c

Pistlar:

2. apríl 2020 kl. 10:04

Hulda Björk Svansdóttir (huldabjorksvansdottir.blog.is)

Fólk er fallegt

Það er ótrúlegt að fylgjast með samfélaginu núna á þessum skrýtnu tímum. Það er einstakt að sjá hvernig allir eru að reyna að hjálpa öðrum og gefa af sér. Listamenn eru að syngja fyrir þjóðina til að gleðja, líkamsræktaþjálfarar eru að streyma æfingum frítt svo fólk geti æft sig heima, Ævar vísindamaður er að lesa upp úr bókunum sínum börnum til ómældrar gleði og margt fleira er verið að gera, það eru allir að gera eitthvað til að hjálpa samfélaginu. Þetta er svo fallegt allt saman og setur gleði í hjartað á tíma sem margir eiga erfitt. Svona góðmennska er einmitt það sem ég upplifði eftir að Ægir greindist, þessi góðmennska sem fólk sýnir af sér er alveg hreint ótrúleg. Það vildu allir hjálpa Ægi og gera eitthvað fyrir hann. Ég get nefnt sem dæmi að þegar við fórum fyrst að berjast fyrir lyfinu hans þá var stofnaður styrktarsjóður til að safna fyrir Ægi og fólk er enn að leggja inn á hann meira að segja. Ævar vísindamaður hafði samband við Ægi og tók upp á að senda honum reglulega eintök af bókunum sínum fallega árituðum. Hörður Björgvin landsliðsmaður í fótbolta fékk allt landsliðið til að árita landsliðstreyju og sendi Ægi. Þessir tveir hafa orðið góðvinir Ægis og það er ómetanlegt fyrir dreng eins og Ægi sem er stundum félagslega einangraður vegna sjúkdóms síns. Þeir hafa báðir gert svo mikið fyrir Ægi til að styðja hann og gleðja að maður á eiginlega engin orð til að þakka slíkar góðgjörðir. Ég er ekki viss um að Ævar eða Hörður átti sig hreinlega á hvað það gefur Ægi mikið að eiga þá að sem vini. Ég gæti talið upp svo miklu fleiri sem hafa sýnt okkur góðvild. Allt frá krökkum hér á Höfn sem hafa haldið tombólur til að styrkja Ægi, frá fyrirtækjum eins og Leturprent sem gáfu vinnuna sína til að prenta jólakort sem Ævar lét gera til styrktar Ægis, Íþróttafélagið Sindri hér á Höfn hefur stutt Ægi með ráðum og dáð og hélt allsherjar styrktardag fyrir hann meðal annars sem er mér ógleymanlegur, Geir Ólafs hélt æðislega tónleika þar sem margir frábærir listamenn gáfu sína vinnu og styrktu þannig Ægi og ég gæti haldið áfram að telja upp endalaust. Allskonar fólk hefur sett sig í samband við mig persónulega til að benda mér á eitthvað sem gæti hjálpað Ægi á einhvern hátt. Maður verður svo auðmjúkur og þakklátur að upplifa svona að maður veit eiginlega ekki hvernig á að taka á móti þessu öllu. Að kynnast slíkri góðmennsku frá einhverjum sem maður þekkir ekkert er dásamlegt og eiginlega ólýsanlegt. Ég hef líka eignast marga yndislega nýja vini á þessu ferðalagi mínu, kynnst einstöku óeigingjörnu fólki. Þess vegna tengi ég svo mikið við það sem er að gerast í samfélaginu núna. Ég hef séð á mínu ferðalagi að þrátt fyrir að eitthvað hræðilegt gerist í lífi manns þá getur einmitt sá atburður líka fært manni eitthvað svo fallegt og gott. Hræðilegir atburðir geta meira að segja bætt líf manns á einhvern hátt svo ótrúlegt sem það hljómar því maður þroskast svo mikið og fær nýja sýn á lífið. Það er alltaf eitthvað gott í öllu. Þannig er þetta einmitt núna held ég, það eru hræðilegir hlutir að gerast í heiminum en ég er sannfærð um að svo margt fallegt og gott muni koma út frá þessum erfiðleikum, við munum öll þroskast og læra eitthvað af þessu öllu saman og verða betri fyrir vikið. Það hef ég að minnsta kosti upplifað í kringum hann Ægi minn og þá erfiðleika sem við höfum gengið í gegn um. Ég hef kynnst því sjálf að fólk er fallegt. 

Ef þér lífið erfitt reynist  

þrautir að þér steðja

Mundu að vinur víða leynist

Með góðmennsku mun þig gleðja   

Hulda Björk ´20

Ást og kærleikur til ykkar

20180609_163142

Hulda Björk Svansdóttir

Hulda Björk Svansdóttir

Hulda heiti ég og er tilfinningabúnt sem elskar að syngja, dansa og dunda við það að semja ljóð líka annað slagið. Ég á eiginmann til 16 ára og saman eigum við yndislega tvíbura sem eru 18 ára og 8 ára dreng sem er hetjan mín og aðal ástæða þess að ég skrifa hér. Hann þjáist af alvarlegum vöðvarýrnunarsjúkdómi sem kallast Duchenne. Mig langar að vekja vitund um hvernig það er að eiga langveikt barn og lifa með því. Ég hef brennandi ástríðu fyrir því að gleðja aðra, fá fólk til að brosa og láta gott af mér leiða.

Meira