c

Pistlar:

12. mars 2009 kl. 18:44

Jóna Á. Gísladóttir (jonaa.blog.is)

Hárið á hausnum á okkur

bad-hair-day-2

Í gegnum árin hefur mig oft langað að ganga berserksgang eftir að hafa eytt stund á hinum ýmsu hárgreiðslustofum... setið fyrir framan spegil og fylgst með stórslysi í uppsiglingu. 

Ég hef samt aldrei látið það eftir mér.

Ég verð fjörutíu og eins árs á þessu ári og ég held að það séu ekki nema í mesta lagi tvö ár síðan þessi tilfinning kom yfir mig í síðasta sinn.

Hún byrjar sem kitlandi pirringur í maganum, færist upp eftir líkamanum. Orsakar stífar axlir, herping við munnvikin og stjörnur fyrir augunum.

Allt vegna áreynslu við að halda aftur að lönguninni til að stappa niður fótum, öskra hátt og hömlulaust, bíta sökudólginn, fleygja sér í gólfið og berja gólfefnið með krepptum hnefum, sparka með bífunum út í loftið og gráta fögrum tárum. Og hér erum við ekki að tala um uppúrkreist krókódílatár heldur alvöru vatnsflaum sem kemur beint frá brostnu hjarta.

Það breytir ekki neinu að í flestum... ef ekki öllum... þessum tilvikum, hef ég getað sjálfri mér um kennt. Það hefur verið ég sem ákveð að ''reyna eitthvað nýtt'', ekki verið ánægð með afraksturinn og eigin hugmynd og þá er svo þægilegt að grenja: ''klipparinn misskildi mig''.

Það er ekki ofsögum sagt að hárið skipti okkur konur máli.  Við veljum okkur hárgreiðslu eftir því í hvernig skapi við erum. Eftir því hvernig við viljum koma fyrir. Uppsett fyrir virðuleikann, sléttað við dragtina, krullað á tálkvendinu.

En auðvitað eru líka til karlmenn sem leggja mikið upp úr hárinu á sér. Við erum svo sem ekkert einar um þetta.

bad_hair

Jóna Á. Gísladóttir

Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Meira