c

Pistlar:

7. júní 2023 kl. 12:03

Guðrún Arnalds (gudrundarshan.blog.is)

Möntrur og leyndardómar kyrrðarinnar

Hefurðu einhvern tíma reynt að setjast niður að hugleiða og fundið eitthvað allt annað en kyrrð og frið?  Ein leið til að hjálpa huganum að slaka á er að syngja möntrur. Möntrur geta virst mjög framandi, og þær eru það auðvitað við fyrstu kynni. Ég hef reyndar alltaf verið mjög heilluð af fjarlægum menningarheimum og framandi tungumálum. Í mínum huga eru möntrur leyndardómar til að kanna og kynnast betur. Og til að upplifa. Mantra þarf ekki að vera flókin til að hafa djúp áhrif. Hún getur verið bara eitt atkvæði. Hljóð tala beint til líkamans. Við þekkjum öll hvernig börn róast við söng.

Möntrur eru orð eða hljóð sem við endurtökum, í hljóði eða upphátt til að beina huganum í flæðandi farveg og hækka tíðni hugans. Og um leið lyftist öll skynjun okkar og verður skýrari. Hugleiðsla með möntru getur hjálpað til við að bæta andlega líðan og þar með líkamlega heilsu.

Man þýðir hugur og tra þýðir verkfæri eða vernd. Orðið mantra þýðir því vernd eða verkfæri hugans. Mantra er eins og lykill sem opnar víddir innra með okkur, lykill að óendanleikanum. Það hefur verið sagt að mantra endurómi eitthvað sem við þekkjum innra með okkur, kjarni eða viska sem býr í okkur og sem bergmálast í möntrunni. Þannig  má segja að hún sé eins og endurómun á sjálfsöryggi.

Þegar við förum með möntru þá hægist á andardrættinum. Þannig er mantra líka öndunaræfing. Mantran kallar fram taktfasta öndun, við öndum djúpt inn og hægt frá. Taktföst öndun er róandi og nærandi. 

Við virkjum sefkerfi taugakerfisins þegar við förum með möntrur. Flökkutaugin,  meginþáttur sefkerfisins liggur í gegn um hálsinn, upp við raddböndin. Margar rannsóknir sýna að hún örvast við söng. Sefkerfið gefur heilanum skilaboð um að slaka á og melta. Við erum ekki bara að melta fæðu, heldur líka allt sem við erum að takast á við í daglegu lífi. Við fáum stund til að vinna úr og sortera. Og á sama tíma getum við notið þess að syngja og hvíla í andardrættinum.

Mantra kallar fram þögn. Eftir að við hættum að fara með hana kemur enn dýpri þögn en áður. Mér finnst stundum þegar ég kem til baka úr hugleiðslu, að ég hafi farið eitthvert. Eins og að stíga út fyrir heiminn í smá stund og inn í aðra vídd. Annan veruleika sem lýtur öðrum lögmálum. Sem er víður og stór og hefur stærri tilgang. Möntrur gefa eins og farveg fyrir hugsanir. Hugsanirnar raða sér betur upp og breyta um tón. Ég næ betur að forgangsraða hvað er mikilvægt og hvíla í sjálfri mér.

Það er mjög ljúf iðkun að syngja möntrur. Ég býð þér að taka þátt í sumarhugleiðslu með mér sem er í senn öndunaræfing og einföld mantra.

Dagleg hugleiðsla er gott akkeri að hafa í annríki dagsins, hvort sem er heima eða á ferðalagi. Hún gefur okkur færi á að hlaða batteríin, að finna friðsæld og koma heim til okkar sjálfra aftur og aftur. Dagleg hugleiðsla gefur mér ákveðna reglu í óreglunni, stund með sjálfri mér og stundum gæðastund með mínum nánustu. 

Löng reynsla í að styðja fólk í gegn um daglega iðkun hefur sýnt mér að flestir þurfa stuðning og hvatningu til að koma sér upp þeirri venju að hugleiða daglega og til að viðhalda henni.

Nánar hér: Sumariðkun Andartaks

Guðrún Arnalds, jógakennari, hómópati og leiðbeinandi í Fókusing, aðferð til að hlusta á visku líkamans.

Andartak jóga og heilsustöð

 

Guðrún Arnalds

Guðrún Arnalds

Guðrún Arnalds starfar sem jógakennari, markþjálfi og leiðbeinandi í Fókusing - aðferð til að hlusta á líkamann og sína innri veröld. Hún rekur jóga- og heilsustöðina Andartak. Hún hefur starfað við heildræna heilsu í 30 ár og kennt jóga í 20 ár og hefur viðað að sér þekkingu og reynslu á þessum sviðum og á öðru því sem snýr að þroskaferðalagi manneskjunnar. 

www.andartak.is

Meira