c

Pistlar:

9. júní 2022 kl. 8:58

Hulda Björk Svansdóttir (huldabjorksvansdottir.blog.is)

Sjálfsmildi hér kem ég

Það er full vinna að vera í svona vitundarvakningu eins og ég hef valið að gera en það gefur mér svo mikið. Það gefur mér kraft og tilgang sem er svo gott. Ég vil því gjarnan halda þessari vinnu áfram en stundum þarf maður að sýna sér sjálfsmildi, taka sér frí og hlaða batteríin. Ég er alltaf að tala um hversu mikilvægt það er fyrir foreldra langveikra barna og bara alla auðvitað að sinna sjálfum sér eins og þeir geta. Nú ætla ég því að hlusta á sjálfa mig og taka mér smá frí. Ég ætla að leyfa mér að vera í fríi í sumar og koma svo fersk til baka í haust. 

Þessi ákvörðun leggst vel í mig því ég veit að ég er búin að vera dugleg undanfarin ár og ég veit hversu gott þetta verður fyrir mig. Að sama skapi veit ég að það verður pínu erfitt fyrir mig að sleppa tökunum því þegar maður er komin með eitthvað svona fast eins og þessa pistla vill maður ekki missa dampinn. Þegar maður finnur að þetta er að skila sér í betri vitund og fræðslu þá er svo mikill hvati að keyra á þetta. Maður má samt ekki vera eitthvað hræddur við að öll vinnan glatist þó maður skreppi aðeins frá. Ef maður keyrir sig í þrot með því að halda endalaust áfram og hvíla sig aldrei þá er þessu líka sjálfhætt. Það eru líka eflaust færri sem lesa þessa pistla mína á sumrin því það eru allir á ferð og flugi sem er bara yndislegt.

Jafnvel þó ég finni ekki beint fyrir þreytu þá ætla ég samt að leyfa mér að taka þennan tíma fyrir mig því eins og ég sagði þá veit ég hversu gott það mun gera mér. Er ekki ágætt að vera bara á undan vandamálinu? Við íslendingar erum ekki allt of góð í því held ég vegna þess að við keyrum svolítið mikið áfram. Ég hugsa samt að við Ægir munum dansa áfram í sumar því það gefur okkur einfaldlega svo mikla gleði og eru bestu stundirnar okkar. Það er eitthvað sem ég mun seint taka mér frí frá því meðan hann vill dansa við mig þá mun ég dansa við hann. Ég kveð ykkur í bili og óska ykkur góðs sumars með ævintýrum fyrir allan peninginn. Ég ætla að lifa og njóta með mínu fólki og hlakka svo til að sjá ykkur aftur í haust. Sjálfsmildi hér kem ég

Ást og kærleikur til ykkar

Hulda Björk Svansdóttir

Hulda Björk Svansdóttir

Hulda heiti ég og er tilfinningabúnt sem elskar að syngja, dansa og dunda við það að semja ljóð líka annað slagið. Ég á eiginmann til 16 ára og saman eigum við yndislega tvíbura sem eru 18 ára og 8 ára dreng sem er hetjan mín og aðal ástæða þess að ég skrifa hér. Hann þjáist af alvarlegum vöðvarýrnunarsjúkdómi sem kallast Duchenne. Mig langar að vekja vitund um hvernig það er að eiga langveikt barn og lifa með því. Ég hef brennandi ástríðu fyrir því að gleðja aðra, fá fólk til að brosa og láta gott af mér leiða.

Meira