c

Pistlar:

6. september 2022 kl. 11:14

Guðrún Arnalds (gudrundarshan.blog.is)

Augu líkamans

Það eru til ótal margar bækur um orkustöðvarnar. Margir listar yfir það hvað tilheyrir hverri orkustöð. En þær segja þér ekki hvernig þú skynjar lífið. Ef þú vilt koma jafnvægi á þínar eigin orkustöðvar þá þarftu að fara inn á við og upplifa. Að tengja við lífið sem þú hefur lifað og hvernig það hefur leitt þig á þann stað sem þú ert á núna. Orkustöðvarnar eru fyrir mér eins og mismunandi víddir sem við getum horft á líf okkar í gegn um, eins og prismi sem sýnir okkur hina mörgu liti lífsins og hvar má fægja betur glerið sem við horfum á heiminn í gegn um. Hvernig áföllin í lífinu hafa mótað okkur og skekkt myndina. 
 
Fyrsta orkustöðin stendur fyrir jörð. Öryggi, stöðugleika, næringu. Eins og rætur trésins sem skapa grunn að heilbrigði þess. Hvar liggja þínar rætur og hvernig er samband þitt við þær? Hvernig hafa áföllin þín veikt ræturnar og hvernig breyttist viðhorf þitt til lífsins við það? Hvernig tilfinning er það að hvíla í sterkum rótum og finna til öryggis? Kannski áttu minningar úr æsku þar sem þú upplifðir öryggi og stöðugleika. Kannski geturðu tengt við náttúruna og beðið hana að hjálpa þér að muna hvernig tilfinning það er að hvíla í sér, að vera stöðug og treysta lífinu. Hvernig gengur þér að vera þitt eigið foreldri og vera til staðar fyrir þig á uppbyggjandi hátt? Allt þetta eru spurningar sem geta hjálpað okkur að skoða samband okkar við fyrstu orkustöðina.
 
Þegar ég hlusta og skynja ræturnar mínar þá fer ég ósjálfrátt niður lærin og í mjaðmirnar. Mjaðmirnar eru eins og skál sem heldur utan um lífið. Utan um ævintýrið og öryggiðUmgjörð utan um lífið. Ég finn konu sem er dugleg og sterk. Jörðin kemur upp á móti henni. Hún gefur takt og dansar taktinn. Hún gengur og finnst gaman að framkvæma. Ég finn líka litla stelpu með sterka fætur. Hún á sér stað í líkamanum. Hún horfir á heiminn, ekki bara gegn um augun heldur allan líkamann. Hún er ekki mikið að velta fyrir sér hlutunum. Hún er bara hér og nú. Hún á heiminn.
 
Streita er í raun form af ótta. Óöryggi og skortur á jörð. Við missum sambandið við náttúruna. Förum að aðskilja okkur frá henni og finnast við vera ein og þurfa að gera allt án hjálpar. Um leið og ég skynja öryggið sem býr í líkamanum þá fylgir því forvitni. Löngun til að kanna heiminn og tengja við annað fólk. Ég kem út úr því að vera frosin yfir í að flæða. Kem úr því að vera hrædd yfir í að finna styrk og tilgang og nýja möguleika. Ég anda að mér fersku lofti, tilbúin að takast á við áskoranir lífsins. 
 
Um leið og ég tengi við veruna í mér, þessa sem veit hvað hún á að vera - eins og birkitréð sem veit hvernig á að vera birkitré þá verður allt svo einfalt og skýrt. Þegar við tengjum við kjarnann tengjumst við um leið verunni í okkur sjálfum. Við förum að horfa út, ekki bara um augun í höfðinu heldur líka augun í maganum og í öllum líkamanum. Þegar við skynjum heiminn á þennan hátt færist jörðin nær. Heimurinn verður einfaldari og meira til í að leika sér. Við upplifum okkur örugg og nærð og vitum að við tilheyrum náttúrunni og lífinu. 

Guðrún Arnalds, jógakennari, hómópati og leiðbeinandi í Fókusing - aðferð til að hlusta á líkamann. 

Andartak jóga- og heilsustöð

andartak@andartak.is

Guðrún Arnalds

Guðrún Arnalds

Guðrún Arnalds starfar sem jógakennari, markþjálfi og leiðbeinandi í Fókusing - aðferð til að hlusta á líkamann og sína innri veröld. Hún rekur jóga- og heilsustöðina Andartak. Hún hefur starfað við heildræna heilsu í 30 ár og kennt jóga í 20 ár og hefur viðað að sér þekkingu og reynslu á þessum sviðum og á öðru því sem snýr að þroskaferðalagi manneskjunnar. 

www.andartak.is

Meira