c

Pistlar:

3. júní 2009 kl. 18:12

Jóna Á. Gísladóttir (jonaa.blog.is)

Vasaklútar í brjóstastærðum

Sá Einhverfi röltir nú í hringi úti á trampólíninu og öskrar og gólar út í loftið til að fá útrás fyrir reiðina. Öðru hvoru heyrist: ''HEIMSKA MAMMA'' og því er greinilegt að hverjum illskan beinist. Ekki að ég hafi verið í neinum vafa um það fyrir.

Mér varð það á í dag, að vera komin heim á undan honum, sem er ekki vinsælt. Oft á tíðum brestur hann í sáran grát þegar hann horfist í augu við smettið á móður sinni við heimkomu. Ég viðurkenni fúslega að ég hef litla þolinmæði gagnvart þessum tiltekna dynti í barninu. Vil hann helst sem fjærst mér þegar hann er í þessum ham.

En það er akkúrat á þessum stundum sem hann kýs að vera gjörsamlega límdur við mig. Tekur utan um mig og krækir höndunum fyrir aftan bak, svo ég get mig varla hreyft. Svo nuddar hann andlitinu í bolinn minn/skyrtuna/jakkann... með öllum þeim líkamsvessum sem spýtast fram við ákafan grát. Ohh ég get alveg tapað mér.

Ég skipaði honum að sleppa mér og hann linaði aðeins takið. Rétt svo þannig að nú var hann í beinni sjónlínu við hægra brjóstið á mér. Hann virtist sjá eitthvað athugavert svo ég fylgdi augnaráði hans og sá að ég skartaði aukabrjósti, sem mótaði fyrir í gegnum bolinn.

Kannist þið við þetta dömur? Þetta aukabrjóst sem myndast þegar brjóstahaldarinn er of lítill eða of stór eða of víður eða of þröngur... veit ekki alveg hvað er vandamálið þó ég viti að ég þurfi að endurnýja BH lagerinn minn. 

Sá Einhverfi klappaði létt á þessa aukabungu eins og til að reyna að fjarlægja hana. Það tókst ekki og hann gerði aðra tilraun. Þá skellti ég upp úr þó að mig hefði andartaki áður langað til að gefa hann á tombólu.

En stráksi sá ekki spaugilegu hliðina á aukabrjóstum frekar en öðrum brjóstum og eyðir nú tíma á trampólíninu í eigin fúla félagsskap.

Hvert fer maður svo til að fá almennilega brjóstahaldara?

Jóna Á. Gísladóttir

Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Meira