c

Pistlar:

4. mars 2019 kl. 18:20

Lára Guðrún Sigurðardóttir (laragsigurdardottir.blog.is)

Skulda­dag­arn­ir koma fram um fer­tugt

Okkar mikilvægasta klæði kemur í litrófi frá hvítu, svörtu og allt þar á milli. Stundum ber það keim af gulum lit og stundum út í rautt. Það heldur á okkur hita og kælir ef okkur verður heitt. Það endist okkur út lífið, ver okkur gegn innrás sýkla og reynir að forða okkur frá skaða - eins og einhverju beittu eða brennheitu. Það er nokkuð sjálfbært og endurnýjar sig á 28 dögum en byrjar að þynnast þegar það nær 25 ára aldri. Klæðið á það til að verða lúið, bæði með aldrinum og sérstaklega ef það veðrast mikið og við pössum ekki nógu vel upp á það eins og að bera á það reglulega áburð. Stundum koma skemmdir í það sem þarf að fjarlægja og þá er gatið saumað saman með nál og tvinna.

Veðruð klæði

Okkur áskotnast einungis eitt slíkt klæði sem húðin okkar er - okkar stærsta og berskjaldaðasta líffæri sem verður oftar en ekki fyrir barðinu á umhverfi eða líferni. Sólböð og streita setja mark sitt á hana. Fyrir vikið eldist húðin oft hraðar en augun sem horfa á hana í speglinum. Þú getur séð hvernig klæðið þitt hefur staðist tímans tönn með því að bera saman húðina við handarkrika og handarbak eða húðina yfir sköflungi og innan á læri.

Ég gleymi aldrei þegar húðlæknirinn sagði við mig að ég væri komin með húðskemmdir á fótleggjunum. Ég var 25 ára. Í stuttri forsögu urðu mín fyrstu kynni af ljósabekk þegar ég var tíu ára því þá var talið hollt að senda veikluleg börn í ljósaböð. Við tóku sokkabandsárin með sólböðum og sólarlandaferðum. Þá þótti hallærislegt að nota sólarvörn en smart að löðra húðina í olíu. Markmiðið var að verða vel rauð og brenna smá til að verða brúnni.

Skuldadagar

Skuldadagar koma venjulega aftan að manni á fertugsaldri, þegar kemur að því að súpa seyðið af því að hafa ekki hugsað betur um húðina meðan maður var ungur og ódauðlegur. Sumum finnst hégómlegt að velta sér mikið upp úr hvernig húðin eldist. En markmiðið í lífinu ekki að fara krumpulaus í gengum það heldur frekar hugsa um húðina þannig að hún endist okkur vel og þjóni hlutverki sínu sem eitt af líffærum okkar. Þegar ég var yngri var lítið vitað um skaðsemi útfjólublárra geisla og almennt ekki verið að velta sér upp úr hvað maður getur gert til að viðhalda fallegri húð. Sem betur fer er það breytt.

Heilbrigð húð

Síðan ég hóf læknanám hefur húðin sem líffæri heillað mig og eftir að ég fór sjálf að vinna við húðmeðferðir jókst áhuginn á þessu magnaða klæði sem við skörtum ævilangt. Í næstu pistlum langar mig því að deila með ykkur það sem ég hef lært með því að kafa dýpra í fræðin á bak við heilbrigða húð og segja ykkur í leiðinni frá tilraunum sem ég hef gert á sjálfri mér, þegar við á. Til dæmis, hvað er þetta kollagen? Er eitthvað vit í að bæta því í matarkörfuna?

En þangað til næst, þá skulum við sjá fegurðina í þessu einstaka klæði sem við skörtum, fagna lífsreynslunni sem hefur skráð sögu sína í það og hugsa um húðina eins og okkar dýrmætustu gersemi svo okkur megi líða sem best í eigin skinni. 

 

Lára G. Sigurðardóttir

Lára Guðrún Sigurðardóttir

Lára Guðrún Sigurðardóttir

Læknir og doktor í lýðheilsuvísindum sem grúskar í fræðigreinum til að skilja betur mannshugann og -líkamann. Annar stofnenda og eigenda húðmeðferðarstöðvarinnar HÚÐIN skin clinic. Meira