c

Pistlar:

25. janúar 2020 kl. 12:58

Hulda Björk Svansdóttir (huldabjorksvansdottir.blog.is)

Dagurinn sem breytti öllu

Einu sinni var ég bara svona ósköp venjuleg mamma, árið 2001 eignaðist ég yndislega tvíbura sem voru heilbrigð og hraust og héldu mér vel við efnið. Ég átti hús og mann og meira að segja hund á tímabili. Við lifðum bara nokkuð eðlilegu lífi, reyndum að ferðast með krakkana eins og við gátum, skapa minningar og hafa gaman. Árið 2011 eignuðumst við svo yngsta drenginn okkar, Ægi Þór. Mér fannst fjölskyldan okkar alveg fullkomnuð þegar hann bættist í hópinn og lífið brosti við okkur. Ég naut fyrstu fjögurra áranna með litla gullmolanum okkar áhyggulaus en svo fór mig að gruna að eitthvað væri ekki eins og það ætti að vera hjá elsku drengum minum. Við fórum með hann í allskonar rannsóknir og biðum svo algerlega grunlaus um hvað væri í vændum, ég hélt að hann væri kannski með barnagigt eða eitthvað svoleiðis. Aldrei grunaði mig hvað í raun og veru hrjáði litla kútinn minn enda engin ástæða til svo sem. Símatalið sem breytti lífi mínu kom þjóðhátíðardaginn 2016 og sá dagur rennur mér seint úr minni. Við hjónin erum á tjaldstæðinu í Stykkishólmi að ganga frá eftir að hafa verið í útilegu í nokkra daga með Ægi Þór þá rúmlega 4 ára gömlum. Farsími mannsins minns hringir, það er taugalæknirinn sem okkur var bent á að fara til. Hann er með niðurstöður úr blóðprufunum hans Ægis. Hann vill fá okkur í viðtal til Reykjavíkur en maðurinn minn er þrjóskur og vill fá að vita strax hvað er að.  Hann ýtir á lækninn þar til hann segir hvað það var sem kom út úr blóðprufunni. Duchenne heyri ég, ég hef aldrei heyrt það áður hugsa ég meðan ég hlusta á manninn minn spyrja einhverja spurninga og fá bókað viðtal hjá lækninum. Ég man hvað ég var reið og pirruð við hann, mig langar ekkker að fá einhverjar fréttir um hvað erDSC00440 að Ægi einhvers staðar úti á víðavangi, á einhverju tjaldstæði. Ég vil sitja á skrifstofunni hjá lækninum, þá hlýt ég að vera öruggari einhvern veginn finnst mér. Við þurfum að fara að drífa okkur að ganga frá því klukkan er orðin margt og við ætluðum að vera löngu komin af stað. Maðurinn minn kveður lækninn, við klárum að ganga frá og keyrum af stað. Ég spyr manninn minn eitthvað út í hvað þetta Duchenne er en honum verður fátt um svör.  Ég gríp símann minn og fer í sakleysi mínu að leita upplýsinga á netinu. Það hefði ég betur látið ógert vegna þess að því fleiri hlekki sem ég opna verður lesningin skelfilegri. Þennan dag breyttist ég úr venjulegri mömmu í móður langveiks barns með sjaldgæfan sjúkdóm.

Hulda Björk Svansdóttir

Hulda Björk Svansdóttir

Hulda heiti ég og er tilfinningabúnt sem elskar að syngja, dansa og dunda við það að semja ljóð líka annað slagið. Ég á eiginmann til 16 ára og saman eigum við yndislega tvíbura sem eru 18 ára og 8 ára dreng sem er hetjan mín og aðal ástæða þess að ég skrifa hér. Hann þjáist af alvarlegum vöðvarýrnunarsjúkdómi sem kallast Duchenne. Mig langar að vekja vitund um hvernig það er að eiga langveikt barn og lifa með því. Ég hef brennandi ástríðu fyrir því að gleðja aðra, fá fólk til að brosa og láta gott af mér leiða.

Meira