c

Pistlar:

28. júlí 2019 kl. 17:41

Hrefna Óskarsdóttir (hrefnaoskars.blog.is)

Frelsið maður, frelsið!

 

Erfiðasta tilfinning sem ég hef nokkurn tíma upplifað er einmanaleikinn. Að vera umvafin fólki en treysta einhvernvegin engum nægilega mikið til að sjá hvernig ég raunverulega er. Þú veist, bakvið samfélagslegu samþykktu grímuna. Því ekki vil ég að neinn sjái hvernig ég er sífellt að tapa í fullkomnunarkeppni samfélagsins.

Við berum okkur saman við rotnaðar staðalímyndir, við markaðsetningu fjölmiðla á mikilvægi fegurðar & útlits og samkeppni samfélagsmiðla varðandi duglegheit, heppni & hamingju... og eigum ekki séns! Það er alltaf er sætari, flottari, duglegri, heppnari og hamingjusamari.

Af því að við höldum stundum að staða, útlit og hegðun okkar nánustu endurspegli  álit annarra á okkur sjálfum, þá veljum við jafnan að vera í samvistum við þá sem láta okkur líta vel út. Til að vera gjaldgengur vinur, maki eða ættingi þarf maður alltaf að vera nógu eitthvað. Nógu fyndinn & skemmtilegur, nógu fallegur & flottur, nógu metnaðarfullur og ríkur og/eða nógu glaður & hamingusamur. Vandinn er bara sá að þegar maður keppist við að vera gjaldgengur þá þarf maður að passa að hleypa enguminn fyrir skelina því þar er öll óreiðan, allt vesenið & óöryggið og allur ófullkomnleikinn sem enginn má sjá.

En af því að mig langar svo mikið að tilheyra einhverjum, að tilheyra einhversstaðar og vera gjaldgeng, þá geri ég þetta líka. Set upp grímuna og tek þátt í ruglinu - vitandi að það muni kosta mig heiðarleika, heilindi, nánd og einlægni.

Það hafa þó komið tímabil þar sem mér finnst einfaldara og auðveldara halda fólki bara í hæfilegri fjarlægð til að þurfa ekki stöðugt að vera réttlæta, útskýra og aðlaga mig að kröfum annarra. Mér finnst nefnilega auðveldara að eiga lítil samskipti við fólk heldur en yfirborðskennd - eða samskipti þar sem fólk telur sig vita betur en ég hvað mér er fyrir bestu 

Ég hef verið í samskiptum við fólk sem gerði það af góðmennsku sinni að taka það að sér það verkefni að fullkomna mig. Setningin “...þú værir svo fullkomin/frábær/góð ef...” er eitur í bein fullkomnunarsinnans og algert nándar-morð. Valið stendur þá milli þess að láta undan þrýstingi einhvers sem vill móta mann (af því að ég hef svo mikla þörf fyrir nánd) eða að spyrna á móti til að fá að vera maður sjálfur (af því að ég hef líka svo mikla þörf fyrir frelsi). Það sem ég er að læra er að valið þarf ekki endilega að standa milli nándar eðafrelsis. Ég get valið bæði!

Það er fullkomnunaráráttan (mín eigin og annarra í minn garð) sem heftir frelsið mitt, gleðina og svo sannarlega góðu og næringarríku samskipti milli mín og annarra. Nándin þrífst nefnilega ekki á yfirborði fullkomnunarinnar. Hún liggur í dýptinni, í ófullkomneikanum. Nándinliggur í því að kynnast því hvernig manneskjan raunverulega er og frelsiðliggur í því að vera samþykktur fyrir það sem maður er. Ég veit ekki með þig en eitt mesta frelsi sem ég get ímyndað mér er að leyfa einhverjum að sjá óöryggið mitt, óreiðuna og óskynsemina og vita til þess að þeim þykisamt vænt um mig. Í mínum huga er það skilgreiningin á því að “vera nóg”.

Kröfur um óaðfinnanlegt og óhaggandi sjálfstraust, útlit og framkomu er krabbamein í samskiptum og má finna út um allt og allstaðar. Við viljum ekki þurfa að skammast okkar fyrir þá sem standa okkur næst, viljum ekki þurfa réttlæta hegðun þeirra, viljum ekki þurfa að hafa áhyggjur af þeim eða teljum þau einfaldlega bara geta gert svo miklu betur í lífinu. Þess vegna reynum við að betrumbæta þau, bara svonaaðeins! En ef það virkar ekki, má alltaf nota fýlu. Við erum nefnilega snillingar í að skilyrða væntumþykju og velvilja. Ef fólk gerir ekki eins og við viljum, er besta ráðið að draga úr samskiptum, gagnrýna, útiloka, hafna - af því að það virkar bara svo vel!

(En auðvitað gerum við þá sjálfsögðu kröfu að fólk taki okkur, virði okkurog elski okkureins og við erum).

Ef við viljum dýpri og innilegri samskipti og meiri nánd og innileika þá þurfum við að breyta einhverju. Líklega mun fyrr frjósa í Helvíti heldur en að við sjáum aðra breyta samskiptamynstri sínu upp úr þurru. Til að eitthvað breytist, þurfum við að vera breytingin sem við viljum sjá í heiminum.

Svo...

Í dag ætla ég að draga úr kröfum mínum á aðra og sjá það besta í þeim. Ég ætla að hafa í huga að hegðun annarra endurspeglar mig ekki á nokkurn hátt. Ég þarf því ekki að stjórna því hvað aðrir segja, gera eða hugsa. Ég get verið til staðar, ráðlagt eða leiðbeint ef til þess kemur en í dag ætla ég að muna að hegðun annarra er ekki á mína ábyrgð.

Í dag ætla ég því að njóta samvista við börnin mín, ættingja og vini og njóta þess sem þau eru en ekki hvernig þau ættu að vera - ef ég fengi að ráða!

Í dag ætla ég að leyfa mér að njóta þess að vera ófullkomin líka og hafa í huga að kröfur annarra til mín eru líklega kröfur sem þau gera sjálfs til síns - en geta í flestum tilfellum ekki staðið undir.

Í dag ætla ég að hafa í huga að skoðun annarra á mér er akkúrat bara það. Skoðun. Ekki staðreynd og ekki krafa sem ég verð að standa undir. Bara álit einhvers sem hann hefur rétt á að hafa. Og ég hef rétt á að hundsa.

Í dag ætla ég því að sætta mig við að ég get ekki gert öllum til hæfis, að ég mun sennilega valda einhverjum vonbrigðum ef ég ætla að fylgja eigin sannfæringu, hlú að mínum eigin þörfum og vera ég sjálf.

Í dag er ég frjáls til að njóta.

Hrefna Óskarsdóttir

Hrefna Óskarsdóttir

Fædd á því gæðaári 1975. Iðjuþjálfi, dáleiðslutæknir og nemi í geðheilbrigðisvísindum við Háskólann á Akureyri þessa dagana. Með óendanlegan áhuga á mannlegu eðli, sérstaklega því sem eykur vellíðan, hamingju og lífsgleði og því sem dregur úr hausarusli og tilfinningadrasli. Finnst fátt betra en að lesa, skrifa, hlusta á góða tónlist og eiga góða stund með fjölskyldu og vinum (en ekki endilega í þessari röð).

Meira