c

Pistlar:

17. nóvember 2009 kl. 23:17

Jóna Á. Gísladóttir (jonaa.blog.is)

Freaky friday óskast - DVD mynd óskast til kaups

Laugardaginn síðastliðinn var mér og minni fjölskyldu boðið í mat hjá vinafólki. Langt er síðan við höfum eytt tíma með þessu vinafólki okkar og var þetta boð kærkomið og mér mikið tilhlökkunarefni.

Unglingurinn og Gelgjan voru þó upptekin við aðra iðju og það varð til þess að mig langaði helst að fá pössun fyrir Þann Einhverfa og njóta kvöldsins barnlaus.

Barnapía fékkst ekki og í sannleika sagt fór laugardagurinn svolítið í það hjá mér að hafa áhyggjur af því að Þeim Einhverfa yrði ekki haggað úr húsi. Ég vissi að geðheilsa mín stóð tæpt og að ég myndi virkilega erfa það við son minn ef hann yrði til þess að ég kæmist ekki í matarboðið um kvöldið.

Svo öllu var tjaldað. Nammi og nýr DVD diskur var í boði, bara ef stráksi var til í að lofa því að koma í bílinn með mömmu og pabba klukkan sex.

- Eigum við að fara í bílinn klukkan sex Ian? Fara og kaupa DVD mynd og kannski smávegis nammi?

- Já

(yes yes yes) Hvaða mynd langar þig í?

- Freaky friday

(nei nei nei hún er of gömul hún fæst örugglega ekki lengur) Ok Ian frábært.

Restin af deginum fór í að reyna að ná í BT og kanna vörulagerinn þar. Ekki var svarað í símann á þeim bænum en Videohöllin átti myndina.. til leigu.

Ég hef aldrei leigt mynd hana Þeim Einhverfa. Ég veit að það er ekkert grín að skila henni aftur. Frekar eru DVD myndir keyptar í bunkum og bílförmum.

Klukkan sex keyrðum við sem leið liggur í BT Skeifunni en ekki fannst myndin. Þá var keyrt í Videohöllina í Lágmúla og Freaky friday leigð. Auðvitað var hulstrið bara merkt Videohöllinni. Það vantar allt fútt í hulstrin á þessum leigumyndum. Engin kreditlistar fyrir drenginn að skrifa upp eða aðrar veigamiklar upplýsingar, svo sem framleiðsluár, leikstjóri og framleiðandi.

Sá Einhverfi velti hulstrinu í smá stund fram og til baka í höndunum og hefur örugglega hugsað sitt en hann virtist sáttur þegar hann tölti aftur út í bíl með DVD mynd í annarri hendi og bland í poka í hinni.

Kvöldið varð jafn yndislegt og ég átti von á og Sá Einhverfi skemmti sér konunglega í sjónvarpsherberginu yfir Freaky friday. Þegar kominn var tími til að halda heim harðneitaði hann að fara. Enda ekki búinn að klára að skrifa upp allan kreditlistann. Hann er orðinn snillingur í að spóla fram og til baka og nota pásu-takkann til að geta rýnt í allt lesefni sem kemur á eftir bíómyndum.

Svo rann upp skuldadagur. Myndinni þurfti að skila. Ég laumaði henni í töskuna mína á mánudagsmorguninn og skilaði henni í hádeginu.

Friðurinn var rofinn á ljúfu og rólegu mánudagskvöldi þegar hávær og reiðileg rödd byrjaði að góla:

NEEEEEEEEEEEEEEIIIIIII PABBI HVAR ER FREAKY FRIDAY HVAR ER FREAKY FRIDAY HVAR ER FREAKY FRIDAY...

Við plötuðum hann. Nörruðum hann. Blekktum hann viljandi. Hann hefur ekki hugmynd um hvað myndbandaleiga er. Í hans huga á hann hverja einustu DVD mynd sem villist í gegnum hendurnar á honum. Hann treður inn á sig álitlegum bíómyndum þegar hann fer í afmælis- eða kaffiboð og reynir að smygla þeim úr húsi.

Mér finnst ég skulda honum eitt stykki Freaky friday til eignar.

Mér datt í hug kæra fólk að þessi mynd leyndist einhvers staðar í hillu eða skáp hjá ykkur, rykfallin og gleymd öllum á heimilinu. Ef þið kannist við það ÞÁ VIL ÉG KAUPA ÞESSA MYND.  KAUPA KAUPA KAUPA

501512~Freaky-Friday-Posters

Jóna Á. Gísladóttir

Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Meira