c

Pistlar:

5. júlí 2009 kl. 13:48

Jóna Á. Gísladóttir (jonaa.blog.is)

Vísindalegar kannanir og próf sem við gerum á eiginmönnum okkar

Ekki held ég að ég þekki þá konu sem ekki hefur framkvæmt ''vísindalegar'' kannanir á eiginmanni/sambýlismanni sínum. Kannski mætti þó frekar segja ''vísindalegar'' kannanir á viðbrögðum á vissum aðstæðum.

Ekkert er án undantekninga en getum við ekki öll verið sammála um það að flestir karlmenn eru blessunarlega lausir við að láta óreiðu á heimilinu fara í taugarnar á sér. Má þá nefna föt sem liggja á víð og dreif, bækur og blöð og annað dótarí. Óhreint leirtau og ryk í hornum. Í mörgum tilfellum má segja að þeir hreinlega sjái ekki drasl.

En við, kvenpeningurinn, eigum afskaplega erfitt með að sætta okkur við þennan eiginleika í fari eiginmanna/sambýlismanna okkar. Og því leggjum við fyrir þá þrautir og próf. Við segjum þeim að sjálfsögðu ekki frá því fyrr en eftir á. Mörgum dögum seinna. Þá höfum við haft allan þann tíma til að byggja upp innri pirring sem fer stigvaxandi með hverjum klukkutímanum sem líður og endar með háum hvelli. Og þeir standa greyin, með tómt og starandi augnaráð, á meðan kastið gengur yfir og það er auðséð á svipnum hversu ráðavilltir og lost þeir eru.

Próf sem þessi beinast að sjálfsögðu að öllum fjölskyldumeðlimum ef börnin eru orðin stálpuð, en þegar upp er staðið er það karlmaðurinn sem ber hitann og þungan af, svo til alltaf neikvæðri, útkomu slíkra prófa.

Nýjasta prófið af þessum toga sem ég lagði  (meðvitað) fyrir fjölskyldumeðlimi var klósettrúllu-prófið. Það fór að fara í taugarnar á mér að enginn, ENGINN, nema ég skipti um klósettrúllu á sómasamlegan hátt. Það er að segja, fjarlægði tóma rúllu af klósettrúllu-standinum, setti nýja á og henti þeirri tómu í ruslið.

Aðrir fjölskyldumeðlimir kláruðu rúlluna, tóku hana vissulega af standinum (vel gert you all) og settiu jafnvel nýja á. En tómu rúllunni var ávallt stillt upp á heiðursstað. Hún rataði aldrei í ruslið.

því ákvað ég einn daginn að ÉG ætlaði ekki að fleygja helvítis rúllunum, heldur gera þessa hávísindalegu tilraun; Hversu margar tómar rúllur þyrftu að safnast fyrir á hillunni á bak við klósettið, til þess að einhver kæmi auga á þær og hugsaði; neeei heyrðu, þetta á ekki heima þarna heldur í ruslinu.

Þarf ég að taka það fram að það gerðist ekki!?

Sjö tómar rúllur tróndu stoltar á baðherberginu mínu og hlógu að mér, og þá fékk ég nóg. Kallaði að sjálfsögðu á Bretann og kynnti fyrir honum niðurstöður þessarar könnunar.

Hann hló. Og ég líka reyndar. En þær eru ekki alltaf jafn fyndnar þessar niðurstöður.

Aðrar tilraunir sem ég hef gert er að taka bara til á mínu náttborði (hann tók aldrei eftir því), þvo bara þann þvott sem ratar í óhreina-taus-körfuna (hann tók aldrei eftir því), stilla gluggapósti upp á borðstofuborðinu því hann segist ætla að fara í gegnum hann (pappirsruslið var þar í 10 daga), henda ekki afgöngum úr ísskápnum sem hann segist ætla að borða (þeir enda á að koma skríðandi á móti manni einn daginn)......

Einni tilraun heyrði ég af um daginn, en hún fól í sér að ryksuga var skilin eftir í gangveginum. Eiginmaðurinn þurfti bókstaflega að klofa yfir hana, bæði til að komast inn í svefnherbergi og eins inn á baðherbergi. Ryksugan sú stóð á sama punktinum í heila viku. Og ég þarf ekki að segja ykkur að það var ekki eiginmaðurinn sem fjarlægði hana á endanum.

Önnur tilraun á sama heimili: wc pappírinn kláraðist á klósettinu á efri hæðinni og húsmóðirin ákvað að nú skyldi hún ekki verða sú sem handlangaði klósettpappír frá neðri hæð á þá efri. Í nokkra daga varð hún vör við alls konar hjálpargögn; bómullarhnoðra, eldhúsrúllu sem einhvern veginn slæddist inn á baðherbergi, blautþurrkur.... en enginn í fjölskyldunni gerði sér ferð niður til að sækja þetta sem við getum ekki verið án; klósettpappír.

Það fyndna er (og jókið er á kostnað okkar kvenfólksins) að ef tilraunin fer öðruvísi en við búumst við, þ.e. er karlmaðurinn bregst við áreitinu og fjarlægir/sækir/þrífur/hendir, þá verðum við svolítið svekktar. Búnar að pirrast inn í okkur í marga daga og okkur vantar útrás og þá svíkur karlpungurinn okkur með því að gera það sem við vildum að hann gerði...

Úff. Life is hard.

Segið mér sögu krakkar.........  

Jóna Á. Gísladóttir

Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Meira