c

Pistlar:

11. janúar 2010 kl. 12:58

Jóna Á. Gísladóttir (jonaa.blog.is)

Af afmælissöng, afmæliskertum, afmælispökkum og afrakstur löngu liðins keisara

Gelgjan mín er 13 ára í dag og því orðinn unglingur. Eða táningur.

Á þessu heimili er vaninn að vekja viðkomandi afmælisbarn með hinum klassíska afmælissöng, logandi kerti sem er stungið í kökusneið, múffu eða annað tilfallandi og að sjálfsögðu afmælispakka.

Á vikuplan Þess Einhverfa, sem hann fékk afhent á laugardaginn, hafði ég skrifað í mánudagsreitinn, að systir hans ætti afmæli og við ætluðum að vekja hana með afmælissöng. Hann kommenteraði nú ekkert á þetta plan. Hvorki mótmælti því né samþykkti.

Fyrir þá sem ekki vita þá er Þeim Einhverfa meinilla við áðurnefndan söng. Hvort sem verið er að syngja fyrir hann sjálfan eða aðra. Hundinum á heimilinu, Vidda Vitleysing, er jafn illa við þessa laglínu. Við slíkar aðstæður grúfir Sá Einhverfi andlitið í höndum sér eða tekur fyrir eyrun, en Viddi geltir hástöfum.

Í morgun vorum Sá Einhverfi og ég að sjálfsögðu fyrst á fætur og stráksi gekk beint að vikuplaninu þar sem það hangir á ísskápnum og las skilaboðin vandlega. Ég vissi að hann hafði áhyggjur af þessu grófa og ósvífna uppbroti á daglegum venjum hans og morgunrútínu.

Ég virti hann fyrir mér á meðan hann las, en sagði svo: Ian ætlar þú að syngja fyrir Önnu Mae? (það má alltaf lifa í voninni, ekki satt?)

NEI, sagði hann skýrt, ákveðið og hálfum tóni hærra en eðlilegt getur talist. Svo skundaði hann fram í stofu til að kveikja á Emil í Kattholti því enginn virkur morgunn getur liðið án þess.

Mér datt ekki til hugar að draga krakkann á eyrunum upp á loft til að hann gæti æpt í mótmælaskyni við rúmstokk afmælisbarnsins.

Ég græjaði hann því bara eins og alla hina dagana, kvaddi og horfði á eftir honum upp í skólabílinn.

Að því loknu útbjó ég lítinn morgunmat, greip afmælispakka undir hendina og fór upp til að draga vankaðan Breta fram úr rúminu, ásamt Unga manninum (fyrrv. Ungling) sem ákallaði Guð á meðan hann barðist við að koma sér á lappir.

það var ægifagur söngur sem barst út á götu þegar við ruddumst inn í herbergi hjá nývígðri Táningsstúlkunni. Hún vaknaði með bros á vör og kippti sér ekkert við hundinn sem stóð geltandi ofan á sænginni hennar.

Fallega andlitið ljómaði þegar hún tók við morgunmatnum og blés á kertið. Að þessu sinni var afmæliskerti dagsins stungið í ristaða brauðsneið með osti.

Þegar þessi orð eru skrifuð eru akkúrat 13 ár síðan að reiður læknir skipaði mænudeyfingu og glæfraakstur upp á skurðstofu. NÚNA!

Ég get ekki kvartað þegar ég horfi á afraksturinn af þeim keisaraskurði. Sannkölluð prinsessa hún dóttir mín, í öllum jákvæðum merkingum þess orðs.

Jóna Á. Gísladóttir

Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Meira