c

Pistlar:

9. september 2019 kl. 19:26

Gústaf Adolf Skúlason (gustafadolfskulason.blog.is)

Mótsvarandi 16.000 milljarða ískr. tap Svía næstu 10 árin

Á sama tíma og norræna ráðherranefndin býður styrki og vaxtalaus lán NEFCO og Nopef til norrænna fyrirtækja sem vilja flytja út græna tækni hrannast rafmagnsskortsviðvaranir í hrúgu í Svíþjóð.

"Þröngt í rafmagnsnetinu - hindrun í vegi uppbyggingar og hagvaxtar?" (skýrsla Pöyry)

Í ársgamalli skýrslu finnska Pöyry segja orkufyrirtækin í Svíþjóð sem pöntuðu skýrsluna, að samfélagslegt tap Svíþjóðar vegna fyrirsjáanlegs rafmagnsskorts til heimila og fyrirtækja sé í ár um 80 milljarðar SEK og komist upp í 150 milljarða SEK árlega árið 2030. Skaðinn sem Svíþjóð verði fyrir nemur því ríflega 16.000 milljörðum íslenskra króna á næstu tíu árum. Bætist skaðinn ofan á gróðaútflutning erlendra einokunarfyrirtækja í rafdreifingu sem nemur tugum milljörðum sænskra króna árlega. Ef Sánkti Pétur hellir ekki gullregni yfir orkufyrirtækin og býður upp á góð kraftaverk, þá hægist enn frekar á hagvexti Svíþjóðar vegna orkusambands ESB. Verst úti verða sænsk iðnaðarfyrirtæki en 90% skaðans hindrar vöxt þeirra næsta áratuginn. 

skaermavbild_2019-09-09_kl

Hætt við stækkun iðnaðarfyrirtækja og lagningu járnbrautarteina

Gríðarleg óánægja um fyrirkomulag raforkumála ESB er meðal notenda, bæði heimila og fyrirtækja. Á mörgum stöðum hafa yfirvöld þurft að neita fyrirtækjum sem vilja stækka við sig eða opna á nýjum stað. Í Västerås hafa fjárfestingar í iðnaði verið stöðvaðar og á öðrum stækkandi svæðum hefur lagning nýrra járnbrautateina verið lögð á hilluna. Eva Vitell yfirmaður viðskiptasviðs Vattenfalls segir að skorturinn á rafmagnsgetu dreifikerfisins sé áfall fyrir fyrirtækið: 

"Fyrir tveimur árum síðan báðum við Sænska Orkunetið um flutningsgetu á rafmagni til nýs viðskiptavinar sem er stórt iðnaðarfyrirtæki í Uppsala og fengum svarið að það væri ekki hægt. Það var stór skellur fyrir okkur". Áður þurfti Vattenfall og önnur orkufyrirtæki bara að hafa samband við Sænska Netorku og biðja þá um að auka flutningsgetuna og hefur það aldrei áður verið neitt vandamál. (sjá fPlus)

eb4630da-ebae-4ea5-931e-20481c03cb69Ekki nægjanleg rafmagnsgeta í Stokkhólmi

Mats Wang-Hansen hjá Pöyry sem gerði skýrsluna um tap Svía næsta áratug segir að Svíþjóð verði af fjárfestingum þegar tölvuver og annar iðnaður fer til annarra landa. Henrik Bergström yfirmaður almenningstengsla hjá rafmagnsdreifingarfyrirtækinu Ellevio sem ber ábyrgð á svæðisnetinu í Stokkhólmi segir að "vöxtur Stokkhólmssvæðisins krefst meira rafmagns og það fáum við ekki hjá Sænsku Orkuneti. Við verðum að sjá um vöxt Stokkhólmssvæðisins og reynum því að finna aðrar lausnir t.d. í samstarfi við hitaveitu Stokkhólms."

Tomas Sokonicki fjárfestingarráðgjafi hjá Business Sweden aðstoðar erlend fyrirtæki sem vilja byggja orkufrekan iðnað í Svíþjóð: "Við merkjum takmörk flutningsgetunnar við stærri verkefni sem þrengir val á staðsetningu og sveitarfélögum sem geta unnið með slík verkefni. Þessi verkefni eru í alþjóðlegri samkeppni og ákvarðanir oft teknar í tímapressu og þá falla sænsku möguleikarnir burtu vegna öryggisleysis og langs afgreiðslutíma". 

Ekki tekið á móti fleiri fyrirtækjum 

Rafgeymafyrirtækið Northvolts ætlaði að byggja verksmiðju í Malmö en var neitað af þýzka rafdreifingarfyrirtækinu Eon. Fyrirtækið spurðist þá fyrir í Västerås og var líka neitað þar. Fyrirtækinu tókst að finna rafmagn fyrir verksmiðjuna í Skellefteå en hönnunardeildin fékk að vera í Västerås: "Það var ekki hægt að lofa þeim nægjanlegu rafmagni. Við gátum tekið á móti tölvuveri Amazon og þróunardeild Northvolts og núna getum við ekki tekið á móti fleirum fyrirtækjum af þessarri stærðargráðu. Ég held að það sama gildi um öll sveitarfélög og svæði sunnan af Gävle" segir Eva Lilja viðskiptafulltrúi Västerås.

Niclas Damsgaard deildarstjóri Sænska Orkunetsins segir bransann hafa fengið rothögg: "Rafvæðing samfélagsins hefur gerst hraðar en við gátum séð fyrir og hefði því þurft að byggja út netið miklu fyrr".

Farinn að hljóma eins og "Bagdad-Bob"

YgemanTrelleborg tapaði nýlega milljarðafjárfestingu erlends fyrirtækis sem hefði skapað 300-400 manns atvinnu. Mikael Rubin hjá Trelleborg segir að "allir hlutir voru réttir, höfnin var rétt en hætt var við allt vegna þess að við gátum ekki tryggt nægjanlegt rafmagn". Hann segir að framtíðaráhorf sveitarfélagsins séu í hættu vegna þess að netrisinn EON neiti aðgangi að meira rafmagni. Í Sjöbo í Skáni segir sveitarstjórinn Magnus Weberg að ekki sé hægt að gefa leyfi fyrir byggingu eða stækkun fyrirtækja vegna neitunar EON og óljóst hvort hægt sé að fá rafmagn til 450 bústaða sem á að byggja.

Anders Carlsson forstjóri brauðgerðarinnar Pågens sagði þegar EON hindraði stækkun verksmiðjunnar í Malmö: "Rafmagnsskortur er hlutur sem rætt er um hjá vanþróuðum ríkjum". Mikael Rubin hjá Trelleborg segir að ríkið svíki hlutverk sitt að afhenda jafn mikilvæga samfélagsþjónustu sem rafmagnið er: "Orkumálaráðherra Anders Ygeman segir að það sé enginn rafmagnsskortur og meðhöndlar mig og aðra sem hafa áhyggjur af þróuninni sem "sérhagsmuni". Mér finnst hann vera farinn að hljóma eins og Bagdad-Bob". 

Yfirvöld loka kjarnorkuverum 

Á sama tíma og hagvöxtur stöðvast af rafmagnsnetdreifingarfyrirtækjum í Svíþjóð ætla sænsk yfirvöld að loka kjarnorkuverinu Ringhals 2 og rafmagnsframleiðslu þess. Anders Ygeman orkumálaráðherra Svíþjóðar segist engar áhyggjur hafa af rafmagnsskorti í Svíþjóð: "Ég hef ekki hitt neinn sem trúir á rafmagnsskort í Svíþjóð. Þvert á móti eykst framleiðsla á umframrafmagni til útflutnings". Hálfsársskýrsla orkufyrirtækjanna í Svíþjóð staðfestir ummæli ráðherrans: "Þegar hálft 2019 er liðið hefur Svíþjóð þegar flutt út nettó næstum 14 TWh af rafmagni". Það er um 40% meiri rafmagnsútflutningur en á sama tíma 2018 og mótsvarar neyslu 560 þúsund einbýlishúsa. Stærsti móttakandinn er Þýzkaland.

Að sögn ráðherrans er vandamálið að það vantar rafmagnsleiðslur. Segir Ygeman að hægt sé að leysa tilfallandi toppa með því að greiða rafmagnsnotendum fyrir að loka á rafmagnið á mesta álagstímanum. Að kjarnorkuveri sé lokað finnst ráðherranum rétt þar sem hægt væri að flytja inn sólarorku í staðinn: "Ég sé fyrir mér belti sólarorku við miðbaug jarðar sem hægt væri að flytja til okkar annað hvort gegnum rafmagnsleiðslur eða í gasformi sem hægt er að flytja með skipum". 

Rafmagnsfyrirtækin stunda hræðsluáróður

Hagfræðiprófessorinn Stefan Yard gefur ekki mikið fyrir skýringar rafmagnsfyrirtækjanna að fjárskortur hamli útbyggingu rafmagnsnetsins í Svíþjóð. Flutningsverð hækkar milli 6 - 8% árlega en aðeins 1% fer í fjárfestingar. Fyrirtækin segjast þurfa að hækka rafmagnsverð til að geta stækkað netið en gróðinn er sendur til móðurfélaga mest erlendis: "Ef rafmagnsfyrirtækin auka við fjárfestingar þá aukast eignirnar samtímis og tekjuramminn leiðréttist upp á við. Ég er hissa á þessari skýringu, ef málið er skoðað frá hagfræðilegu sjónarmiði, þá skil ég ekki hvernig það ætti að hindra fjárfestingar í framtíðinni - mér finnst þetta að mestu leyti vera spil".

(Samantekt úr ýmsum áttum, blaðagreinum, skýrslum, viðtölum m.m./GS)

Gústaf Adolf Skúlason

Gústaf Adolf Skúlason

Smáfyrirtækjarekandi í Svíþjóð með auglýsinga- og hönnunarfyrirtækið 99 Design sem starfar við útlitshönnun og auðkenni vara og fyrirtækja. Aðstoða einnig smáfyrirtækjarekendur með efnahagsstjórn og gæðamál. Var í nokkur ár aðalritari smáfyrirtækjasambands Evrópu, ESBA, með skrifstofu í Brussel og sat í stjórn samtakanna á annan áratug sem fulltrúi sænskra samtaka smáfyrirtækjarekenda. Mun hér fremst skrifa pistla um viðskipti og fjármál.

Meira