c

Pistlar:

15. maí 2014 kl. 15:11

Sif Jóhannsdóttir (gullrikid.blog.is)

Jason ég elska þig!

Mér fannst þetta frekar hallærislegt til að byrja með. En ákvað að ég gæti ekki sleppt þessu. Í gærmorgun keyrði ég í klukkutíma inn í L.A. Keypti mér annað eintak af bók bókanna, Jason Priestley - Memoir. Fékk priority armband til að hitta manninn sem ég elskaði milli 10 og 15 ára. Manninn sem mig dreymdi um að hitta, þó ekki  nema í andartak. Keyrði svo aftur til baka og lét daginn líða. Seinni partinn fór ég aftur af stað og með 2 vinkonur með mér. Komst framarlega í röðina. Og varð 14 ára aftur. Hló trylltum gelgjuhlátri, skalf og nötraði inn í mér af tilfinningasemi, svitnaði og fann hormónana bylgjast um mig. Sagði alls konar brandara og bjó mig undir að hitta stóru ástina. Og það var allt sem mig dreymdi um og svo miklu meira. Hann gekk í salinn og við úuðum og æjuðum. Hann í stólinn og byrjaði að taka á móti aðdáendum, skrifa í bækurnar þeirra og á aðra hluti sem þeir mögulega áttu frá Beverly Hills árunum, og taka mynd af sér með þeim. Ég lærði það að ég er ekki sú hallærislegasta í aðdáenda hópnum. Þarna var strákur sem virtist of ungur til að hafa alist upp með þáttunum en samt svo mikill aðdáandi að hann var með fullan poka af minjagripum, póstkortum, möppum og fleiru sem hann fékk áritað. (Þarna óskaði ég þess heitt að ég ætti enn plakatið sem hékk uppi í herberginu mínu í langan tíma sem kom úr Bravo blaðinu mínu). Annar karlmaður í röðinni var með barbie dúkku kassa með 3 dúkkum: Brenda, Brandon og Dylan og ýmsir aðrir fyrir framan mig og aftan virtust hafa farið með þráhyggjuna mun lengra en ég, sem virðist ótrúlegt.

 Sif og Jason

Svo var komið að mér. Við spjölluðum smá saman. Hann sagðist elska mig því ég keypti 2 eintök af bókinni. Ég sagðist elska hann punktur. Ég sagði honum að koma til Íslands, hann talaði um Reykjavík og svo kvöddumst við. Þó ekki áður en að ég náði að taka utan um hann, klessa vanga mínum að hans og brosa eins og fífl í myndavélina. Sjáið þið hvað við stöndum nálægt hvort öðru?

 photo1.jpg

Jæja. Maðu hefði haldið að vandræðalegheitunum hefði lokið þarna. Onei. Sem við búum okkur undir að labba niður og út úr búðinni geng ég í fangið á manni. Ó mæ god. Þetta er Luke Perry styn ég upp. Hann gengur hratt framhjá mér. Ég sný mér við og næ að benda vinkonu minni á hann, hún fær samskonar kast og ég og ég hryn í gólfið í hamslausum tryllingi. Upphefst svo eltingaleikurinn við hann í gegnum búðina og alla leiðina á kassann. Þegar við erum komnar við kassann og bíðum þess að hann klári að borga og fara að renna á mig tvær grímur. Er þetta virkilega hann? Getur verið að hann líti enn svona unglega út? Er ég að fara að gera mig að enn meira fífli? Svarið er já. Við píndum eina okkar að lokum til að ryðjast upp að honum og hreinlega spyrja. Þetta var bara alls ekki Luke Perry. Enda hefði það verið of gott.  Veit ekki hvort honum hafi eitthvað fundist til þess koma að við héldum að hann væri að nálgast fimmtugt svona þar sem þessi maður var undir þrítugu. En hann tók þessu þó mátulega vel.

 10285722_10154121458070293_524497842974822716_o.jpg

Nú þarf ég að hlúa að hjónabandinu. Eiginmaðurinn veit nefninlega ekki í hvorn fótinn hann á að stíga. Hann þekkir ekki þessa klikkuðu konu sem eltir menn á röndum í gegnum bókabúðir í von um að þeir séu Luke Perry. Í einhverju stundarbrjálæði fannst mér nefninlega góð hugmynd að hann yrði bílstjóri ferðarinnar svo hann stóð á hliðarlínunni allt kvöldið og fékk að kynnast 14 ára Sif einum of vel. Best að fara í að rétta af ímynd mína í hans huga.

P.S. Ég vissi að þetta hefði alltaf verið möguleiki. Vitið þið hvernig Jason kynntist konunni sinni Naomi sem hann hefur verið með núna í næstum 15 ár og á tvö börn með? Úti á götu í London. Hún er ekki fræg og ekki neitt. Bara labbaði á réttum stað á réttum tíma og búmm. Nákvæmlega þannig ímyndaði ég mér senuna á milli okkar þegar ég var 14. Það var ljúfsárt að fá staðfestingu á að svona hlutir gerist í alvöru.

Sif Jóhannsdóttir

Sif Jóhannsdóttir

Sif Jóhannsdóttir er 34 ára húsfrú í Los Angeles þótt hún verði alltaf Vesturbæingur í hjarta sínu. Í fyrra lífi starfaði hún hjá Forlaginu sem verkefnastjóri útgáfu enda eru bækur hennar helsta áhugamál. Nú sinnir hún dætrunum tveimur og heimilinu í fullu starfi í sól og sumaryl. Nýja starfið er ansi krefjandi sem veldur því að hún lætur sig stöðugt dreyma um starfsframa, nám eða hvað sem er utan heimilis. Hún byrjaði að blogga í aðdraganda flutninganna til að halda utan um þær breytingar sem voru að eiga sér stað í lífi hennar.

Meira