c

Pistlar:

18. febrúar 2016 kl. 14:56

Sif Jóhannsdóttir (gullrikid.blog.is)

Núvitund búhú!

mindful-or-mind-full

Þegar ég var um átta ára ákváðu foreldrar mínir að taka andlega stefnu í lífinu. Þau skráðu sig til leiks í hugleiðslu hjá einhverjum frumkvöðli í þeim efnum. Þeim fannst þetta stórmerkilegt svo áður en ég vissi af var búið að troða mér á námskeið hjá honum. Hann kenndi mér að hugleiða og gaf mér mína eigin hugleiðslumöntru, eitthvað sem átti að leiða vitundina í ró. Hljómar skemmtilegt en raunin varð önnur. Reyndu að rífast við einhvern sem svarar því alltaf með því að maður eigi að hugleiða og þá leysist þetta af sjálfum sér. Þetta varð staðlað svar mömmu og pabba við öllu, leiðin til að leysa hvaða verkefni sem var. Bróðir minn var óþolandi erfiður og stríðinn, notaðu möntruna á það, vinkonurnar áttu flottari dót en ég, notaðu möntruna á það og svona hélt þetta áfram. Ekki nema von að ég hafi algjörlega blokkað þessa möntru úr huga mínum og get ekki með nokkru móti kallað hana fram í dag. 

Það var því með hálfum hug sem ég skráði mig til leiks á núvitundarnámskeið hér í borg. En það er ógeðslega hipp og kúl að læra núvitund, allir starfsmenn Google gera það og hver vill ekki vera eins og starfsmaður Google? Og fyrir manneskju sem hrærist ýmist í fortíð eða framtíð hljómar skynsamlega að reyna að staldra aðeins meira við í núinu. Það er flókið að sitja á fortíðardraugum með þráhyggju um að hamingjan leynist í framtíðinni. 

Ég fór á 6 vikna námskeið. Við lærðum að borða út frá núvitund, labba út frá núvitund, liggja út frá henni og sitja út frá henni. 30 manns saman í hóp. Og það eina sem maður á raunverulega að gera er að einbeita sér að andardrættinum og þegar hugurinn leitar annað, viðurkenna það og snúa sér svo aftur að andardrættinum eða umhverfishljóði eða leiðsögn um hugleiðslu af upptöku. Einfalt ekki satt! En andskotinn hvað þetta var leiðinlegt. Kennarinn var búinn að stúdera efnið svo lengi að hann talaði á þessum hæga hraða sem þeir sem hafa upplifað andlega vakningu nota. Hæææægt og yfirvegað. Því hann er svo zen sko. Ég bara hef enga þolinmæði fyrir þessu, enda liggur mér svakalega á að öðlast þessa núvitund svo mér líði betur. Svo, þegar ég var ekki að hlusta á hann og við áttum að hugleiða, þá smá jók hann tímann sem við gerðum það þar til hann sagði stoltur að lokinni einni hugleiðslunni að við höfðum þá lokið við 45 mínútna hugleiðslu. Sem hefði verið alveg frábært. En ég var bara alls ekkert róleg. Þessar 45 mínútur festist ég í huganum við það að Walking Dead þættirnir hófust á aðalpersónu sem rankar við sér á spítala og allir eru orðnir að ógurlegum uppvakningum. Og ég varð sannfærð um að það væri að eiga sér stað í þessum hugleiddu orðum og ég sæti þarna á meðan með augun lokuð að hugsa um eitthvað skrambans "nú" sem aldrei kemur. Fyrst hafði ég áhyggjur af uppvakningunum en svo óttaðist ég meira um geðheilsu mína og þá stefnu sem hugur minn kaus í frelsinu.

Við fengum heimavinnu með okkur, hugleiða á hverjum degi. Ég gleymdi því alltaf, einu skiptin sem ég mundi það var þegar ég þurfti að flýja háværar dæturnar og gat því afsakað mig með hugleiðsluheimavinnu við eiginmanninn. Auðvitað engar líkur á því að nokkur maður geti hugleitt með ormana heima, það er ekki flóafriður hérna þegar þær eru heima. Kom þó að einhverju gagni, þó það hafi ekki skilað því sem átti að skila. 

Ég verð bara að læra þessa núvitund einhvern tímann seinna. Alltof mikið í gangi í hausnum á mér til að ég geti verið í núinu.

Sif Jóhannsdóttir

Sif Jóhannsdóttir

Sif Jóhannsdóttir er 34 ára húsfrú í Los Angeles þótt hún verði alltaf Vesturbæingur í hjarta sínu. Í fyrra lífi starfaði hún hjá Forlaginu sem verkefnastjóri útgáfu enda eru bækur hennar helsta áhugamál. Nú sinnir hún dætrunum tveimur og heimilinu í fullu starfi í sól og sumaryl. Nýja starfið er ansi krefjandi sem veldur því að hún lætur sig stöðugt dreyma um starfsframa, nám eða hvað sem er utan heimilis. Hún byrjaði að blogga í aðdraganda flutninganna til að halda utan um þær breytingar sem voru að eiga sér stað í lífi hennar.

Meira