c

Pistlar:

26. júlí 2016 kl. 15:21

Kristín Linda (kristinlinda.blog.is)

Sumarlífið sæla eða hvað?

Sumarið er tími sælu, ævintýra og upplifana, eða er það ekki? Framundan er hin víðfræga verslunarmannahelgi sem er, samkvæmt orðræðunni í fjölmiðlum, einstakt tækifæri til hópsamveru sem allir taka þátt í. Umfjöllunin er slík að þeir sem ekki ætla á einhverskonar þjóðhátíð, bæjarhátíð eða viðburð upplifa auðveldlega að þeir séu hornreka í samfélaginu. Að þeir séu ekki að njóta lífsins eins og annað fólk, að þeir hafi ekki burði til, eða nái ekki, að skapa sér tækifæri til að taka þátt í því sem er eftirsóknarvert og mikilvægt og séu bara hálf misheppnaðir. Margir upplifað þessa tilfinningu aftur og aftur á sumrin, tilfinninguna, allir eru að gera það gott nema ég.

Já, sumarið er en yndislegt en sannarlega erfiður tími hjá mörgum. Dagskipulagið sem ríkir hjá einstaklingum, fjölskyldum og í samfélaginu frá miðjum ágúst og fram í júní riðlast. Breytingarnar ná ekki aðeins til skóla og vinnu heldur líka samskipta fólks, félags og menningarlífs, neyslu, fjárhags og hversdagslegra viðburða. Sumarlífið reynir á stöðu á vinnumarkaði. Hefur þú vinnu, er hún tímabundin eða föst, er vinnuálagið skaplegt eða einmitt alltof mikið á sumrin, hefur þú svigrúm og getu til að taka sumarfrí? Sumarlífið reynir líka á efnahagslega stöðu. Áttu peninga til að fara dag eftir dag í sund, fara til Spánar eða Danmerkur, borga þig inn á Bræðsluna eða Þjóðhátíð? Sumarlífið reynir á fjölskyldustöðu og fjölskyldutengsl, aðrar félagslegar tengingar og samskiptanet. Er einhver í tengslanetinu þínu sem vill fara með þér í útilegu, gönguferð eða á Sumar á Selfossi? Hefur þú kraft, kjark og löngun til að fara einn? Tilheyrir þú hópi, áttu maka, börn eða foreldra sem þú getur eða vilt njóta lífsins með? Gengur það vel eða er það flókið og snúið?

Við skulum ekki taka því sem sjálfgefnu að allir eigi einhvern að. Að allir hafi félagsskap sem heldur gegnum sumardagana. Sumarið er einmitt tíminn þegar fólk upplifir missi, einsemd, afskiptaleysi og tengslaleysi sárar en ella. Þegar tómleiki, depurð og vansæld með eigin stöðu í lífinu sækir þungt að. Ef þú finnur sterkt fyrir einmannaleika, tapi og leiða skaltu muna að þú ert ekki einn í þeirri stöðu. Það eru ekki allir hinir í stuði að undirbúa einhverskonar verslunarmannahelgarhátíð og þessir dagar líða eins og aðrir. Hlúðu að sjálfum þér og njóttu þess smáa góða sem er í hverjum degi lífsins.

Þeir sem eru einmitt núna í góðu stuði og virkilega að njóta ævintýra sumarsins, gætu aftur á móti auðveldlega auðgað eigin líf og annarra með því að bjóða einhverjum sérstaklega að vera með. Hluti af því að vera góð manneskja er að muna eftir öðru fólki, bæði í sorg og sælu. Vera til staðar og gefa kost á sér ekki bara á erfiðu stundunum heldur líka þeim fjörugu og góðu.

Bjóddu einhverjum að njóta þess að upplifa og vera með þér núna!

Kristín Linda

Kristín Linda

Kristín Linda er sálfræðingur og starfar sjálfstætt á eigin sálfræðistofu Huglind á Höfðabakka 9 í Reykjavík - www.huglind.is. Hún er einnig ritstjóri tímaritsins Húsfreyjunnar sem er gefið út af Kvenfélagasambandi Íslands. Kristínu Lindu finnst heillandi að hjálpa fólki að bæta líf sitt, líðan og heilsu og nýtir til þess sálfræðilega þekkingu sína, reynslu og jákvæða lífssýn.

Meira