c

Pistlar:

8. janúar 2015 kl. 22:27

Sif Jóhannsdóttir (gullrikid.blog.is)

Loksins komin með greiningu

68a133b717f8bee418d6b661619c76e3.jpgRifjaðist upp fyrir mér í gær, þessi tilfinning, þegar maður sest aftur inn í skólastofu í upphafi annar, þráin eftir því að kennarinn láti nægja að kynna áfangann og hleypi manni svo snemma út. Að sitja og horfa á klukkuna tifa og fara með hljóða bæn í síðasta tíma dagsins, í von um að ná strætóinum á undan. Svo ég tali nú ekki um föstudagsóeirðina sem kom í beinin og ágerðist eftir því sem leið á skóladaginn, svo mjög að maður var ókennsluhæfur í lok dags og gilti einu hvort það væri skemmtilegast kennari skólans eða þessi með svæfandi röddina. 

Þetta rifjaðist upp fyrir mér því ég settist aftur á skólabekk í gær. Ég skráði mig á námskeið í verkefnastjórnun, Grunnstoðir verkefnastjórnunar heitir kúrsinn og er kenndur af yfirmanni hjá Boeing. Og í ljósi þess að ég reiddi út heilar hundrað þúsund krónur til að sitja þennan 12 vikna kúrs, þá fann ég bara alls ekki fyrir því að langa til að vera sleppt fyrr út úr tíma. Þvert á móti gerði ég þá kröfu að kennarinn nýtti hverja einustu dýrmætu mínútu í að fræða mig, segja mér eitthvað sem ég vissi ekki fyrir. Hann stóð algjörlega undir væntingum. Mögulega ekki ég samt.

Sjáið til. Ég er ekki þessi raunvísindatýpa almennt. Hugvísindin hafa átt hug minn allan fram að þessu. Bókmenntir og tungumál, það er eitthvað sem ég skil og get lært með góðu móti og hef gaman að. Stærðfræði og allt sem hefur verið tengt henni með einhverjum hætti hef ég forðast eftir bestu getu og bara gert það sem ég var neydd til í þeim efnum. Eini stærðfræðikennarinn sem ég hef nokkurn tímann þolað var elsku Jói úr Hagaskóla sem ég var svo heppin að færði sig yfir í Hamrahlíð akkúrat þegar neyðin var stærst, ég féll í fyrstu atrennu í STÆ 103 en í seinna holli kom Jói og bjargaði mér og geðheilsunni. Sem betur fer hafði ég lítið hugleitt möguleikann á því að einhver stærðfræði kynni að leynast innan verkefnastjórnunarinnar, annars hefði ég sennilega hætt við. Nema hvað. Svo vill kennarinn að við kynnum okkur til leiks. Og partur af ferlinu var að fara yfir það sem hann kallar "educational background". Slík upptalning tekur ekki langan tíma hjá undirritaðri. Stúdentspróf og svo langleiðina í BA í frönsku og bókmenntum. En því var ekki að skipta hjá samnemendum mínum. Þau voru öll með mastersgráðu. Þrátt fyrir að líta út fyrir að vera tíu ára. Og ekki bara einhverja mastersgráðu. Nei, öll á sviði vísinda og í fræðum sem ég skil ekki einu sinni um hvað snúast.Þarna var kjarneðlisfræðingur, verkfræðingar af öllum sortum, efnaverkfræðingur og vélaverkfræðingur, umhverfisverkfræðingur og hugbúnaðarverkfræðingur og svo mætti lengi telja. Einhverjir með doktorsgráðu á einu sviði og svo búin með master á enn öðru sviði og áfram tikkuðu mínúturnar og fólk var enn að telja upp sigra sína á sviði menntunar. Jamm og já. Eftir að ég hafði afhjúpað mig gerði elsku kennarinn sér far um að horfa djúpt í augu mér þegar hann talaði um stærðfræði og tók nokkrar mínútur í að útskýra að hann myndi tala mikið um tölur en að við sem hefðum ekki raunvísindabakgrunn (lesist, þú þarna frönskutýpa, því ég var sú eina sem hafði ekki lifað í tölum allt mitt líf) þyrftum ekki að örvænta, þetta myndi fara vel á endanum. 

Vandræðagangur minn jókst bara þegar hann fór að tala um kjarnorkusprengjuna, gerð kjarnorkusprengjunnar hér í USA var nefninlega fyrsta verkefnið sem var rekið með nútíma verkefnastjórnun (sko, ég lærði eitthvað í gær!) og spyr út í bekkinn hvað við höldum að hafi verið sprengdar margar kjarnorkusprengjur. Og hvað segir litli Íslendingurinn? Jú 0 sprengjur var það sem ég sló fram og lét þá algjörlega ótalið að minnast á þessar tvær þarna sem voru sprengdar í Japan, jú með stærri viðburðum heimssögunnar, en greinilega ekki nógu merkilegt til að ég hefði það á hreinu, onei. Hann vísaði kenningu minni góðlátlega frá og sýndi alveg stórmerkilegt myndband þar sem kom í ljós að það hafa verið sprengdar yfir 2.000 svona sprengjur. Ég reyndi að breiða yfir vanþekkingu  mína með vandræðalegum brandara um að ég hafi sko verið að meina 0 sprengjur á Íslandi. Enginn lét blekkjast!

Ég mun því sitja yfir bókunum næstu daga, vikur og mánuði. Ég get, skal og ætla. Í næstu viku koma forstjórar fyrirtækja og kynna verkefni sem okkur standa til boða að taka sem lokaverkefni í áfanganum. Við eigum að vera í tveggja manna hópum og það er hægt að vinna til verðlauna auk þess sem við fáum þarna tækifæri til að sjarmera fólk sem við hefðum annars engan aðgang að. Hvort haldið þið að þekking mín á íslenskum bókmenntum eða franskri málfræði muni gagnast betur? Best að nota bæði, er það ekki? Og hverjar teljið þið að séu líkurnar á að einhver vilji vera í hópi með týpunni sem virðist hafa lifað í helli allt sitt líf og algjörlega misst af ekki einni kjarnorkusprengju eða tveimur heldur yfir tvöþúsund slíkum kvikyndum?

Ég kom heim og ætlaði að slá um mig með fróðleik um kjarnorkusprengjur og spurði eiginmanninn lymskulega hvort hann renndi í grun um hversu margar slíkar hefðu verið sprengdar. Ég var nokkuð viss um að hann myndi ekki klikka á þessu með Nagasaki og Hiroshima en taldi öruggt að hann myndi ekki giska á neitt nálægt réttri tölu. Haldiði ekki að hann segi strax að þær hljóti að vera yfir tvö þúsund. Þá segi ég honum frá þessi stórmerkilega myndbandi sem ég hafi verið að uppgötva og hann sagði mér þá auðvitað að hann hefði séð það fyrir einum tveimur árum síðan allavegana. Hvar hef ég verið? Og afhverju er enginn að skrifa um þessar kjarnorkusprengingar í íslenskum bókmenntum?

Nema hvað. Eiginmaðurinn var fljótur að greina vanmáttarkennd mína sem ég upplifi gjarnan í kringum fólk, að finnast allir vera klárari en ég, sama hvort það sé með mastersgráðu eða ekki. Það sem hrjáir mig samkvæmt Wikipediu er kallað "The impostor syndrome" og þýðir það að viðkomandi á erfitt með eða getur einfaldlega ekki sæst við árangur sinn í lífinu. Þrátt fyrir allar sannanir þess að maður sé bæði hæfur og hæfileikaríkur á einhverju sviði þá eru þeir sem haldnir eru þessu tiltekna heilkenni sannfærðir um að þeir séu raunverulega að villa á sér heimildir eða eigi ekki árangurinn skilinn. Sannanir um hið gagnstæða er afskrifað sem heppni, tímasetning eða vegna þess að aðrir hafi látið blekkjast. Viðkomandi er jafnframt sannfærður um að allir aðrir séu klárari og betur starfi sínu vaxnir.

Haldið þið að það sé. Nú er ég bara komin með greiningu á því sem hrjáir mig og lífið getur bara verið upp á við eftir það! Lyfjarisinn Ameríka hlýtur að eiga eins og eina bláa pillu sem getur komið mér yfir þetta! Farin út í apótek.

P.s. Mér til réttlætingar vil ég koma því á framfæri að ég vissi af þessum tveimur kjarnorkusprengjum sem sprengdar voru í stríði og hafði heyrt af einhverjum fleirum, en í fljótfærni og uppnáminu yfir  menntunarstigi mínu þá bara var eins og heilinn á mér starfaði ekki sem skyldi...

Sif Jóhannsdóttir

Sif Jóhannsdóttir

Sif Jóhannsdóttir er 34 ára húsfrú í Los Angeles þótt hún verði alltaf Vesturbæingur í hjarta sínu. Í fyrra lífi starfaði hún hjá Forlaginu sem verkefnastjóri útgáfu enda eru bækur hennar helsta áhugamál. Nú sinnir hún dætrunum tveimur og heimilinu í fullu starfi í sól og sumaryl. Nýja starfið er ansi krefjandi sem veldur því að hún lætur sig stöðugt dreyma um starfsframa, nám eða hvað sem er utan heimilis. Hún byrjaði að blogga í aðdraganda flutninganna til að halda utan um þær breytingar sem voru að eiga sér stað í lífi hennar.

Meira