c

Pistlar:

31. maí 2019 kl. 8:52

Gústaf Adolf Skúlason (gustafadolfskulason.blog.is)

Orkuskilmálar EES eyðileggja samkeppnisstöðu Íslands

Árið 2014 birtist skýrsla eftir Jan Edlund, flexicurity.se "Lágt rafmagnsverð Svíþjóðar tilheyrir sögunni". Í skýrslunni rekur hann þróun rafmagnsverðs eftir að Svíþjóð gekk með í ESB og orkumarkað sambandsins. Rakin er þróun rafmagnsverðs í 14 löndum ESB á árunum 1995-2013 sérstaklega til iðnaðar og heimila. Rannsóknin sýnir fram á verðjöfnun sem bætir samkeppninsaðstöðu landa á meginlandinu – aðallega Þýzkalands, á sama tíma og verð á rafmagni hefur stórhækkað á Norðurlöndum – einna mest í Noregi, Danmörku og Svíþjóð.

Fyrir sameiningu rafmagnsmarkaðar Skandinavíu og meginlandsins tryggði endurnýjanlegt vatnsafl ásamt kjarnorku iðnaði Norðurlanda góða samkeppnisstöðu. Eftir sameininguna og útilokun lágs rafmagnsverðs Norðurlanda snarversnaði samkeppnisstaðan og rafmagnsverðið byggðist í ríkari mæli á kolum og jarðgasi. Í Svíþjóð hefur þessi þróun komið harðast niður á grundvallaratvinnuvegunum skóg- og stáliðnaði en þeir atvinnuvegir bera uppi mörg þjónustufyrirtæki og aðra atvinnustarfsemi.

1995 var Svíþjóð í hópi landa með lægst rafmagnsverð til heimila (fyrir skatt). Á árunum 1995 – 2013 hækkaði rafmagnsverð 49% í viðmiðunarlöndunum en meira en tvöfaldaðist til heimila í Svíþjóð og mun meira í Noregi og Danmörku. Á meginlandinu jókst rafmagnsverð einungis 15% til þýzkra heimila á tímabilinu og hækkaði naumast í Ítalíu, Frakklandi og Portúgal.

Ár 1995 var rafmagnsverð til iðnaðar í Þýzkalandi 128% hærra en til iðnaðar í Svíþjóð. Á meðan sænskur iðnaður greiddi um 60% af meðalverði 14 evrópskra landa, þá borgaði þýzki iðnaðurinn um 50% yfir meðalverði (sjá töflu 1). Þessi munur hefur jafnast út á tímabilinu og er rafmagnsverð til sænsks iðnaðar 10% undir meðalverði en verð til þýzka iðnaðar aðeins 8% hærra en það sænska. 

tafla1Yfirleitt er rafmagnsverð um helmingi lægra til iðnaðar en til heimila. Hins vegar hefur skapast verðjöfnun milli landa í Evrópu bæði gagnvart iðnaði og heimilum. Mest hefur rafmagnsverð hækkað í löndum sem höfðu ódýra raforku árið 1995 (Noregur, Svíþjóð, Danmörk og Finnland) en minnst í löndum með dýrustu orkuna eins og t.d. í Þýzkalandi. 

Í dag er verðmunur á sænsku og þýzku rafmagni nær horfinn, þrátt fyrir að sænska rafmagnið sé aðallega framleitt með ódýrri vatns- og kjarnorku en þýzka rafmagnið aðallega úr kolum, gasi og olíu. Á sameiginlegum orkumarkaði ESB byggir rafmagnsverðið á meðalverði framleiðslu í miklum mæli úr kolum, gasi og olíu og geta sölufyrirtæki norræns rafmagns stungið mismun lægri framleiðslukostnaðar og hærra söluverðs (spot-pris) í vasann.

Svíþjóð er ekki lengur sjálfsagður valkostur fyrir orkufrekan iðnað, þar sem samkeppnisstaða Þýzkalands hefur stórbatnað og gert landinu kleyft að verða að stórum keppinauti í rafmagnssölu. Við athugun fleiri landa meginlandsins kemur skýrt munstur í ljós: Norðurlönd hafa yfirgefið lágt samkeppnisfært rafmagnsverð og hækkað upp í meðalverð. Löndin á meginlandinu aðallega Þýzkaland ásamt Austurríki, Frakklandi, Belgíu, Hollandi og Portúgal hafa öll lækkað rafmagn úr háu verði og komist nær eða undir meðaltali þeirra 14 landa sem rannsóknin nær yfir. 
tafla2
Síðustu áratugi fyrir 2013 jókst neysluvísitalan í Svíþjóð um 25% en rafmagnsverð meira en tvöfaldaðist (sjá töflu 2). Stærri hluti heimilistekna en áður fór í rafmagnskostnað. Samtímis jókst einokun á sænska raforkumarkaðnum og eru þrjú stór fyrirtæki allsráðandi - Fortum, Eon og Vattenfall. Eon er þýzkt, Fortum finnskt og Vattenfall sænskt. Eigendum dreifingarkerfisins er kleift að taka út hærra verð fyrir dreifinguna en sjálft rafmagnið kostar. Hin vaxandi fákeppni hefur stóraukið rafmagnsverð til heimila t.d. hækkaði rafmagn um 40% frá 26,22 sek per fermeter í leiguhúsnæði upp í 36,57 sek á tímabilinu 2006–2012. 

Niðurstaða rannsóknar Jan Edlunds og skilgreining er: "Iðnaður og heimili á meginlandi Evrópu hafa fengið aðgang að rafmagni sem er niðurgreitt af iðnaði og heimilum Norðurlanda."

Samþykkt orkupakka 3 þvingar íslenska raforku inn á þennan markað á sömu skilmálum: Ísland bætist í hóp þeirra landa sem eru látin greiða niður rafmagn til meginlands Evrópu aðallega Þýzkalands. Íslenskur iðnaður og heimili greiða niður rafmagn til iðnaðar og heimila á meginlandi Evrópu.

Ljóst er að fyrirtæki sem selja íslenskt rafmagn á þennan markað munu hagnast verulega á sölunni vegna þess uppsprengda verðs sem tekið verður af íslenskum fyrirtækjum og heimilum. Samkeppnisstaða Íslands mun – þvert á móti því sem talsmenn orkupakka 3 halda fram, eyðileggjast við inngöngu á orkumarkað ESB skv. skilmálum EES.

Ríkisstjórninni ber snarast að afturkalla þingsályktunartillögu sína um afléttingu stjórnarskrárbundinna fyrirvara og krefjast undanþágu frá orkumarkaði ESB gegnum EES-samninginn.

---------------------

Hér að neðan eru fleiri upplýsingatöflur m.a. nákvæmt yfirlit yfir verðþróun rafmagnsverðs fyrir löndin sem rannsóknin tekur yfir. Smellið á myndina til að sjá hana stærri.

tafla3 kopia

tafla6

elprisindustri

elprishem

Gústaf Adolf Skúlason

Gústaf Adolf Skúlason

Smáfyrirtækjarekandi í Svíþjóð með auglýsinga- og hönnunarfyrirtækið 99 Design sem starfar við útlitshönnun og auðkenni vara og fyrirtækja. Aðstoða einnig smáfyrirtækjarekendur með efnahagsstjórn og gæðamál. Var í nokkur ár aðalritari smáfyrirtækjasambands Evrópu, ESBA, með skrifstofu í Brussel og sat í stjórn samtakanna á annan áratug sem fulltrúi sænskra samtaka smáfyrirtækjarekenda. Mun hér fremst skrifa pistla um viðskipti og fjármál.

Meira