c

Pistlar:

4. janúar 2010 kl. 12:29

Jóna Á. Gísladóttir (jonaa.blog.is)

Enn af veðurspekúlasjónum

Sá Einhverfi heimtar loforð um rigningu, sól, regnboga, kulda...  bara hvað sem er annað en snjó og frost. Hann tengir ekki kulda við frost. Í hans huga er frost hvít héla á jörð.

Og mamman lofar upp í ermina á sér. Alveg upp að handarkrika. Miskunnarlaust og án þess að kunna að skammast sín.

Þannig var lofað sól, rigningu og regnboga fyrir síðasta miðvikudag. Það gekk auðvitað ekki eftir. En nú er svo komið að í stað þess að stráksi æsi sig yfir sviknum loforðum, þá færir hann bara óskina um nokkra daga. Loforðið var framlengt til sunnudags og sólin skilaði sér. Lítið var um rigningu og regnboga.

Sá Einhverfi sat hugsi inn í stofu í gær. Á stuttbuxum og stuttermabol eins og alltaf, með byssubelti á mjöðmunum. Ég veitti þessu enga sérstaka athygli, enda ekkert nýtt að hann sitji þögull í eigin heimi í góðan tíma í senn.

En í þetta skipti ákvað hann að deila hugsunum sínum með múttu; Fyrst kemur janúar, svo febrúar, svo mars, svo apríl, svo vorið.

Hann brosti hikandi og horfði einarðlega í augun á mér. Beið milli vonar og ótta eftir staðfestingu.

Það er alveg rétt Ian fullvissaði ég hann um og hrósaði honum fyrir frammistöðuna. Ég hugsaði hlýlega til kennarana í Öskjuhlíðarskóla. Þær mætu konur hafa verið að vinna með árstíðarnar í allan vetur vegna snjófælni drengsins og allt í einu ákvað hann að láta vita að hann skildi þetta svo sem. Að hverri árstíð fylgir visst veðurfar. En það er ekki þar með sagt að hann gefi upp vonina. Engin regla er án undantekninga.

Nú hef ég lofað sól, rigningu og regnboga á miðvikudag. Samkvæmt mbl á að rigna. Ef þeir reynast sannspáir þá hef ég staðið við loforð um sól og rigningu þó á sitthvorum deginum verði.

Nú er bara spurning hvenær regnboginn lætur sjá sig.

Jóna Á. Gísladóttir

Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Meira