c

Pistlar:

9. nóvember 2016 kl. 9:52

K Svava (ksvava.blog.is)

Ég er ekki til í að gefast upp!

Þegar ég tók það að mér að fara í gegnum þessa breytingu þá var líf mitt allt öðruvísi, á mjög stuttum tíma tók allt lífið breytingum sem að ég hef þurft að aðlaga mig að og púsla öllum mínum verkefnum saman.  Ég er búin að skipta um vinnu og hún er ekki þessi dagsdaglega 8 - 4 vinna heldur 12 tíma vaktir og þau hafa verið ótrúlega sveigjanleg við mig varðandi skólann en ekki hægt að gera allt og því hefur ræktin setið á hakanum, sérstaklega þegar það eru langar vinnuvikur og skólalærdómur.

Ég fékk spurningu hvort að ég væri búin að henda inn handklæðinu en það er ég svo sannarlega ekki búin að gera.  Ég er komin með góð tök á matarræðinu og hef nánast gefið upp allt kolvetni fyrir utan fljótandi en það er bara smá sem að ég leyfi mér, enda getur maður ekki lokað á allt í einu.

Ég er baráttu manneskja og finnst ég hafa barist fyrir ansi mörgum í gegnum tíðina, núna berst ég fyrir því að standa mig í mörgum verkefnum í einu og kannski var það of stór biti fyrir mig að tyggja en ég er samt ekki tilbúin að gefast upp.  Þegar að ég hef tekið tarnir áður, þá hef ég kannski verið með þrjá bolta á lofti yfir ákveðinn tíma og það hefur virkað hjá mér og taldi ég mig alveg hæfa í að ráðast á öll þessi verkefni þrátt fyrir allar breytingarnar í kringum mig en núna líður mér eins og ég sé með 8 bolta á lofti og sé illa fyrir endanum á því.  Þannig að ég ákvað, að í staðinn fyrir að reyna að halda þeim öllum 8 á lofti, að missa nokkra bolta og vona að þeir myndu ekki brotna illa eða gera mér lífið leitt.  Þeir boltar sem að ég hef misst eru "heimiliið", "fjölskyldan" og "vinirnir", því miður.   

Ég man ekki hvenær að ég ryksugaði síðast og ég bý næstum í unglingadrasli þar sem að tíminn hefur ekki gefist til að halda vel utan um heimilið, ég man varla hvaða dagar eru því að þeir renna í eitt og þá gleymist stundum að versla inn eða hugsa um unglinginn eða kettina.  Ég hef ekki hitt fjölskylduna mína síðan í september og ég meira að segja gleymdi illilega að systir mín ætti afmæli síðsta laugardag og það hefur aldrei gerst áður á minni ævi að ég gleymi afmælisdegi.  Vinina hef ég ekki hitt nema brotabrot en ég reyni að vera dugleg að hringja þegar tími gefst því að þau eru klettarnir mínir og fæ ég mikinn styrk frá þeim.  

Ég verð að fá að aðskilja tvo bolta í þessu samhengi en ég er með einn bolta á lofti gagnvart Smartlands lífsbreytingunni og annan með ræktina, ræktin hefur því miður tekið smá skakkölum líka en ég reyni að koma inn hreyfingu þó að það sé ekki alveg klukkustund í ræktinni með Lilju, ég er þó enn með augun á markmiðinu og neita að gefa þau upp á bátinn.. ég hef barist of mikið fyrir þessu síðustu vikur, þrátt fyrir að það hafi ekki alltaf gengið upp.

Núna eru um þrjár vikur eftir og mælingar í næstu viku.  Ég ætla að steypa mér í ræktina þessa tvo frídaga sem að ég hef frá vinnu þessa vikuna og reyna að púsla öllu saman að ég náði þeim besta árangri sem að ég get á þessum stutta tíma en svo mun ég klárlega halda áfram með mín markmið á mínum tíma.

Ég geri mér grein fyrir því að ég er engin ofurkona en í augum margra er ég það og ósigur er ekki til í mínum orðaforða, ég mun því gera mitt allra besta á þeim tíma sem að ég hef og ekkert minna en það.  Ég næ kannski ekki þeim árangri sem að ég vildi miðað við ef að ég hefði allann tímann í heiminum en allur árangur er sigur í mínum augum og þakka ég öllum þeim sem að hafa stutt mig og hvatt.

Nú berjumst við áfram og tökum þetta með stæl, þetta er ekki búið fyrr en feita konan syngur og hún er ekki neinstaðar í sjónmáli!

K Svava

K Svava

Létt geggjuð háskólamær í fullri vinnu sem ætlar að taka nýjan lífstíl í nefið! Meira