c

Pistlar:

6. janúar 2022 kl. 10:26

Guðrún Arnalds (gudrundarshan.blog.is)

Einfalt líf í flóknum heimi

dreamstime_m_84644254Ég hef verið að upplifa þrá eftir einfaldleika undanfarið. Að lifa einfaldara lífi. En það er ekki einfalt að einfalda í flóknum heimi nútímans. Samskipti okkar fara meira og meira fram í gegn um tölvur og síma. Við erum orðin háð tækjum og rafrænni veröld. Rafræn samskipti eru mun minna nærandi en að hittast og snertast.

Þegar ég hugleiði á einfaldleika koma upp minningar úr æsku. Ein af þeim er úr sumarbústaðnum hans afa míns. Ég sé hann fyrir mér beran að ofan að raka sig og hlusta á veðurfréttir. Ég heyri í huganum suðið í gasinu og finn kyrrðina sem umlykur húsið. Ég man hvernig það tók mig oft tíma að aðlagast þessum hæga takti og hvernig ég fór svo að finna öryggið sem fylgdi.

Líkami minn man hvernig einfaldleiki lítur út. Hann finnur bilið á milli þess sem er og þess sem gæti verið. Ég finn í líkamanum að ég er stöðugt að bregðast við áreiti. Ég les fréttirnar, ég sé fólk sem mér þykir vænt um takast á um ólíkar skoðanir og ólíka sýn á það sem við stöndum frammi fyrir. Það ríkir óvissa sem við erum öll að reyna að höndla.

Ég get ekki breytt þessum ytri aðstæðum. Og samt er margt sem ég get haft áhrif á. Ég finn það svo vel núna þegar jólafríinu lýkur hvað rútína er mikilvæg. Taktur í deginum, rútína er ein af undirstöðunum að öryggiskennd og einfaldleika. Hugrekki er líka mikilvægt. Hugrekki til að finna hvernig mér líður, án þess að gera aðra ábyrga. Að þora að berskjalda mig og tala um tilfinningar mínar. Hugurinn segir mér að það sé ekki öruggt. Ef ég anda djúpt nokkrum sinnum þá finn ég að hugurinn veit ekki allt, bara sumt. Hann veit ekki það sem hjartað veit. Ef ég hlusta vel og djúpt þá segir hjartað mér hvað ég þarf.

Einfaldleiki er að gera eitt í einu og hafa hugann við það. Að hvíla í mér þrátt fyrir að umhverfið sé á hraðferð. Þrátt fyrir að vindurinn blási úti og allt um kring. Vindurinn getur verið á svo mörgum stöðum í einu. Hann getur hrist eina grein hér og og einn glugga þar og hann virðist oft koma úr öllum áttum. Þannig er líka stundum innra með mér. Ég er þá með hugann út um allt eins og vindurinn og get ekki tekið einföldustu ákvarðanir. Ég reyni að hugsa um margt í einu. Að hrista eitt verkefni hér og annað þar. En vindurinn er hluti af stærri heild. Jörðin heldur í hlutina og vindurinn hristir þá til. Jörðin er svo mikilvæg. Að stíga fast til jarðar og segja nei þegar það á við. Að ætla mér ekki of mikið. Það er svo mikilvægt að muna að ég er líka hluti af stærri heild. Eins og vindurinn. Að ég þarf ekki að gera allt sjálf. Ég get beðið um aðstoð. Þetta eru auðvitað verkefni sem við glímum öll við út lífið.

Ef ég ætla að velja einfaldleika þá finn ég að það er gott að byrja á að taka til. Að henda því sem ég þarf ekki. Ég byrja í huganum. Ég tek út það sem er búið að hlaðast upp. Hvað stendur í veginum fyrir því að mér líði vel? Að ég geti notið andartaksins? Ef ég hlusta djúpt og vel þá birtast gestir hugans einn af öðrum. Þeir tala um verkefnin sem þurfa að komast í verk, um áhyggjur af því hvert heimurinn er að fara og um það hvað ég ætli að hafa í matinn í kvöld. Þeir eru allir mikilvægir og ég get gefið þeim rými til að tjá sig. Svo get ég boðið þeim að setjast við hliðina á mér, úti í garði eða jafnvel að fara í fjallgöngu á Esjuna. Ég fullvissa þá um að ef þeir þurfi meiri áheyrn þá muni ég gefa mér tíma til að hlusta þegar ég er tilbúin. Þannig fæ ég næði til að hvíla mig um stund í gestalausu húsi. 

Það sem styður mig í að velja einfaldleika er fyrst og fremst reglulega iðkunin mín. Þegar ég hugleiði styrki ég þessa kyrru miðju innra með mér sem getur valið að bjóða gestum hugans að draga sig í hlé. Ég rifja það upp í líkamanum um leið og ég iðka jógað mitt, hvernig það er að líða vel og njóta andartaksins. Ég rækta hæfileikann til að vera til staðar fyrir mig, að muna að ég er ekki hugsanirnar mínar, að ég er ekki vindurinn, ekki hraðinn, ekki erfiðleikarnir sem stundum blasa við allt í kring. Ég á mér kjarna sem stendur kyrr í vindinum eins og trén í garðinum mínum.

Guðrún Arnalds, jógakennari, hómópati og leiðbeinandi í Fókusing, aðferð til að hlusta á visku líkamans. 

Andartak jóga- og heilsustöð

andartak@andartak.is

Guðrún Arnalds

Guðrún Arnalds

Guðrún Arnalds starfar sem jógakennari, markþjálfi og leiðbeinandi í Fókusing - aðferð til að hlusta á líkamann og sína innri veröld. Hún rekur jóga- og heilsustöðina Andartak. Hún hefur starfað við heildræna heilsu í 30 ár og kennt jóga í 20 ár og hefur viðað að sér þekkingu og reynslu á þessum sviðum og á öðru því sem snýr að þroskaferðalagi manneskjunnar. 

www.andartak.is

Meira