c

Pistlar:

5. október 2014 kl. 17:28

Sif Jóhannsdóttir (gullrikid.blog.is)

Kattakonan í Los Angeles

10671336_10152816858122990_6735661802914362900_n.jpgLíf mitt er litað köttum. Við áttum ketti frá því ég man eftir mér, tvo raunar, þegar ég fæddist. Ég gleymi aldrei kettinum sem dó úr blómaeitrun eða gamla Kisa sem hafði fylgt foreldrum mínum í árafjöld áður en ég fæddist og svaf svo fallega á rúminu mínu. Einn galli á gjöf Njarðar, hann var með krónískan bronkítis og hnerraði horklessum upp um alla veggi í herberginu mínu. Ég elskaði hann bara meira fyrir vikið.

Svo fæddist nýr fjölskyldumeðlimur. Ég hafði hlakkað til þess að eignast systkini, vantaði systur sem gæti aukið yfirráðasvæði mitt á heimilinu sem ég barðist um við stóra bróður. Ég lét mig dreyma um hvernig við tvær myndum pakka honum saman og halda honum á mottunni.  Draumurinn varð að engu. Af fæðingarstofunni bárust þær fréttir að bróðir væri fæddur. Vonbrigðin algjör. Svo tók steininn úr. Greyið fæddist með kattaofnæmi. Gamli kisi átti að fara til himna og hin kisan, Níní, átti að fá nýtt heimili. Og þá spurði ég eðlilegstu spurningar í heimi. Var ekki frekar hægt að senda bróðirinn á nýtt heimili? Fór þetta ekki eftir því hver var nýjastur inn, fór sá aðili ekki fyrstur út? Nei var svarið og kisurnar fóru. Gæludýraleysið reyndist öllum erfitt, líka litla bróður sem reyndist hinn mesti dýravinur þrátt fyrir ofnæmið. En pabbi þjáðist sennilega mest. Svo mjög raunar að hann gerði tilraunir til að eignast annað gæludýr en kött. Einn daginn kom hann heim með hamsturinn Hreggvið. En Hreggviður vildi bara alls ekki þýðast hann, þrátt fyrir miklar tilraunir. Það eina sem náðist fram þegar pabbi reyndi að kúra með hamsturinn var að hann nagaði gat í öll fínu og dýru ullarteppin hennar mömmu. Og svo rann upp sá dagur þar sem Hreggi litli fékk eistnakrabbamein og endaði dvöl sína í þessum heimi með eistu stærri en hausinn á honum.  Þar með gafst pabbi upp. Hann settist upp í bíl. Bað um kraftaverk alla leiðina upp í Kattholt og kom svo heim með lítinn hnoðra sem malaði stanslaust í 3 daga. Og kraftaverkið fengum við því litli bróðir gat lifað með honum. Í dag er þessi köttur tvítugur, heitir Randver, og við fjölskyldan biðjum þess eins að hann verði eilífur því betri köttur er ekki til.

Kattaástin er fjölskyldunni minni í blóð borin, hún er í genunum eins og bókaútgáfan. Amma og afi voru mikið kattafólk. Eitt af því sem ég man hvað best af því sem afi, Valdimar heitinn í Iðunni, sagði við mig var eftirfarandi: Ekki giftast manni sem er illa við ketti. Ef honum er illa við ketti er á hreinu að þar er á ferðinni vondur maður og með hann hefurðu ekkert að gera.

Sem er ástæða þess að á fyrsta deiti með stráknum sem nú er eiginmaður minn kom einmitt þetta til tals, óheppilegt á fyrsta stefnumóti? Orð eins og að gifting og sameiginlegt kattahald myndu fæla flesta frá en þessi hikaði ekki og sagðist vera mikill kattamaður. Það reyndi fljótt á. Örfáum mánuðum síðan vorum við farin að búa og það fyrsta sem við fengum okkur í búið voru kettirnir Breki og Ríkharður ljónshjarta. 

En ofnæmisdraugurinn lét á sér kræla, verðandi eiginmaðurinn var þá með kattaofnæmi og svo í pottinn búið að ég gat ómögulega skilað honum. Það voru því kettirnir sem þurftu að fara. Breki og Rikki fluttu inn til foreldra minna þegar við fluttum í nýtt húsnæði og heimili mitt varð kattlaust. Það sem bjargaði mér alveg var vinnan því þar hitti ég fyrir Randver minn alla virka daga og átti hann lengst af samastað á mínu skrifborði, lá í bælinu sínu eða það sem honum þótti best, ofan á lyklaborðinu, því þar tryggði hann sér mesta athygli. 

Það reyndist mér því erfitt þegar ég kvaddi Ísland að hugsa til þess að nú yrði ég ekki í daglegum samskiptum við kisur lengur. Þar sem það reynist mér óbærileg tilhugsun þá hóf ég rannsóknir, bæði á ofnæmislyfjum, afnæmingum og svo köttum sem sagðir eru valda minna ofnæmi. Og þá er ég ekki að tala um hárlausu kettina, ég get því miður ekki fellt mig við þá. Lítill vonarneisti kveiknaði. Ég heyrði af síberískum skógarköttum sem sagðir eru innihalda minna af þessu ensími sem veldur ofnæminu. Við keyrðum í klukkustund fyrir 3 vikum síðan inn í Orange County og fórum inn á heimili með 9 slíkum köttum, 6 kettlingum og 3 læðum. Eiginmaðurinn lagðist ofan í kattafeldi, klappaði kisum og gerði sitt besta til að kalla fram viðbrögðin sem venjulega láta ekki á sér standa. Viti menn, ekkert gerðist. Fjölskyldan hélt heim á leið eftir að hafa tryggt sér síðasta kettlinginn úr gotinu og í gær keyrðum við sömu leið aftur með tómt búr en á leiðinni heim aftur var í búrinu lítill gulur kisi sem hefur fengið nafnið Dreki. Og nú geri ég eins og pabbi forðum daga. Ég ligg á bæn. Bið um kraftaverk. Bið þess að eiginmaðurinn geti búið með þessum yndislega krúttmola Hann virðist kunna bærilega við sig þó hann eigi stundum fótum sínum fjör að launa undan fyrrum yngsta fjölskyldumeðlimnum. Hún er yfir sig hrifin af honum en ég er ekki viss um að Dreki kunni alltaf að meta athyglina frá henni. Við höldum öll niðri í okkur andanum, hrædd um að ofnæmisdraugurinn láti sjá sig aftur. Sendið mér því alla ykkar kattastrauma. Annars gæti ég neyðst til þess að fá mér hamstur!

Sif Jóhannsdóttir

Sif Jóhannsdóttir

Sif Jóhannsdóttir er 34 ára húsfrú í Los Angeles þótt hún verði alltaf Vesturbæingur í hjarta sínu. Í fyrra lífi starfaði hún hjá Forlaginu sem verkefnastjóri útgáfu enda eru bækur hennar helsta áhugamál. Nú sinnir hún dætrunum tveimur og heimilinu í fullu starfi í sól og sumaryl. Nýja starfið er ansi krefjandi sem veldur því að hún lætur sig stöðugt dreyma um starfsframa, nám eða hvað sem er utan heimilis. Hún byrjaði að blogga í aðdraganda flutninganna til að halda utan um þær breytingar sem voru að eiga sér stað í lífi hennar.

Meira