c

Pistlar:

10. febrúar 2015 kl. 15:52

Guðrún Arnalds (gudrundarshan.blog.is)

Hugleiðsla og hamingja

mudraiii_1254290.pngÞessa vikuna stendur tímaritið "Í boði náttúrunnar" fyrir skemmtilegum viðburði undir heitinu "Friðsæld í febrúar" þar sem verið er að gefa fólki kost á að prófa hugleiðslu á mismunandi formi út um allt land. Mjög skemmtilegt framtak. Jóga- og heilsustöðin Andartak tekur þátt í viðburðinum og býður upp á fjörutíu daga sameiginlegt hugleiðsluátak. 

Ég hugleiði daglega sjálf og finnst það alveg ómissandi hluti af deginum. Hér á eftir fara nokkrar hugleiðingar um hugleiðslu.

Hugleiðsla er tími með okkur sjálfum, til að endurnærast,finna kyrrðina hið innra og eiga stund með sálinni okkar. Tími til að hlusta, finna aftur taktinn innra með okkur og gefa heiminum fyrir utan frí á meðan. Hún kennir okkur að styrkja hlutlausa hugann svo við getum betur valið viðbrögð okkar og haldið í æðruleysið þegar á móti blæs.



Í hugleiðslu verður hugurinn hreinn og tær og við gefum óendanleikanum rými til að tala innra með okkur. Þannig fáum við fjarlægð á daglegt amstur um stund og í fjarlægðinni virðast þau ekki eins stór og yfirþyrmandi. Þá eigum við það til að sjá lausnir sem við sáum ekki áður.

Best er að hugleiða daglega. Ég mæli með því að byrja á að setja sér það markmið að hugleiða reglulega 40 daga. Þannig sköpum við nýjan vana. Fyrst mótum við vanann og svo mótar vaninn okkur. Samkvæmt jógafræðunum tekur það 40 daga að brjóta upp venjur sínar, 90 daga að búa til nýjan vana, 120 daga að festa nýja vanann í sessi og 1000 daga að verða meistari yfir nýja vananum.

Við erum öll mismunandi upplögð frá degi til dags, suma daga er meira álag en aðra, suma daga erum við sátt við lífið og aðra ekki, en ef við höldum áfram í gegnum allar þessar innri og ytri sveiflur að setjast niður, kyrra hugann og eiga samtal við sálina okkar þá sköpum við smám saman nýjan vana sem styður okkur þegar á reynir og þannig kennum við huganum að þjóna okkur – í stað þess að vera þrælar hans.

Í jóga- og heilsustöðinni Andartak bjóðum við reglulega upp á sameiginlega 40 daga hugleiðslu sem fólk gerir ýmist með okkur í jógatímum eða heima hjá sér. Hægt er að taka þátt í henni hvar sem er á landinu. Við erum einmitt að byrja á einni slíkri í þessari viku og það er ekki of seint að byrja núnasmile

Hugleiðsla hreinsar undirvitundina og áruna okkar. Okkur finnst öllum sjálfsagt að fara reglulega í bað.  Það er jafn mikilvægt að hreinsa  hugann – annars verður hann ofhlaðinn. Regluleg hugleiðsla er eins og góður vinur sem nærir okkur og gefur góð ráð.

Rannsóknir hafa ítrekað sýnt fram á jákvæð áhrif hugleiðslu og aukna hamingju þeirra sem hugleiða reglulega. Það hefur til dæmis verið sýnt fram á að við erum öll með ákveðna staði í heilanum fyrir jákvæðar og neikvæðar tilfinningar. Þeir sem hugleiða reglulega virðast virkja meira þann hluta heilans þar sem við upplifum jákvæðni og almennt finna fyrir meiri hamingju.

Í öllum hraðanum og áreitinu sem við flest búum við er ómissandi að geta átt nærandi stund með sjálfum sér og að hreinsa út úr huganum svo við getum komið fersk og ný að verkefnum líðandi stundar og átt innihaldsríkari samskipti við okkar nánustu.

“Njóttu hugleiðslunnar. Ef þú sinnir henni daglega og leyfir þér að upplifa hana þá verður hún að gullnum þræði sem tengir þig við óendanleikann.” Yogi Bhajan

Andartak jóga- og heilsustöð   gudrun@andartak.is

Guðrún Arnalds

Guðrún Arnalds

Guðrún Arnalds starfar sem jógakennari, markþjálfi og leiðbeinandi í Fókusing - aðferð til að hlusta á líkamann og sína innri veröld. Hún rekur jóga- og heilsustöðina Andartak. Hún hefur starfað við heildræna heilsu í 30 ár og kennt jóga í 20 ár og hefur viðað að sér þekkingu og reynslu á þessum sviðum og á öðru því sem snýr að þroskaferðalagi manneskjunnar. 

www.andartak.is

Meira