c

Pistlar:

17. janúar 2008 kl. 17:15

Jóna Á. Gísladóttir (jonaa.blog.is)

Andagiftin mín hún Astrid

 

Ég er ekki að tala um Astrid Lindgren í þetta skiptið heldur hana Astrid Sigurðardóttir. Þessi Astrid á reyndar ættir að rekja til Skandinavíu en ekki til Sverige heldur Norge. En það er algjört aukaatriði.

Þessi  Astrid varð kveikjan að því að ég ákvað að tími væri til kominn að ég færi að koma frá mér orðum á blað.

Og hér kemur sagan:

Astrid hét lítil stúlka sem hafði gaman af að teikna.  Ekkert merkilegt við það svo sem. En með tímanum fór hana að dreyma um að mála myndir. Málverk. En það var ekki fyrr en hún varð fullorðin sem hún ákvað að gera eitthvað til láta draumana sína rætast.

Hún fór og keypti sér málningu og hóf að mála. Ljótar myndir.

Og þá hugsaði hún sem svo: ég get haldið áfram að mála ljótar myndir mér til gamans en það er ekki það sem ég raunverulega vil.

Og því fór hún í Myndlistarskólann í Reykjavík í kvöldnám árið 2003, þá orðin 37 ára.

Sumarið 2006 bætti hún um betur og fór á námskeið til Ítalíu. Var þar undir handleiðslu hins breska Robin Holtom.

Við Astrid rekumst á hvor aðra öðru hverju. Unnum saman á DV í gamla daga og eigum sameiginlega vinkonu og fyrrverandi samstarfskonu þaðan.  Fríðu Brussubínu.

Í einu af hinum bráðskemmtilegu partýum hjá Fríðu & Co hittumst við Astrid og ég eyddi næstum heilu kvöldi í að horfa á hana með stjörnur í augunum. Og þó að Astrid sé ofsalega hugguleg kona var það ekki ástæðan. Heldur rakti ég úr henni garnirnar og öfundaðist út í skapfestuna. Markvissa stefnuna að settu marki.

Og það var þar og þá sem ég ákvað að gera eitthvað í mínum málum. Kanna hvort ég kæmi ekki orðum  á blað. Hvort ég gæti kallað fram frásagnagáfuna, sem ég taldi að ég ætti til, og fengið aðra til að njóta.

Síðan í partýinu þarna um kvöldið hefur Astrid farið tvær ferðir í viðbót til Ítalíu í frekari myndlistarnám.  Og á þessu ferli hefur hún þróast og þroskast sem listamaður. Fundið ástríðuna sína í skugga og birtu. Og undir vatni. Og það sem meira er; hún er tilbúin til að leyfa okkur hinum að njóta afraksturins.

Á Hilton Reykjavík Nordica kl. 14, næsta laugardag, opnar hún sína fyrstu sýningu. Í undirdjúpum.

Sýningin stendur yfir frá 19.-20. janúar kl. 13-17. Í undirjúpum... Heillandi nafn. Og á boðskortinu sem kom inn um lúguna í gær blasir við mér mynd eftir Astrid af gjánni Silfra í Þingvallavatni. Og ég get ekki beðið eftir að sjá meira. Ég er spennt eins og Sá Einhverfi á jólum.

Næsta mál á dagskrá hjá Astrid er að læra köfun svo hún geti séð undirdjúp með eigin augum.

Orðatiltækið Allt er fertugum fært er ekkert kjaftæði.

Jóna Á. Gísladóttir

Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Meira