Pistlar:

26. febrúar 2017 kl. 11:35

Hrefna Óskarsdóttir (hrefnaoskars.blog.is)

Konur sem prumpa

Ég hef stundum kallað sjálfa mig gallagrip, ekki af því að ég líti á mig sem annars-flokks einstakling (eða af því að ég prumpa), heldur einungis vegna þess að ég er blessunarlega laus við fullkomnun - eins og allar aðrar manneskjur sem hafa stigið hér á jörð.

Almennt séð þá hef ég hingað til talið þetta vera staðreynd frekar en skoðun. Þú veist, þetta með að enginn sé fullkominn og allt það. En ég verð að viðurkenna að undanfarið er ég dáldið farin að efast. Þegar ég les samfélagsmiðlana og kommentakerfin líður mér stundum óþægilega – svona eins og ég sé eini gallagripurinn í kerfinu. Svo tala ég við fólk og fæ þessa „hjúkket“ tilfinningu. Það er til fólk eins og ég. Fullt af því meira að segja. (Tvöfaldur broskall á það).

Ég veit ekki með þig en einhvern veginn finnst mér umburðalyndi fyrir samferðafólki okkar, ólíkum skoðunum og mannlegu eðli hafa farið hnignandi. Allt sem ekki er eins og okkur finnst það ætti að vera (í hinum fullkomna heimi, hjá hinu fullkomna fólki) fordæmum við sem „rangt“, „vitlaust“ og „heimskulegt“. Við gerum þær kröfur að fólk hagi sér í alla staði óaðfinnanlega, líti óaðfinnanlega út, eigi óaðfinnanlegt heimili, næli sér í óaðfinnanlega menntun, streði að óaðfinnanlegum starfsframa og ali upp óaðfinnanleg börn. Og sé auðvitað í óaðfinnanlegu hjónabandi. Að öðrum kosti sjáum við okkur tilneydd til að tjá okkur um það á opinberum vettvangi þó við þekkjum ekkert til þessa fólks eða aðstæðna þess.

Og sá vinnur leikinn sem er mest óaðfinnanlegur, hljómar eins og uppskriftin að hamingju til  æviloka. Einfalt. Skothelt.

Skelfilegt.

Þessi krafa um fullkomnun og óaðfinnanlega hegðun, útlit og árangur er að gera út af við okkur og þá ekki síst börnin okkar. Um 20% barna eru að kljást við geðræna erfiðleika sem má að miklu leiti rekja til samfélagsmiðla og þeirra krafna sem samfélagið gerir um fullkomnun. 

Við erum tilbúnari að setja börn á geðlyf heldur en að reyna að skilja þarfir þeirra og breyta kröfum okkar, því erfið og ófullkomin börn eru ekki sérlega vel liðin í samfélagi fullkomnunar. Ekki heldur fólk sem er að kljást við þunglyndi, kvíða og aðrar erfiðar tilfinningakrísur. Ég tala nú ekki um ef þú ert karlmaður. Þú veist, karlmenn gráta ekki og eiga ekki sýna tilfinningar og allt það. Þeir eiga líka alltaf að vera einlægir, blíðir og rómantískir en samt stundum svoldið dularfullir, óheflaðir og töff en umfram allt eiga þeir að geta lagfært allt heimafyrir því annars eru þeir aumingjar sem engin not eru í.

Í hinum fullkomna heimi eiga konur einnig að haga sér óaðfinnanlega, vera blíðar og ljúfar og prumpa bara helst ekki. Ef þær eru með mjúkan maga, eiga þær alls ekki að fara ekki bikiní og eðlilega ættu þær alltaf að vera í megrun til að vera ekki settar í hinn skelfilega „annan flokk“ mannkyns. Þó konur eigi að vera blíðar og ljúfar, megum við samt ekki að vera vitlausar og trúgjarnar og treysta því að fólk haldi loforð. En hey! Það góða við fullkomin samfélög, er að það leyfir heldur ekki gamla karla með úreltar skoðanir. Gott betur en það, allir sem ekki hafa „réttu“ skoðanirnar eru fordæmdir. 

Ég dáist endalaust að fólki sem enn hefur kjarkinn í að hafa skoðun þegar viðurlögin fyrir  „ranga skoðun“ er opinber rasskelling.  Með tilkomu kommentakerfisins og samfélagsmiðla höfum við náð nýjum víddum í skoðunum á skoðunum. Í hinu fullkomna, óaðfinnanlega samfélagi okkar höfum við nefnilega náð að gera hið ómögulega; að þróa hina einu réttu skoðun.

Einhvern tíma heyrði ég því fleygt að karlmenn mættu sýna þrjár „tilfinningar“; þeir mættu vera glaðir, reiðir og fullir. Að sama skapi er bara pláss fyrir tvær skoðanir; hina réttu (sem er, þú veist, þín skoðun – en er samt að öllum líkindum skoðunin sem hinn háværi meirihlutinn aðhyllist. Hin týpíska íslenska hjarðhegðun, skilurðu) og þá röngu  (sem eru allar hinar [kjánalegu] skoðanirnar sem hinn háværi meirihluti er á móti – og þú þá auðvitað líka).

Það að hafa skoðun er allt í einu orðið að einhverskonar like-keppni samfélagsmiðla og tilefni til persónulegra árása á kommentakerfum. Eins fáránlegt og þetta hljómar, þá er þetta sorglegur raunveruleiki margra og við hin tökum þátt með því að skiptast í fylkingar, með eða á móti.

Það gerist hins vegar í gegnum þroskaferli erfiðleika og sjálfsskoðunar að við sjáum að heimurinn er ekki bara svartur og hvítur, heldur með 50 gráa litatóna og um 10 milljónir annarra litategunda sem augað nær að greina.  Erfiðleikar, sársauki, þjáning og margskonar mistök gerir það að verkum að við sjáum mannlega, ófullkomna hegðun annarra í öðru ljósi. Við öðlumst þann hæfileika að geta sett okkur í spor annarra og séð hluti frá mörgum ólíkum sjónarhornum, þar sem hluti af okkur getur verið að einhverju leiti sammála einum meðan annar hluti af okkur getur áttað sig á sjónarmiðum hins. Með auknum þroska sjáum við líka að maður þarf ekki endilega að vera á móti einum til að vera sammála hinum. Maður getur jafnvel séð (mismikla) skynsemi í skoðunum beggja. Eða verið algerlega ósammála báðum. Og svo má maður líka skipta um skoðun. En það allra dásamlegasta við þroskann er að átta sig á því að maður þarf ekki að niðurlægja fólk opinberlega fyrir það eitt að hafa aðra skoðun en þá sem maður sjálfur aðhyllist.

Það þarf þroska til að ræða viðkvæma hluti á málefnalegan hátt og sennilega þyrfti hin íslenska þjóð allhressilega þjálfun í málefnalegum umræðum því oftar en ekki er farið í persónulegt skítkast þegar rök skortir. Við þurfum að hafa það að leiðarljósi að finna lausnir og stuðla að betra, manneskjulegra og umburðalyndara samfélagi, þar sem karlar mega gráta, konur mega prumpa og börn þurfa ekki að kvíða framtíðinni.  

Sem er það allt þetta snýst jú um…  eða hvað?

 

4. janúar 2016 kl. 10:04

Venjuleg, týpísk meðal-Hrefna

Ég er þessi týpíska meðalmanneskja og hef líklega alltaf verið. Týpískur Íslendingur sem ber lítið á,  í meðalhæð og þyngd, með venjulegt mosabrúnt íslenskt meðalhár. Ég hef oft velt því fyrir mér hvernig fólk hefði lýst mér hefði ég týnst, því klæðnaðurinn minn hefur í gegnum tíðina verið afskaplega týpískur íslenskur meðalklæðnaður. Svartur. Mesta lagi grár eða dökkbrúnn.  Ætli það meira
26. október 2015 kl. 11:05

Ótrúlega hamingjusöm (og útúrlyfjuð). 

Ég varð fertug á árinu sem er alveg dásamlegt sko, en einhvern vegin átti ég samt von á meiri þroska, visku og umburðarlyndi á þessum merku tímamótum. Það spilar kannski eitthvað inn í hvað mér finnst svo margt í íslensku þjóðfélagi einkennast af heimsku og vitleysu. Við hjökkum endalaust í sama farinu, gerum sömu mistökin á sama hátt, gerum þau aftur og aftur og virðumst aldrei geta lært af meira
1. september 2015 kl. 10:46

Hvers virði eru ömurlegheit?

Við Íslendingar erum upp til hópa ágætis einstaklingar - tiltölulega flott fólk en pínu brennd af vonbrigðum lífsins.  En af og til kemur fyrir að við gerum eitthvað eins heimskulegt eins og að fara að deita, fara í samband eða stofna til sambúðar. Sumir geta gert þetta allt á skynsamlegan hátt, geta deitað á þeim forsendum að þeir séu að máta. Máta hvort þetta sé einstaklingur sem kemur vel meira
19. júní 2015 kl. 8:55

Lífsgæðaefling í 10 einföldum skrefum.

Þú ert nóg og ert akkúrat eins og þú átt að vera í dag. Aðstæður eru eins og þær eru en þú mátt sko alveg að stefna að því að hafa það betra. En það breytist bara ekki mikið hjá þér þegar þú hjakkar í þeirri þráhyggju að hlutirnir ættu að vera öðruvísi, að þetta hefði ekki átt að fara svona.  Við erum það sem við erum núna af því að við gerðum það sem við gerðum þá. Vitleysa gærdagsins getur meira
3. júní 2015 kl. 11:22

Bessevisserar landsins, athugið!

Þegar ég bjó á Akureyri og fór með ungann minn fyrsta daginn á leikskóla, ákvað ég að reyna að fara í kúlið og verða þessi upplýsta, meðvitaða móðir sem mér hefur svo sjaldan tekist að vera og spurði um þær stefnur sem leikskólinn aðhylltist. Með dass af umburðarlyndi og þolinmæði svaraði deildarstjórinn mér því að þau væru eiginlega hrifnust af skynsemisstefnunni - að taka það besta, skynsamasta meira
17. apríl 2015 kl. 9:20

Hamingja fæst gefins gegn því að vera sótt...

Það er fáránlega auðvelt að nota tilfinningar til að stjórnast í fólki til að ná sínu fram. Það eru margar leiðar færar í þessum efnum en í grunninn er uppskriftin frekar einföld. Byrjaðu á því að ná í alla uppsöfnuðu gremjuna þína, hækkaðu róminn allverulega og notaðu svo nokkuð ógnandi líkamsstöðu. Týndu svo allt til sem þessi einstaklingur hefur gert á þinn hlut... já, eða týndu bara til öll meira
11. mars 2015 kl. 8:55

Lykillinn að lífshamingjunni... og öllu hinu draslinu.

Ég elska bleikan, ég elska glingur og ég elska gjafir sem hafa persónulega þýðingu. Ég elska þegar ég horfi í spegil og finnst ég dáldið sæt. Mér finnst hún samt dásamlegust, tilfinningin þegar ég er sátt við sjálfa mig. Þegar það sem ég segi er í samræmi við það sem ég svo geri.  Ég elska þegar ég næ að tengist fólki og fæ að sjá raunverulegu manneskjuna – á bak við grímuna. Það meira
22. janúar 2015 kl. 10:11

Dagurinn sem ég bjargaði heiminum.

Ég man ekki hvað ég var gömul þegar ég áttaði mig á því að það allra besta, í öllum heiminum, er að vera í gleði. Og Guð hvað ég man vel eftir þeirri dásamlegu tilfinningu að vera glöð yfir því einu að vera til. Hoppandi yfir blómabeðið á Vesturveginum, aftur og aftur og fram og til baka, af þeirri ástæðu einni  að það var bara svo hrikalega gaman.    Hvort sem það er vegna erfða meira
3. janúar 2015 kl. 23:46

Að strippa á sálinni

Þar sem ég er pínu feimin og óframfærin og finn nokkuð reglulega fyrir fólksfælni, þá á ég nokkrar „grímur“ til að setja upp þegar ég þarf að fara í búð (og er engan vegin stemmd fyrir það), þegar ég er að hitta fólk í fyrsta skipti og veit ekkert hvernig ég á að vera eða (Guð forði mér frá þeim aðstæðum) ef ég þarf að biðja um aðstoð. Þessar grímur eru mér algerlega lífsnauðsynlegar meira
7. desember 2014 kl. 11:10

Flottasta skvísan á Facebook

Ein erfiðasta lífsreynslan sem ég hef nokkurn tíma lent í er að vera hafnað. Fyrir suma er það höfnun að vera sagt upp í starfi eða vera ekki boðið með þegar vinahópurinn gerir eitthvað saman. Fyrir mig var það að vera skilað. Ég fékk þá tilfinningu að það sem ég var eða hafði yfir að búa, væri ekki nóg. Þetta er skelfilega tætandi, meiðandi og eyðileggjandi tilfinning sem er samt fáránlega meira
15. nóvember 2014 kl. 9:39

Listin að klúðra samböndum

  Jesús, hvað ég vildi óska þess að ég væri að skrifa grein með fyrirsögninni  „Listin að láta sambönd ganga“.  En á meðan það er ekki í reynslubankaum mínum, er erfitt fyrir mig að skrifa þannig grein. Ég get hins vegar gefið nokkur öflug og góð ráð um hversu auðvelt það er að klúðra samböndum  og samskiptum.    Formúlan er þessi:  slatti af meira
31. október 2014 kl. 10:23

Stórkostlega gallað kjánaprik

Hún er vond sú tilfinning þegar einhver sér óvart hluta af manni sem maður hefur eftir fremsta megni reynt að fela fyrir öðrum. Ég hef næstum misst af Herjólfi þrisvar (get eingöngu skrifað það á kjánaskap og kæruleysi) og hef einu sinni meira að segja tekist það. Klárlega ekki það versta sem ég hef gert, en samt eitthvað sem ég skammast mín smá fyrir. Ég hef hins vegar staðið úti á miðri meira
15. október 2014 kl. 10:21

Ef ég bara þyrði...

Ég elska September. Sko plötuna hans Bergsveins. Og þó ég syngi kannski ekki vel, þá elska ég nú samt að syngja með. Af öllum lífs og sálar kröftum. Ég elska að setja Pink í botn og dansa með -  eins og engin sé að horfa. En ég lít samt alltaf í kringum mig til að athuga hvort ég sjái einhvern. Þú veist, að horfa. Mér þykir nefnilega enn pínu vont að vera álitin kjánaleg. Ég er dáldið feimin meira
Hrefna Óskarsdóttir

Hrefna Óskarsdóttir

Fædd á því gæðaári 1975. Iðjuþjálfi, dáleiðslutæknir og nemi í geðheilbrigðisvísindum við Háskólann á Akureyri þessa dagana. Með óendanlegan áhuga á mannlegu eðli, sérstaklega því sem eykur vellíðan, hamingju og lífsgleði og því sem dregur úr hausarusli og tilfinningadrasli. Finnst fátt betra en að lesa, skrifa, hlusta á góða tónlist og eiga góða stund með fjölskyldu og vinum (en ekki endilega í þessari röð).

Meira