c

Pistlar:

14. janúar 2015 kl. 17:27

Sif Jóhannsdóttir (gullrikid.blog.is)

Hrúgur og hrúgur af peningum!

spakona.jpgÉg hef aldrei verið týpan sem eltist við miðla eða spákonur. Ég er svo svakalega áhrifagjörn að ég hef trúað því að það sem sagt yrði við mig af slíkum aðilum myndi ég gera að heilögum sannleika í lífi mínu og gilti þá einu um hvað ræddi. En síðustu daga hefur verið hér yndislegur húsgestur. Og með það að leiðarljósi að segja oftar já en nei (áramótaheitið) þá settumst við niður hjá spákonu. Sú gaf sig út á að vera írsk og spáir í tebolla. Ég reið á vaðið. Hún var með te í skál sem hún byrjaði á að hræra einhver lifandis ósköp í og á meðan átti ég að setja drauma mína og þrár í hugsanir og senda út í skálina. Lítið mál. Svo settum við vinkonurnar bollann á bólakaf ofan í herlegheitin og lyftum loks upp úr skálinni. Vökvinn táknaði allar vondu hugsanirnar, óþægindi og aðra hluti sem maður vill ekki sjá í framtíðarspá svo við áttum að hella hægt og rólega vökvanum úr bollanum aftur, svo þegar ekkert var eftir nema jurtirnar hvolfa kvikindinu og snúa réttsælis. Og þá gat spádómurinn hafist.

Ég verð að játa að þegar ég leit ofan í bollann þá sá ég nú lítið annað en risa klessu af einhverjum telaufum. En írska konan var ekki í neinum vandræðum með að lesa úr þessu og upphófst langur lestur!spakona_te_i_bolla_1252886.jpg

Mín bíður ekkert nema tómur lúxus. Allt árið 2015 verður lúxus ofan á lúxus. Og peningahrúgur víða. Seinni part ársins þarf ég að hafa fyrir því að peningahrúgurnar skili sér en fram að því gerist þetta víst ósjálfrátt (ég bíð spennt, jólavísað og allt það!). Ef ég gæti þess að þakka fyrir allt gott sem gerist, þá margfaldast það daginn eftir og svo koll af kolli. Og það borgar sig að vingast við mig því ég mun víst dreifa gleðinni meðal vina minna, deila þessu af göfuglyndi. Ferðalög framundan, að sjálfsögðu lúxus ferðalög og þar á meðal til eyju. Hún var handviss um að það væri Hawaii, en kannski er það eina eyjan sem henni datt í hug hér nálægt, ekki vitandi það að ég væri íslensk og á leið í heimsókn á klakann í sumar. Ég vona þó að þetta með Hawaii verði að veruleika, lengi langað þangað. Nú, börnin verða sæl og glöð og á heimilinu verður mikil hamingja sem mun þó ná algjöru hámarki í ágúst þegar sú yngri á afmæli. Eiginmaðurinn verður extra skotinn í mér og svo endaði þetta á því að hún sagði mér að seinni hluta árs munu mér hreinlega ekki verða á mistök, þetta verður sumsé tótal success! 

spakona_les_i_bolla.jpgNú, ár vinkonunnar verður ekkert slor. Nú sér loks fyrir endann á karlmannsleysi hennar því það var heill maður í bollanum hennar, mikill rómans og svo poppaði trúlofunarhringur upp úr telaufunum líka. Og það verður stutt trúlofun lofaði hún okkur. Þannig að mögulega endar árið á brúðkaupi, hver veit! Hún ráðlagði henni líka að eyða tíma með börnunum í kringum sig í æfingarskyni, hún gekk nú ekki svo langt að spá börnunum en það mátti lesa þau milli línanna í spádómnum!

Við vinkonurnar gengum því bjartsýnar út í helgina með þessi fögru fyrirheit í vasanum. Kostaði ekki nema 20 dollara og vorum við sammála um að það væri gjöf en ekki gjald, það er á hreinu. Minn spádómur er þegar byrjaður að rætast enda var helgin tómur lúxus. Dýrðarinnar veitingastaðir, handsnyrting, rölt, verslunarleiðangrar, hlátur, slúður og dúndur félagsskapur. Ég hef passað mig á að þakka fyrir mig þrisvar í lok hvers dags (sú írska ráðlagði mér að gera þetta í heilögum þrenningum) og þetta virðist bara batna með hverjum deginum. Svo vorum við að sjoppa okkur augnskugga í himnaríki förðunarvara, Sephora og þar fékkst endanleg staðfesting á peningahrúgunum sem eru í vændum. spakona_me_bolla.jpgAfgreiðslukonan sem afgreiddi mig hrósaði veskinu mínu hátt og snjallt, grænt Fossil veski og sagði okkur að amma hennar hefði alltaf haldið því fram að græn veski löðuðu til sín peninga. Þar með er þetta með peningahrúgurnar orðið alveg ljóst að mínu mati og fer ég nú um eins og Framsóknarmaður og eyði peningunum áður en þeir láta sjá sig, það er eina leiðin til að gera þetta. Með því sanna ég líka aðra vísu sem ég hef úr heimahúsunum, pabbi hefur lengi haldið því fram að það þurfi að eyða peningum til að búa til peninga. Ég mun því hafa mig alla við í þeim efnum með græna veskið að vopni og írsku tebollaspánna. Hvað gæti mögulega klikkað?

Sif Jóhannsdóttir

Sif Jóhannsdóttir

Sif Jóhannsdóttir er 34 ára húsfrú í Los Angeles þótt hún verði alltaf Vesturbæingur í hjarta sínu. Í fyrra lífi starfaði hún hjá Forlaginu sem verkefnastjóri útgáfu enda eru bækur hennar helsta áhugamál. Nú sinnir hún dætrunum tveimur og heimilinu í fullu starfi í sól og sumaryl. Nýja starfið er ansi krefjandi sem veldur því að hún lætur sig stöðugt dreyma um starfsframa, nám eða hvað sem er utan heimilis. Hún byrjaði að blogga í aðdraganda flutninganna til að halda utan um þær breytingar sem voru að eiga sér stað í lífi hennar.

Meira