c

Pistlar:

11. mars 2015 kl. 8:55

Hrefna Óskarsdóttir (hrefnaoskars.blog.is)

Lykillinn að lífshamingjunni... og öllu hinu draslinu.

Ég elska bleikan, ég elska glingur og ég elska gjafir sem hafa persónulega þýðingu. Ég elska þegar ég horfi í spegil og finnst ég dáldið sæt. Mér finnst hún samt dásamlegust, tilfinningin þegar ég er sátt við sjálfa mig. Þegar það sem ég segi er í samræmi við það sem ég svo geri.  Ég elska þegar ég næ að tengist fólki og fæ að sjá raunverulegu manneskjuna – á bak við grímuna. Það gerirst auðvitað bara þegar og ef ég er sjálf tilbúin að taka mínar niður eigin varnir, hleypa fólki að mér og mæta þeim í einlægni. 

Einlægni reynist mörgum erfið, því þá þarf maður að sýna fólki  allt það sem maður hefur lagt svo mikinn metnað í að halda í felum. Þú veist, þann hluta sem manni langar bara hreinlega til að skera burt og losa sig alfarið við. Ummm, já og kannski líma svo í staðinn einhvað svo dásamlegt, hrikalega skemmtilegt og eftirsóknarvert. Eitthvað sem aðrir myndu  öfunda mann fyrir. Og auðvitað dásama í bak og fyrir. Hmnm... íslenski draumurinn, kannski?

Áður en ég hellti mér í þriggja ára þráhyggjukennda upplýsingasöfnun varðandi allt það sem gerir sambönd góð, hélt ég að ég væri meingallað eintak fyrir að þurfa á ást, athygli og umhyggju að halda. Ég hélt í alvöru að það væri merki um styrk, kraft og íslenskt sjálfstæði að vera bara sjálfri mér nóg. Svo ég bað þá náttúrulega engan um aðstoð, hvatningu eða falleg orð, þó svo að ég hefði oft þurft mikið á því að halda. Og ekki datt mér til hugar að láta einhvern vita ef ég beyglaðist eitthvað á sálinni. Ekki langaði mig til að vera stimpluð sem veiklunduð, þurfandi eða dramadrottning. Og mér fannst líka að ef fólki þætti í alvöru vænt um mig, þá ætti það einfaldlega finna á sér að mér liði illa. Svo ég var sterk, ég var dugleg og ég tók þetta á hörkunni. En mikið hrikalega var ég oft einmana.

Ég tók svo ákvörðun fyrir þremur árum að öll mín samskipti skyldu verða opin, einlæg og heiðarleg. Að ég myndi biðja um aðstoð ef ég þyrfti, segja frá þegar sjálfstraustið mitt beyglaðist eða geðheilsan yrði tæp. Sem sagt, að viðurkenna það fyrir mínum nánustu að ég væri frekar ófullkomið eintak (en ykkur að segja þá held ég að svoleiðis opinberum komi fólki aldrei neitt brjálæðislega mikið á óvart). En sjitt hvað það er búið að vera erfitt ferðalag. Og verandi mjög lokuð manneskja, þá á ég enn töluvert langt í land.

Ég hélt til að byrja með að einlæg, opin og heiðarleg samskipti fælust fyrst og fremst í því að vera opin með það hvernig manni líður og að vera ekki alltaf að fela allt hausaruslið og tilfinningadraslið sitt. En það sem ég þurfti að læra alveg frá grunni var að framkoma annarra hefur nákvæmlega ekkert með mig að gera. Það hefur allt viðkomandi einstakling að gera. Sú magnaða uppgötvun gaf mér færi á því að vera ekkert sérstaklega að taka nærri mér þegar fólk ákveður að mæta mér í pirringi og leiðindum. Ég halda áfram að vera glöð, sæl og sátt við mitt þrátt fyrir skapsveiflur og fýlupúkastæla annarra. Þvílíkt frelsi! En ég skal samt alveg viðurkenna að oft þegar fólk kemur illa fram við mig get ég verið ótrúlega fljót að gleyma þessum göfuga lærdómi og orðið drullufúl í smá stund.

Lykilinn að lífshamingjunni og öllu hinu draslinu fann ég í því að hætta að gera öðrum til geðs, hætta að reyna að breyta öðrum og með því að sýna sjálfri mér alla þá ást, virðingu og væntumþykju sem ég krafðist af öðrum. Það er nefnilega dáldið þannig að framkoma annarra er í beinu hlutfalli við það sem manni finnst maður sjálfur eiga skilið.

Þegar ég sýni sjálfri mér ást og virðingu þá finnst mér ég eingöngu eiga góða, elskulega og virðingarfulla framkomu skilið og sætti mig við ekkert minna. Ég vel að vera í kringum fólk sem kallar fram góðu, skemmtilegu og blíðu hliðarnar mínar. Sem sættir sig við að ég get verið óttarlegt kjánaprik. Ég vel fólk í kringum mig sem er gaman að hlægja með og sem ég á auðvelt með að eiga í einlægum, opnum og heiðarlegum samskiptum við.

Ég passa þá upp á mína gleði og umfram allt, huga ég að mínum eigin tilfinningum og tek ekki ábyrgð á líðan annarra. Ég þarf líka oft að passa mig á því að kenna ekki öðrum um hvernig mér liður. Þegar ég sinni mínum eigin þörfum og passa upp á að gera hluti sem gefa mér gleði, þá fylli ég á hamingjubrunninn minn. Að halda  gleði- og hamingjubrunninum mínum fullum er eina leiðin fyrir mig að gefið öðrum gleði, því með tóman tank hef ég nákvæmlega ekkert að gefa!

Ég sýni sjálfri mér ást og virðingu með því að sleppa tökum á samviskubiti og sektarkennd – hvort sem það kemur frá hausaruslinu mínu eða fýlupúkaárásum annarra. Ég fyrirgef sjálfri mér, því ég hef alltaf reynt að gera það sem ég gat, með það sem ég hafði og kunni, á þeim tíma. Ef ég hefði vitað betur, þá hefði ég klárlega gert betur. Alveg satt - ég lofa! Ég reyni eftir fremsta megni að sýna sama umburðarlyndi gagnvart mínu hausarugli og  tilfinningadrasli og ég er tilbúin að sýna öðrum. Og ég gef mér leyfi að detta niður í skapi, sjálfstrausti og gleði án þess að pirrast út í sjálfa mig fyrir.    

En umfram allt sýni ég sjálfri mér ást og virðingu, af-því-bara og þarf enga sérstaka ástæðu til. Bara af því að ég er svo dásamlega skemmtilega mannleg og á það bara svo innilega skilið. Já, bara svona alveg eins og þú!

Hrefna Óskarsdóttir

Hrefna Óskarsdóttir

Fædd á því gæðaári 1975. Iðjuþjálfi, dáleiðslutæknir og nemi í geðheilbrigðisvísindum við Háskólann á Akureyri þessa dagana. Með óendanlegan áhuga á mannlegu eðli, sérstaklega því sem eykur vellíðan, hamingju og lífsgleði og því sem dregur úr hausarusli og tilfinningadrasli. Finnst fátt betra en að lesa, skrifa, hlusta á góða tónlist og eiga góða stund með fjölskyldu og vinum (en ekki endilega í þessari röð).

Meira