c

Pistlar:

4. ágúst 2014 kl. 15:46

Sif Jóhannsdóttir (gullrikid.blog.is)

Étin af geitungum

Margir bíða eflaust spenntir eftir fréttum af útilegu fjölskyldunnar. Ég hef bara ekki treyst mér til að viðurkenna hvernig þetta endaði allt saman. En verð að játa útilegusyndirnar.

pakka.jpg

Við lögðum af stað í brakandi sól á laugardagsmorgni. Horfðum á hitamælinn hækka eftir því sem við nálguðumst lendingarstaðinn. Keyrðum í gegnum ræktarland Kaliforníu við hlið trukka sem fluttu heilu tonnin af tómötum, hvert veit ég ekki, kannski í verksmiðju Huntz, hver veit. Komum á tjaldstæðið upp úr 6 í 38° hita. Eiginmaðurinn svitnaði eins og svín við að koma upp tjaldbúðunum meðan ég réðst á næstu konu sem ég fann við klósettin til að yfirheyra hana um poison oak og biðja hana um að sýna mér svo ég gæti nú þekkt þetta. Reyndist óþarft að fá nokkra sýnikennslu, helvítis plantan var allt um kring. Ef stigið var út fyrir litlu göngustígana var maður strax kominn með þetta upp að hnjám. Við vorum umlukin! Þetta var eins og að vera í fangelsi ég sver það. Skellti mér á tojarann meðan eiginmaðurinn hélt áfram í svitabaði að sýsla við að koma upp báli til að elda á og allt hitt sem maður þarf að gera þegar maður er úti í náttúrunni. Á klósettinu hitti ég fyrir svarna óvini mína. 10 stykki kóngulær. Það urðu engir fagnaðarfundir og mér varð strax ljóst að ég myndi ekki létta á mér öðru vísi en með hland fyrir hjartanu. Efasemdirnar byrjuðu strax þá. Ég stökk út af klósettinu eftir að hafa stoppað í miðri bunu (hjálpaði mér ekki seinna um kvöldið) og reyndi að halda kúlinu. Smurði á mig pöddufælu og predikaði yfir dætrunum um að varast gróðurinn. Gúffaði í mig hammaranum og grillaði sykurpúða en svo skall myrkrið á og ég gat ekki lengur varast það sem ég sá heldur þurfti ég að ímynda mér allt það sem mögulega var í kringum mig. Ekki svo góð tilfinning svo við smöluðum ormunum inn í tjald. Ég gerði tilraun til að létta á mér fyrir nóttina en klippti aftur á í miðri bunu þegar ég horfði á eina spinnegal kónguló í loftinu. Það tók tímann sinn að fá ormana til að sofna og svo þurfti ég aftur að pissa. Festi hárið í rennilásnum á tjaldhurðinni á leið út og þurfti að standa berskjölduð í myrkrinu við að losa það lengur en var þægilegt. Tókst á við kóngulærnar aftur og hitti svörtu ekkjuna fyrir utan klósettið. Hún var hress, ekki ég. Heyrði ógnandi skruðninga í gróðrinum allt um kring en sá minnst vegna svartamyrkursins sem fylgir þessari náttúru. Skellti í mig tveimur svefntöflum, þessum bláu sem maður fær í öllum apótekum hérna í Ameríkunni og beið og beið og beið. Sofnaði loks  undir pöddusöng og svaf illa þessar 3 klukkustundir sem ég gleymdi mér. Upp úr 7 næsta morgun byrjaði fjölskyldan við hliðina á okkur morgunverkin sín. Með hrópum og köllum. þau voru 15 saman, með gettóblaster og lélega tónlist og virtust ónæm fyrir poison oak, allavegana hlupu þau um í eiturrunnunum eins og enginn væri morgundagurinn. Ég skrölti á fætur og meðan ég bruggaði Chemex kaffið mitt leið mér eins og þetta væri næstum rómantískt. Þar til ég þurfti að pissa og hitti fyrir vinkonurnar á baðinu aftur. Það var þá sem ég játaði fyrir eiginmanninum að þetta yrði svo sannarlega ekki 5 daga útilega, ég var ekki bjartsýn á að þetta myndi ná einni nótt í viðbót á þeim tímapunkti. 

tjaldi.jpg

poison_oak.jpg

napa_bjuti.jpg

Við hentum okkur út í daginn og nutum þess sem Napa hefur upp á að bjóða. Ég smakkaði eins og 5 vín hjá Beringer vinum mínum, leit inn í uppáhalds verslun mína Dean and Deluca, borðaði ljúffengan mat hér og þar um héraðið og óx kraftur og trú á getu minni til að þola útileguna. Við stoppuðum í Wholefoods, moppuðum upp kolum og steikum og ákváðum að hafa það huggulegt. Svo tók það góðar 2 klukkustundir að grilla helvítis steikina vegna þess að járngrindin stóð of hátt miðað við kolahauginn undir o.s.frv. þegar kvikyndið var loksins tilbúið á diskinn minn höfðu fréttir af dýrðar steik borist milli flugna þarna og var því stór geitungahópur mættur í kvöldmat. Ég barðist hetjulega við þá um steikina og bökuðu kartöfluna en gafst upp enda um ofurefli að ræða. Henti öllu í ruslið. Hringdi á hótel. Sagði eiginmanninum að rífa niður búðirnar. Og þannig fór um sjóferð þá, klukkan átta að kvöldi eftir fyrstu nóttina rifum við allt niður og brenndum eins og pabbi forðum á næsta hótel. Þó ekki með blautan farangur en svo drulluskítug af moldarrykinu sem var þarna að baðvatnið varð svart þegar dæturnar fóru ofan í. Oj bara. 

Allt er gott sem endar vel og gekk ferðin nokkuð áfallalaust fyrir sig eftir þessa brösóttu byrjun. Vínekrur voru heimsóttar og við komum heim með 12 vínflöskur eftir herlegheitin og ég búin að skrá okkur í vínklúbb sem tryggir sendingar 4 sinnum á ári frá héraðinu. Við borðuðum á yndislegum veitingastað, úrvalið endalaust af gæðastöðum þar, en í Napa dalnum einum hvíla 11 Michelin stjörnur. Ég hitti samt enga þeirra, dæturnar sjarma ekkert fyrir Michelin, vilja bara borða og rjúka af stað, ekki sitja og njóta. En ég fékk frönsku lauksúpuna sem mig hafði dreymt um síðustu vikur. Sat í 38 gráðunum mínum og þrjóskaðist við að gúffa henni í mig í svitabaði!

napa_fegur.jpg

vini.jpg

Í gær skelltum við okkur svo í Costco með moldugt tjald og svefnpoka og skiluðum því. Costco annálaðir fyrir að vera með bestu skilareglur í öllum Bandaríkjunum, ef ekki bara heiminum. Ég rétti þeim skítuga tjaldið og svefnpokana sem ég var búin að sofa í og fékk til baka haug af seðlum, "no questions asked". Labbaði svo inn í búðina og út úr henni aftur með dásemdir fyrir aurinn minn, svo sem Rib eye steik, ferskan maís, tvö kíló af jarðarberjum (kostuðu 3 dollara), bjór og san pellegrino gos, tómatsósubirgðir sem endast hálft ár (það er drjúgur slatti fyrir þetta tómatsósuóða heimilið), osta og spænska hráskinku. Og afhverju vilja Íslendingar ekki fá þessa yndis verslun heim? Óskiljanlegt!

Sif Jóhannsdóttir

Sif Jóhannsdóttir

Sif Jóhannsdóttir er 34 ára húsfrú í Los Angeles þótt hún verði alltaf Vesturbæingur í hjarta sínu. Í fyrra lífi starfaði hún hjá Forlaginu sem verkefnastjóri útgáfu enda eru bækur hennar helsta áhugamál. Nú sinnir hún dætrunum tveimur og heimilinu í fullu starfi í sól og sumaryl. Nýja starfið er ansi krefjandi sem veldur því að hún lætur sig stöðugt dreyma um starfsframa, nám eða hvað sem er utan heimilis. Hún byrjaði að blogga í aðdraganda flutninganna til að halda utan um þær breytingar sem voru að eiga sér stað í lífi hennar.

Meira