c

Pistlar:

31. október 2014 kl. 10:23

Hrefna Óskarsdóttir (hrefnaoskars.blog.is)

Stórkostlega gallað kjánaprik

Hún er vond sú tilfinning þegar einhver sér óvart hluta af manni sem maður hefur eftir fremsta megni reynt að fela fyrir öðrum. Ég hef næstum misst af Herjólfi þrisvar (get eingöngu skrifað það á kjánaskap og kæruleysi) og hef einu sinni meira að segja tekist það. Klárlega ekki það versta sem ég hef gert, en samt eitthvað sem ég skammast mín smá fyrir. Ég hef hins vegar staðið úti á miðri umferðargötu, á háannartíma og gargað úr mér lifur og lungu og látið allra ljótustu orðin sem ég kunni falla á manninn sem ég elskaði, fyrir framan átta ára gamlan son minn. Ég týndi fimm ára syni mínum í Smáralindinni og fór eitt sinn á tjúttið í Reykjavík á meðan sami sonur, sem þá þriggja ára gamall, var að jafna sig eftir hálskirtlaaðgerð hjá frænku minni. Allt hlutir sem ég skammast mín verulega fyrir og hefði svo gjarnan vilja sleppa við að hafa gert... eða allavega verið til í að enginn hefði vitað af. Ef nú bara ég hefði verið skynsamari, betri eða ábyrgðarfyllri...

Það verður öllum á og það gera allir mistök. Með þeim orðum fyrirgaf yngsti sonur minn mér. Þegar okkur verður á og við gerum hluti sem við erum ekki stolt af eða hreint og beint skömmumst okkar fyrir, þá eru fyrstu viðbrögðin að reyna að fela það fyrir öðrum. Vona heitt og innilega að engin komist að þessu. Af hverju? Jú, af því að við hræðumst svo hrikalega hneykslun, fordæmingu og setningar eins og „...sko, svona gerir maður bara ekki“.

Ég vil svo gjarnan vera álitin góð manneskja því ég tel mig í flestum tilfellum vera það. En ég geri mín glappaskot, ég geri mistök og mér verður á. Ég geri og segi stundum hluti sem vildi oft óska að ég hefði sleppt.  Ég er hins vegar svo óendanlega heppin að eiga góða vini og fjölskyldu að sem minna mig stöðugt á hversu mikils virði ég sé þeim, þrátt fyrir kjánaskap og heimskupör. Nánast allir þeir sem ég vel að hafa í kringum mig, viðurkenna fúslega samskonar mannlega bresti og svipaðar vitleysur - jafnvel stundum eitthvað töluvert verra.

Guð blessi dásamlega vini og yndislega fjölskyldu, því svoleiðis orð gera það að verkum að ég get fyrirgefið sjálfri mér heimskupörin og hætt að brjóta mig niður fyrir kjánaskapinn, sleppt skömminni og fundið kjarkinn til vera ég sjálf.  Það er nefnilega svo átakanlega sár tilfinning, að finnast maður vera valda öðrum vonbrigðum eða mistakast. Svo hrikalega vont að maður reynir eftir bestu getu að fela það sem gert var, í það minnsta reynir maður að gera sem minnst úr hlutunum eða réttlæta sjálfan sig.

Í samfélagi sem gefur ekki sveigjanleika í mannleg mistök og kjánaskap, þá setjum við upp flotta og fullkomna grímu  til að sannfæra allt og alla um hversu gallalaus við erum. Við búum í samfélagi þar sem við þorum ekki að sýna okkar raunverulega sjálf og gera það sem okkur langar að gera af  ótta við áliti annarra.

En af hverju erum við svona berskjölduð fyrir neikvæðu áliti annarra?

Af því að það erum við sjálf sem erum þetta neikvæða álit og við vitum alveg upp á okkur sökina í þeim efnum, þrátt góðan vilja, og verðum þar af leiðandi afskaplega viðkvæm fyrir því sjálf. Það erum við sjálf sem jöplum á nýjustu hneykslissögunum eins og sælgæti og það erum við sjálf sem höfum stöðugar skoðanir á útliti og hegðun annarra. Það er því kannski engin furða að fólk sé stöðugt að reyna að fegra sig í augum annarra, hvort sem það er með að setja upp hina fullkomnu grímu eða með því að notast við einhver „öpp“.

Kjaftasögur og „útlitsdýrkandi lífsstílsvefir“  væru ekki til ef við værum ekki tilbúin að hlusta. Framboðið er einungis í samræmi við eftirspurn og það erum við sjálf sem veitum þessa eftispurn með því að vera stöðugt að taka þátt í gagnrýni og bjóða fram skoðunum  á hegðun, útliti og framkomu samferðarmanna okkar.

Sannleikurinn er einfaldlega sá að við þorum oft ekki að horfast í augu við mannlegu brestina okkar, heimskupörin og mistökin sem við gerum - eins og allir hinir. Við þorum ekki að taka áhættuna og taka niður grímuna og treysta því að fólki líki við okkur eins og við raunverulega erum og þrátt fyrir öll heimskupörin. Þess í stað sýnum við heiminum tilgerðarlega, gallalausa og afar yfirborðskennda útgáfu af okkur sjálfum og gerum þær kröfur að fólk hagi sér óaðfinnanlega, geri aldrei mistök og verði aldrei á. Við hendum  grjóthnullungum úr fallegum glerhúsum okkar í stórum stíl.

Ég dáist endalaust að þeim einstaklingum sem hafa kjarkinn og þorið til að kasta af sér „grímunni“, vera það sjálft og segja slitið við álit og skoðanir samfélagsins. Það er eitt stórkostlegasta frelsi sem hægt er að upplifa.

Við skrift þessa pistla hef ég öðlast ómældan styrk, kjark og þor til þess að losa mig sífellt meira undan skoðunum og áliti annarra. Það hefur gefið mér skemmtileg samtöl, mörg einlæg og falleg orð og tækifæri til að kynnast ótrúlega skemmtilegu og áhugaverðu fólki. Ég veit líka að þegar ég opinbera heimskupör mín og kjánaskap, fæ ég slíkt hið sama frá öðrum.  Og það hefur fært mér eitt það dýrmætasta sem lífið getur veitt; raunveruleg og innileg samskipti og tækifæri til að kynnast öðrum sem og sjálfri mér enn betur.   

Megi dagurinn í dag gefa þér sömu tækifæri, með þeirri von um að þú finnir kjarkinn þinn til að treysta fólkinu þínu fyrir sjálfum þér og einhverju af hausaruslinu þínu. Megi dagurinn í dag einnig gefa þér skilning og umburðarlyndi fyrir heimskupörum vina þinna og ættingja (og það er örugglega af nógu að taka) og að þú hlustir á sögu þeirra af forvitni í stað gagnrýni. Megi dagurinn í dag gefa þér að lokum fallegar, raunverulegar og innilegar samverustundir og vináttu við þína nánustu.

Með ást, gleði og taumlausri hamingju frá meingölluðu kjánapriki úr Vestmannaeyjum.

Hrefna Óskarsdóttir

Hrefna Óskarsdóttir

Fædd á því gæðaári 1975. Iðjuþjálfi, dáleiðslutæknir og nemi í geðheilbrigðisvísindum við Háskólann á Akureyri þessa dagana. Með óendanlegan áhuga á mannlegu eðli, sérstaklega því sem eykur vellíðan, hamingju og lífsgleði og því sem dregur úr hausarusli og tilfinningadrasli. Finnst fátt betra en að lesa, skrifa, hlusta á góða tónlist og eiga góða stund með fjölskyldu og vinum (en ekki endilega í þessari röð).

Meira