c

Pistlar:

24. apríl 2023 kl. 10:07

Guðrún Arnalds (gudrundarshan.blog.is)

Árstíðirnar í líkamanum

Náttúran umbreytist við hver árstíðaskipti. Hvalir ferðast langar leiðir, fuglar fljúga heimshorna á milli til að laga sig að umskiptum árstíðanna. Laufin falla af trjánum og hver einasta lífvera gerir breytingar í lífsháttum sínum, dvalarstað og rútínu. Allar lífverur, nema maðurinn. Við förum bara í meiri föt eða fækkum þeim og hækkum eða lækkum hitann í ofnunum.

Verslanir bjóða upp á sama matinn allt árið um kring og hvetja okkur þannig til að borða eins, sama hver árstíðin er. Þetta væri óhugsandi í náttúrunni. Nýjustu vísindi benda til þess að ef við borðum fæði sem er úr takti við árstíðirnar og ekki síst við það að borða mikið af unninni matvöru, þá hverfi mikilvægar bakteríur úr meltingarflórunni.

Við getum við lært að lifa meira í takti við okkur sjálf og náttúruna í kring um okkur. Ayurveda og jóga kenna okkur að lifa með árstíðaskiptum, að nota jurtir, te, krydd og mataræði til að tendra meltinguna og styðja hana í gegn um skilin á milli árstíða. Ef meltingin okkar virkar ekki vel þá er í raun sama hvað við borðum hollan mat. Við meltum hann ekki vel.

Vetrinum fylgir oft að við erum sólgin í þungan mat og sætmeti. Veturinn á það til að hanga í okkur fram eftir vori ef við gerum ekkert í því. Þá er líklegt að við fáum hreinsun í formi kvefs. Náttúran býður okkur að aðlagast. Ef við tökum stutta hreinsun á vorin þá förum við að elska fæðuna sem fylgir vorinu og sumrinu. Við fáum góða og sterka meltingu, blóðið og lifrin hreinsast og taugakerfið kemst í jafnvægi. Jógaiðkun styður okkur í að hreyfa nýja og ferska orku um líkamann, koma jafnvægi á taugakerfið og að kyrra hugann svo við getum notið þess sem lífið færir okkur.

Ég hef nýtt mér visku Ayurveda, systurvísinda jógafræðanna í um 30 ár og finn hvað það er mikilvægur áttaviti í öllu sem ég tek mér fyrir hendur. Jóga er akkerið mitt og minnir mig reglulega á það hver ég er og hvernig það er að finna friðsæld.

Vorið er góður tími til að létta á í líkama og sinni. Við verðum glaðari og einbeittari og getum tekið á móti lífinu af heilum hug. 

Guðrún Arnalds, jógakennari, hómópati og leiðbeinandi í Fókusing, aðferð til að hlusta á visku líkamans.

Guðrún Arnalds

Guðrún Arnalds

Guðrún Arnalds starfar sem jógakennari, markþjálfi og leiðbeinandi í Fókusing - aðferð til að hlusta á líkamann og sína innri veröld. Hún rekur jóga- og heilsustöðina Andartak. Hún hefur starfað við heildræna heilsu í 30 ár og kennt jóga í 20 ár og hefur viðað að sér þekkingu og reynslu á þessum sviðum og á öðru því sem snýr að þroskaferðalagi manneskjunnar. 

www.andartak.is

Meira