c

Pistlar:

12. maí 2022 kl. 9:14

Guðrún Arnalds - Darshan (gudrundarshan.blog.is)

Meltingareldurinn

Ég fór í mína árlegu vorhreinsun um helgina. Mér finnst ég léttari og glaðari í alla staði og hugurinn skýrari. Ég sef betur á nóttunni og morgunhugleiðslan mín verður dýpri. Ég var komin með nokkrar venjur sem ég vissi að væru ekki að þjóna mér. Ég sótti t.d. í snakk þegar hugurinn varð eirðarlaus og sætt þegar ég var orkulaus. Núna finnst mér auðveldara að hlusta á líkamann og velja það sem hann langar í en ekki það sem hugurinn kallar eftir. Ég hvatti manninn minn til að taka þátt í þessu með mér. Hann var ekkert yfir sig spenntur við tilhugsunina en ákvað samt að slá til. Á öðrum degi fór hann að tala um hvað honum liði ótrúlega vel og að hann væri fullur af orku. Hann viðurkenndi að þetta væri miklu auðveldara en hann hefði búist við. 

Minn innblástur til að fara í vorhreinsun kemur frá Ayurveda, systurvísindum Jógafræðanna. Ayurveda kennir okkur að lifa í takti við árstíðirnar og okkur sjálf. Orðið Ayurveda þýðir “vísindin um verundina." Ayurveda er sögn. Að gera Ayurveda er að skuldbinda þig til þess að gefa sinni æðstu vellíðan, tíma og orku. Á eigin forsendum, skref fyrir skref. Til dæmis að velja ávöxt í staðinn fyrir súkkulaðiköku. Að lesa eitthvað skemmtilegt frekar en að horfa á hrollvekju. Að fara snemma að sofa í stað þess að horfa á sjónvarpið fram á nótt. Að gera minna og vera meira. Bæði í einu.
 
Jóga og ayurveda leggja mikla áherslu á Agni, hinn innri eld. Agni þýðir umbreytandi afl. Við erum ekki að tala um eld í eiginlegri merkingu heldur hæfileika líkamans til að melta. Agni er konungur meltingarinnar og lykill að heilsu og vanheilsu. Allt kemur frá meltingunni og meltingin stýrist af því hvað og hvernig við borðum. Fæðan er grunnur lífsins. Allt er fæða. Ekki bara maturinn sem við borðum heldur líka allt sem við tökum inn úr umhverfinu. Fæða handa líkama, huga og sál. Agni nær yfir öll þessi svið.

Agni er eldurinn sem stýrir svengd og matarlyst og því hvernig þú vinnur úr fæðu. Hann verður fyrir áhrifum af fæðunni sem þú borðar, en líka hugsunum, tilfinningum, streitumagni, hvar þú borðar, árstíð og veðri. Ef agni er ekki í jafnvægi þá myndast ama. Ama er það sem við náum ekki að melta. Það sest á botn magans, truflar meltinguna og veldur meiri myndun á ama. Ama þornar á endanum og ferðast til annarra líkamshluta og veldur sjúkdómum. 
 
Til að hreinsa út ama er mælt með því að létta á meltingunni á um það bil sex mánaða fresti, á vorin og haustin. Það eru til nokkrar leiðir til þess að taka vor- og hausthreinsun. Við getum fastað eða bara borðað auðmeltari fæðu. Á Indlandi er oft notaður réttur sem heitir Kitchari og er búinn til úr Mungbaunum og hrísgrjónum. Þegar mungbaunir og hrísgrjón eru soðin saman myndast prótein sem líkaminn á auðvelt með að melta. Fyrir þá sem vilja prófa er hér uppskrift að Kitchari.Það er til dæmis hægt að setja sér að borða graut á morgnana, kitchari í hádeginu og súpu á kvöldin í eina til þrjár vikur.  

Ég hvet þig til að prófa. Það getur verið smá áskorun en er alveg þess virði. Ef þú vilt fá aðstoð við að finna út hvað þú þarft og hvatningu til að fylgja því eftir er velkomið að hafa samband. Ég býð upp á einkatíma fyrir þá sem vilja stuðning við að hlúa að líkamlegri og andlegri heilsu á heildrænan hátt og finna lífsorkunni farveg. 

Þegar mataræðið er rangt gerir meðalið ekkert gagn. Þegar mataræðið er rétt er meðalið óþarft. Ayurvedískur málsháttur. 

Guðrún Arnalds

Jógakennari, hómópati, markþjálfi og  leiðbeinandi í Fókusing,aðferð til að hlusta á visku líkamans

andartak@andartak.is

 

Guðrún Arnalds - Darshan

Guðrún Arnalds - Darshan

Guðrún Arnalds - Darshan starfar sem hómópati, lífsmarkþjálfi (life coach) og jógakennari og rekur jóga- og heilsustöðina Andartak.

www.andartak.is

Meira