svona eins og að fara til góðs ráðgjafa sem allt veit. Hugleiðslan mín gefur mér líka tilfinningu fyrir því að ég tilheyri einhverju stærra - og ég verð hamingjusamari. Og mér finnst hún gefa mér stöðugleika í taugakerfið - svona eins og ég  verði stöðugri innra með mér. Auk þess sem öll samskipti við mína nánustu verða ánægjulegri. Semsagt ómissandi lífsförunautur. Ég hef samt ekki alltaf hugleitt daglega og þegar það hefur dottið út hefur það oft tekið dálítið á að byrja aftur.

Mér finnst það ómissandi að fara reglulega í jóga. Jóga kennir mér og minnir mig á að hlusta á sjálfa mig - að fara ekki fram úr mér - og fær mig til að langa til að koma mér upp heilnæmum venjum. Og þar finn ég líka félagsskap fólks sem hefur frekar uppbyggjandi áhrif á mig en hitt.

En aðalatriðið finnst mér að muna að vera ekki of hörð við sjálfa mig og skamma mig ekki þó ég falli í gamlar gildrur og missi sjónar á markmiðum mínum. Að gleyma ekki að elska og samþykkja sjálfa mig eins og ég er - þrátt fyrir alla mína bresti.

Guðrún Darshan - Andartak jóga- og heilsustöð  gudrun@andartak.is

Guðrún Arnalds

Guðrún Arnalds

Guðrún Arnalds starfar sem jógakennari, markþjálfi og leiðbeinandi í Fókusing - aðferð til að hlusta á líkamann og sína innri veröld. Hún rekur jóga- og heilsustöðina Andartak. Hún hefur starfað við heildræna heilsu í 30 ár og kennt jóga í 20 ár og hefur viðað að sér þekkingu og reynslu á þessum sviðum og á öðru því sem snýr að þroskaferðalagi manneskjunnar. 

www.andartak.is

Meira