c

Pistlar:

28. febrúar 2009 kl. 19:57

Jóna Á. Gísladóttir (jonaa.blog.is)

Hvaðan kemur fýlan

Ég fór í Kolaportið í dag og keypti mér hvít stígvél fyrir 500 kall. Þess utan græddi ég skó og tösku sem Helgu hálfsystur vantaði að losna við.  Guð blessi hana Helgu hálfsystur. Svo keypti ég mér hallærisleg gleraugu í Tiger. Lillablá með steinum. Þurfti að skerpa sjónina fyrir saumaskapinn. Það má eiginlega segja að saumaskapurinn hafi átt hug minn allan í þunglyndiskastinu undanfarið. Enda hefur skotgengið með myndina sem ég er að sauma.

Nú hef ég kveikt á 9 kertum í stofunni og borðstofunni. Kveikt er á lömpum í öllum hornum en að öðru leyti eru ljósin slökkt. Gelgjan er hjá Viðhenginu, Unglingurinn hangir uppi í herberginu sínu, Bretinn lagði sig.. er eitthvað slappur, og Sá Einhverfi er í sínu herbergi að stúdera hulstur af DVD myndum.

Ég er því ein með sjálfri mér, sofandi hundi og blogginu sem ég hef heimsótt ansi takmarkað síðustu vikur.

Það er huggulegt og lágstemt í kringum mig, þó að Sá Einhverfi hafi komið hlaupandi niður stigann rétt áðan með hávaða og látum. ÞEGIÐU, kallaði hann í sífellu. Ég veit að hann er ekki að tala við mig og nenni ekki að ávíta hann.

Uppþvottavélin suðar, mér á vinstri hönd og hundurinn hrýtur lágt í antiksófanum hennar ömmu, hér hægra megin við mig. 

Sem sagt huggulegt, rólegt og akkúrat eins og laugardagskvöld eiga að vera. Það eina sem brýtur upp stemninguna er þessi skítafýla sem leggur fyrir vit mér. Ég þarf virkilega að fara og finna út hvort þetta komi frá hesthúsahverfinu í Víðidal, eða hvort einu af heimilisdýrunum hafi orðið brátt í brók, hér í einhverju horninu.

Að því loknu ætla ég að steikja hamborgara ofan í þá fjölskyldumeðlimi sem hafa áhuga.

Jóna Á. Gísladóttir

Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Meira