c

Pistlar:

9. júní 2009 kl. 22:59

Jóna Á. Gísladóttir (jonaa.blog.is)

Gelgjan, Tannálfurinn og Sá Einhverfi

Gelgjan fékk afskaplega fallegt silfurskrín í skírnargjöf á sínum tíma. Það er kringlótt, örsmátt og fóðrað að innan með kóngabláu filt-efni. Á lokinu situr undursmár, lítill tannálfur.

Skrínið rúmar eina.. í mesta lagi tvær barnatennur.

Þetta skrín hefur samviskusamlega verið lagt undir koddann, hvenær sem tækifæri hefur skapast og vegna míns einstaklega góða sambands við Tannálfinn hefur gelgjunni áskotnast íslenskar krónur í skiptum fyrir hverja tönn. Annars skilst mér að evran sé aðal gjaldmiðillinn.

Sá Einhverfi fékk ekkert slíkt skrín í skírnargjöf. Þó tel ég ekki að það sé ástæðan fyrir því að allar þær tennur sem hann hefur misst hafa horfið. Púff! Gjörsamlega gufað upp. Þeim Einhverfa hefur ekki áskotnast svo mikið sem tíeyringur fyrir sitt postulín.

Hann hefur sennilega ýmist spýtt þeim út úr sér þar sem hann stóð á hverjum tíma, kyngt þeim eða hent þeim í ruslið.

Á sunnudaginn síðasta heyrði ég kvörtunarhljóð frá mínum manni berast niður frá efri hæðinni.

Á mamma að hjálpa? kallaði ég upp til hans.

Hann þáði það og ég rölti upp stigann. Inn í herberginu sínu stóð Sá Einhverfi og gapti framan í mig, þegar ég birtist.

Það fyrsta sem mér datt í hug var tannpína. Andskotinn, hugsaði ég. En þegar ég fór að þreifa fyrir mér uppgötvaði ég að hann var með tvo lausa jaxla, sitthvoru megin.

Þetta er allt í lagi Ian, sagði ég. Lét hann setjast á rúmið með mér og teiknaði upp fyrir hann skælbrosandi munn með fullt af tönnum. Merkti þær sem voru lausar upp í honum, notaði ör til að sýna honum að þessar tennur myndu detta og reyndi að útskýra að hann myndi svo fá nýjar.

Drengurinn horfði á mig og það var augljóst hvað hann hugsaði: hvað er kerlingin að röfla núna!?

Svo potaði hann í tennurnar og kvartaði.

Ég gafst upp og fór niður aftur. Hugsaði með mér að þetta yrði bara að hafa sinn gang.

En mér skjátlaðist. Þegar ég fór inn á baðherbergi stuttu síðar, voru rifur af alblóðugum klósettpappír í klósettinu og á botninum glampaði á lítinn hvítan jaxl. Eða voru þeir tveir?

Ég hef enn ekki kannað hvort báðar tennurnar séu horfnar. Ég hef grun um að svo sé. Drengurinn er greinilega ekki á því að hafa einhverja skröltandi aukahluti upp í sér. Hann tekur málin í sínar hendur. Ekkert vesen.

Á meðan safnar Tannálfurinn vöxtum á íslensku krónurnar sem hann þarf ekki að leggja út. 

Jóna Á. Gísladóttir

Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Meira