c

Pistlar:

3. mars 2023 kl. 20:05

Guðrún Arnalds (gudrundarshan.blog.is)

Að hugleiða á meðan heimurinn brennur

Við eigum öll okkar stundir og tímabil þar sem okkur finnst heimurinn vera að brenna. Þar sem okkur finnst að við verðum að gera eitthvað í málunum. Bara eitthvað. Streita getur kallað fram ástand innra með okkur sem er mjög líkt því sem gerist þegar það verða hamfarir. Langvarandi streita og áföll birtast í líkama okkar á svipaðan hátt. Líkami okkar gefur okkur þau skilaboð að það sé hætta á ferðum, að við verðum að vera í viðbragðsstöðu. Okkur fer að finnast það vera munaður sem við bara getum ekki veitt okkur þá stundina, að setjast niður og slaka á.  Hávær rödd innra með okkur minnir okkur stöðugt á sig. „Nei þú mátt ekki slaka á. Það eru mikilvæg verkefni sem þarf að sinna.“ 
 
Þetta geta verið tímabil þar sem náinn aðstandandi er að glíma við veikindi eða þegar börnunum okkar líður illa. Eða þegar við erum að takast á við fjárhagserfiðleika. Langir listar af verkefnum þar sem eitt tekur við af öðru. Ástandið í heiminum getur líka kallað fram þessi viðbrögð. Kannski bara við að lesa þetta ferðu að finna fyrir því að líkaminn spennist upp. Ef það gerist mæli ég með að anda djúpt inn og alveg frá. Og svo aftur. Anda djúpt inn og alveg frá. Kannski finnurðu að það slaknar aðeins á spennunni.
 
Það eru einmitt þessar stundir, þessi álagstímabil sem við þurfum mest á því að halda að slaka á. Á okkar tímum er það í raun lífsnauðsyn að gefa sér rými til að endurnýja taugakerfið. Það eru ýmsar leiðir til þess. Að eiga stundir í náttúrunni, að syngja í kór, að fara í sund eða að hlæja í góðum félagsskap. Jógaiðkun og hugleiðsla eru mjög góð leið til þess að styrkja og endurnæra taugakerfið. Ef ég iðka reglulega þá fer líkaminn að þekkja betur það ástand sem skapast þegar ég slaka djúpt á. Ég öðlast dýpra samband við kjarnann í mér og taugakerfið mitt fínstillist. Ég sýni mér meiri sjálfsmildi og verð meðvitaðri um hugsanir mínar og hvernig mér líður. 
 
Ég þarf reglulega að minna mig á að nærandi tími með mér skilar sér í öll mín verkefni. Þegar mér finnst heimurinn vera að brenna kallar það á bæði sjálfsmildi og sjálfsaga að gefa mér samt sem áður rými til að endurnærast. 
 
Ég býð fram minn stuðning fyrir konur sem vilja koma sér upp reglulegri jóga- og hugleiðsluiðkun. Það geta allir lært að hugleiða. 

Sex vikna námskeið hefst 22. mars. 

Innifalið:

  • Jógaæfingar sendar út vikulega. Stuttir jógatímar til að byrja með (10-15 mínútur) og svo lengjum við smám saman. Þú getur alltaf valið að nýta þér styttri upptökur ef þú hefur lítinn tíma.
  • Upptaka að hugleiðslu og eða öndunaræfingum vikulega
  • Spurningar til að hugleiða á og hvatning til að skrifa dagbók á meðan á námskeiðinu stendur
  • Upptökur með fræðslu sem tengist taugakerfinu, streitu og sjálfsnæringu.
  • Vikulegir fundir á Zoom með sameiginlegri iðkun, spjalli og stuðningi við heimaiðkunina. 


Nánar um námskeiðið: Mildi og mýkt
SkráningSkráningarskjal 

Guðrún Arnalds - jógakennari, markþjálfi og leiðbeinandi í Fókusing (aðferð til að hlusta á líkamann og sína innri veröld)

Guðrún Arnalds

Guðrún Arnalds

Guðrún Arnalds starfar sem jógakennari, markþjálfi og leiðbeinandi í Fókusing - aðferð til að hlusta á líkamann og sína innri veröld. Hún rekur jóga- og heilsustöðina Andartak. Hún hefur starfað við heildræna heilsu í 30 ár og kennt jóga í 20 ár og hefur viðað að sér þekkingu og reynslu á þessum sviðum og á öðru því sem snýr að þroskaferðalagi manneskjunnar. 

www.andartak.is

Meira