c

Pistlar:

15. apríl 2009 kl. 22:40

Jóna Á. Gísladóttir (jonaa.blog.is)

Hvað er líkt með lóunni og trampólíni?

Í hugum okkar flestra er lóan vorboðinn ljúfi. ''Þeir segja að lóan hafi sést fyrir austan...'' Fréttir eins og þessar þýða bara eitt: vorið er á næsta leiti.

Og við tökum eftir því þegar við heyrum í lóunni í fyrsta skipti á árinu. Dirrindí og allt það.

Sá Einhverfi kærir sig kollóttan um þessi mál þó að vorið og sumarið skipti fáa meira máli en hann.

Undanfarna mánuði hef ég öðru hverju hrokkið upp með andfælum eldsnemma á morgnana við öskur og angistarvein eins og: ''Neeeeeeiiiiiii Ekki snjóóóóór'' eða ''neeeeeeeeeeeiii ekki frooooooost''. Í verstu köstunum er grátið fögrum tárum og stráksi er óhuggandi.

Stundum hefur þó dugað: IAN ÞAÐ ER EKKI SNJÓR ÚTI ÞAÐ ER RIGNING. Svo krossa ég mig í bak og fyrir og iðrast lyganna. En það er þó skárra en að maður tapi bæði heyrn, geðheilsu og svefni.

Í gærmorgun æddi drengurinn skyndilega út í garð og stappaði eins og óður maður á afmörkuðum blettum á grasinu. Ég stóð við gluggann, hristi höfuðið og velti fyrir mér hvað hefði hlaupið í rassgatið á honum núna.

Sá svo að blettirnir sem hann hoppaði ofan á voru ljósari en önnur svæði á túninu og skyldi þá að hann hélt að hann væri að misþyrma frostbitnu grasi. Reyndar var þó önnur því það var milt og hlýtt í veðri. Aðeins grasið að koma grámyglulegt undan vetrinum.

Þegar hann hafði skeytt skapi sínu á saklausum gróðri og sneri aftur inn, sagði ég við hann að ef veðrið héldist svona gott, þá skyldum við fá pabba til að setja upp trampólínið um helgina.

Þá ljómaði drengurinn eins og sólin sjálf og það rann upp fyrir mér ljós; Trampólínið er lóan hans Ians. Og dirrindíið hans eru gormar sem syngja: skvík-skvík-skvík

Jóna Á. Gísladóttir

Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Meira