c

Pistlar:

31. ágúst 2008 kl. 22:25

Jóna Á. Gísladóttir (jonaa.blog.is)

Þangað sem lífið leiðir okkur

Í fyrra fór ég á námskeið sem ber nafið Skapandi skrif. Það er Þorvaldur Þorsteinsson, rithöfundur og listamaður sem er með þessi námskeið. Ég fékk ótrúlega mikið út úr þessum 4 kvöldum og var ákveðin í að fara á framhaldsnámskeið seinna meir.

Ég sá það svo auglýst um daginn og gat ekki hætt að hugsa um það. En ég gat heldur ekki gleymt peningunum sem ég á ekki til. En á föstudaginn hugsaði ég: what the f..., maður lifir víst bara einu sinni og ákvað að skella mér. Og ekki slæmt, kostar 40.000 en ég fæ 20.000 frá VR.

Ég byrja annað kvöld og hlakka þessi lifandi ósköp til.

Í tilefni af þessu kemur hér smásaga sem varð til í þeirri miklu andagift sem ég fylltist af í návist skáldsins . Eg birti hana reyndar í fyrra, svo einhver ykkar hafa lesið hana. Hún er nú samt að einhverju leyti breytt og bætt. 

Þangað sem lífið leiðir okkur

Snjórinn er kaldur og harður viðkomu. Berir fæturnir eru orðnir rauðir og þrútnir af kuldanum og hún er hætt að finna fyrir þeim.

Samt heldur hún sínu striki. Hún veit varla hvað það ser sem rekur hana áfram. Aðeins að þessi draumur kallar fram svo sterk viðbrögð að hún má engan tíma missa.

 Á meðan hún bröltir yfir kalt hjarið streyma svipmyndir frá nóttunni fram í höfuð hennar. Myndir frá Draumnum. Eins og leiftursýnir birtist hvert myndbrotið á fætur öðru. Sum svo björt að hún lokar augunum andartak.

Ískur. Undarlegir brestir. Rauðleitur hlutur flýgur í gegnum loftið og ber við rökkvaðan himinn. Skaðræðisóp. Samanhnipruð mannvera. Blóð. Sársauki. Grátur. Er þetta karlmaður að gráta?

Hún hristir höfuðið eins og til að losa sig við þessar sýnir og tárin byrja að renna niður kinnarnar á henni. En hún finnur það ekki. Skynjar ekkert nema þennan mikla ákafa að halda áfram.

Einhver er í vandræðum... lífshættu.. hún verður að finna út hver það er. Koma til hjálpar. Hún er næsta viss að það er einhver henni nákominn. En þetta er einhver vitleysa. Hver ætti svo sem að vera kominn hingað uppeftir.

Hún er farin að tala upphátt við sjálfa sig en það er eins og orðin komi frá einhverjum ókunnugum. Hún er orðin hrædd, en getur ekki stoppað. Einhver ósýnilegur kraftur neyðir hana áfram í ísköldu næturloftinu.

Hún hefur alltaf verið berdreymin. Eiginleiki sem hún tekur ekki fagnandi. Hann veldur henni oft sársauka og vanlíðan.Stjórnar lífi hennar á margan hátt. Eins og núna. Hvaða manneskja með fullu viti myndi rjúka út um hávetur, íklædd engu nema ermalausum kjól? hugsar hún með sjálfri sér. Berfætt? Til að leita einhvers sem sennilega er draumur. Draumur og ekkert annað.

Hún og Kristján höfðu ákveðið að fara hingað upp eftir, í sumarbústað foreldra hans. Fengu bústaðinn lánaðan yfir helgina. Hann stendur afskekkt og þau ætluðu að njóta þess að vera saman, bara tvö ein áður en prófin byrjuðu og myndu aðskilja þau um tíma.

Hún heyrir Kristján kalla á sig:

RAKEL RAKEL 

Undrunin og skelfingin í rödd hans er eins og bergmál af hennar eiginn ótta. En hún getur ekki svarað honum. Þó hún þrái ekkert meira en að finna heita og sterka arma hans umlykja sig. En hún verður að halda áfram. Áfram.

Í nokkra stund rýfur ekkert kyrrðina, fyrir utan marrið í snjónum undir fótum þeirra beggja. Rakel veit að Kristján nálgast og bara tímaspursmál hvenær hann nær henni. Hún heyrir másandi og öran andardrátt hans fyrir aftan sig. Hann má ekki ná til hennar. Hún veit að hann mun stoppa hana og hún verður að ljúka þessu. Verður að fá svörin.

Hún gerir sér ekki grein fyrir því hversu langt þau hafa farið fyrr en hún sér glitta í veginn fyrir ofan bústaðinn. Það er stjörnubjart og tunglið sendir birtu sína niður til hennar.

RAKE HVAÐ ERTU AÐ GERA.. HVERT ERTU AÐ FARA

Kristján er orðinn skelfingu lostinn. Heldur líklega að ég hafi misst vitið, hugsar Rakel og flissar móðursýkislega með sjálfri sér. Kannski er hún búin að missa vitið. Hún er ekki viss. Ekkert virðist raunverulegt á þessari stundu.

En hún getur ekki hugsað um það núna. Hvorki um geðheilsu sína né um ótta Kristjáns. Hún mun útskýra þetta brjálæði fyrir honum seinna. Ekki núna. Það eru aðeins örfá skref eftir upp á veg og hún finnur að ef hún aðeins nær þangað þá verður allt eins og það á að vera.

Já, segir hún stundarhátt út í nóttina. Upp á veginum fæ ég öll svörin. Þá getum við snúið við og allt verður eins og það á að vera.

Hún klifrar upp á veginn, aðframkomin af þreytu og örvinglan. Henni er ískalt og óskar þess að hún hefði að minnsta kosti vettlinga. Fingurnir eru dofnir og hún kreppir þá og réttir á víxl til að fá blóðið á hreyfingu. Eitt andartak stansar hún til að líta við og athuga hversu langt Kristján á eftir.

Ljósgeisli rýfur rökkrið og Rakel blindast af birtunni. Ósjálfrátt ber hún hendur upp að augunum til að verjast áleitnu ljósinu. Heyrir Kristján öskra nafnið hennar um leið og hávært ýskur í bremsum sker í eyrun. Brestirnir í brotnandi beinum eru óraunverulegir finnst Rakel. Hljóð sem hún hefur aldrei heyrt áður en þekkir strax. Líkami hennar í rauða kjólnum flýgur í gegnum loftið og ber við himininn. Sýnin er tilkomumikil í skini mánans.

Einhver öskrar af öllum lífs og sálar kröftum. Hún skynjar sársauka. Hann er ekki líkamlegur. Og hann er ekki hennar.

Á meðan líf hennar fjarar út heyrir hún grát. Er þetta karlmaður að gráta?

Jóna Á. Gísladóttir

Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Meira