c

Pistlar:

11. október 2021 kl. 16:45

Hildur Jakobína Gísladóttir (hildurjakobina.blog.is)

Ertu leið/ur á vinnustaðnum þínum?

Flestir ganga til liðs við vinnustaðinn sinn fullir af áhuga og drifkrafti. Í fyrstu hlakkar þig til að fá að sýna hvað í þér býr og hverju þú getur afkastað. Þessu má líkja við nýju sambandi við annan einstakling. Spennan og eftirvæntingin er mikil og bjartsýni ríkir. Þegar við byrjum á nýjum vinnustað göngum við út frá því að á vinnustaðnum ríki gagnkvæm virðing á milli samstarfsmanna, að samskipti séu góð og og við séum vernduð gagnvart vanvirðingu og yfirlæti. Að sama skapi göngum við út frá því að okkur sé kennt það verklag sem við á um okkar störf, að upplýsingaflæði sé gott og að við séum að ganga inn í það starf sem við vorum upphaflega ráðin í og á umsömdum kjörum. Verði forsendubrestur á þessum ofangreindum þáttum bregðumst við ekki vel við og óánægja okkar vex.

Vinnustaðir eru mismunandi þroskaðir og skila oft niðurstöðum í takt við þann þroska. Þar erum við að tala um mannlega hegðun, persónuleika og gildi stjórnenda. Hin raunverulegu gildi (sem stýra ferðinni innanhúss og utan) þurfa að sjálfssögðu að vera í takt við gildin sem standa á vegg eða heimasíðu fyrirtækisins, annars skila þau sér ekki sem skyldi. Að auki er ekki verra að þín persónulegu gildi gangi í takt við gildi vinnustaðarins.

Rannsóknir sýna að eftir um það bil,  5-7 ár í starfi fer fólk að verða gagnrýnna á vinnuumhverfi sitt. Kannski sérð þú þá þætti í vinnuumhverfinu eða stjórnun vinnustaðarins sem þér líkar alls ekki við og kannski missir þú trúna á getu eða hæfni annarra samstarfsstarfsmanna eða yfirmanna. Kannski ert þú búin að reyna að koma á framfæri að þú sért ekki sáttur við núverandi fyrirkomulag eða hegðun án þess að fá hlustun né skilning.

Þessu má líkja við hjónabandið. Það er nefnilega þannig að við göngum oftast af heilum hug í hjónaband með annarri manneskju. Þegar við göngum til þessarar ráðstöfunar höfum við gagnkvæmar væntingar um hegðun í garð hvors annars og við göngum út frá því að í því samkomulagi ríki og að virðing sé gagnkvæm og samskiptin góð og heilbrigð. Við vitum hins vegar að skilnaðir eru stundum óumflýjanlegir vegna trúnaðarbrests eða annarra þátta og þótt það ferli sé erfitt þá er það stundum það besta í stöðunni. Það sama á við um vinnustað sem veldur þér ama.

Hvað er hægt að gera í slíkum aðstæðum? Svarið verður auðvitað hver og einn að eiga við sjálfan sig en það þarf að meta hvort að það sé raunhæft að laga vandann. Getur þér liðið betur á vinnustaðnum? Já, ef aðilar hlusta á þig og taka uppbyggilegri gagnrýni og vilja leysa vandann. Ef þú áttar þig hins vegar á því að þú getur engu breytt þá verður málið erfiðara og flóknara. Ljóst er þá að ekki verða miklar breytingar ef stjórnendur hlusta ekki á óánægt starfsfólk og jafnvel kenna þeim um óánægju sem hlaust af þeirra eigin stjórnunaraðferðum. Þá vitum við að það verður ekki aftur snúið og ákvörðunin um að fara er auðveld. Það sama á við um hjónaband þar sem annar makinn hlustar ekki á hinn eða hunsar hann og ber ekki virðingu fyrir honum né hans þörfum. Við vitum að það ástand breytist ekki nema báðir aðilar séu tilbúnir að líta í eigin barm og viðurkenna mistök.

Þar sem við eyðum jafnmörgum klukkutímum á sólarhringi í vinnunni eins og í frítíma okkar og í svefn, er mikilvægt að okkur líði vel og við fáum að vaxa og dafna í starfinu.  

Ákvörðunin sem slík er oftast erfiðasti hjallinn. En oftar en ekki opnast aðrar dyr og þar bíða ýmis tækifæri. Jafnvel tækifæri sem þú hélst ekki að biðu þín. Þess vegna er mikilvægt að þú sért þinn besti vinur og standir með sjálfum þér með þína eigin velferð í huga. Ef þér líður ekki vel í vinnunni, ræddu þá við einhvern sem þú treystir eða leitaðu til markþjálfa eða sálfræðings. Þú einn verður að taka ákvörðun en vertu viss um að þú hafir gert allt sem í þínu valdi stóð til að komast að niðurstöðu. Ekkert er þess virði að hanga í ef það tekur meira frá okkur en það gefur.Skoðaðu möguleika þína á annarri vinnu og jafnvel annað áhugasvið ef það er eitthvað sem þér hugnast. Hræðslan við hið óþekkta er jafnvel hamingjan sem bíður þín handan við hornið.

Hildur Jakobína Gísladóttir

Hildur Jakobína Gísladóttir

Vinnusálfræðingur og eigandi ráðgjafafyrirtækisins Officium ráðgjöf ehf. Hildur er með grunnmenntun í sálfræði, MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík, stjórnendamarkþjálfi(Executive Coach) frá opna Háskolanum, Leadership Management International stjórnendaþjálfi og mastersgráðu í Vinnusálfræði frá London Metropolitan University,

Meira