c

Pistlar:

24. maí 2019 kl. 4:40

Lára Guðrún Sigurðardóttir (laragsigurdardottir.blog.is)

Allt nema hamingja og svefn. Nr.IV

Með kollageni fáum við 19 af þeim 20 aminósýrum sem líkami okkar notar til að byggja ýmiss prótein, ensím og fleira til að halda okkur gangandi. Sjálfur getur kroppurinn búið til tíu aminósýrur en hinar tíu þurfum við að fá með matnum okkar. Eina aminósýran sem við fáum ekki með kollagen fæðubótarefnum  er sú sem telst uppspretta gleði og svefns - tryptófan er nefnilega aðalhráefni serótóníns sem er hamingjuhormón og melatóníns sem er svefnhormón.

Það er reyndar ein matartegund sem sér okkur fyrir öllum lífsnauðsynlegum aminósýrum. Egg er ein af mínum uppháldsfæðutegundum því þau eru afar næringarrík og saðsöm. Ég tek alltaf með mér 1-2 egg þegar ég fer í flug, sem slær strax á þegar hungurverkirnir gera vart við sig. Ekki það að það sé alslæmt að vera svangur af og til en fyrir þá sem verða geðstirðir með tóman maga þá er betra fyrir alla að leyfa hungurverkjum að knýja á dyr þegar maður er ekki innan um margt fólk.  

Til að fá nóg af tryptófani er hægt að borða reglulega lax, alifuglakjöt (kjúkling, kalkún, gæs), egg, spínat, fræ og hnetur. Soðið egg ásamt blöndu af fræjum og hnetum er því góð leið til að fylla á tryptófan-tankinn.

Sterkari og unglegri húð?

Fleiri og fleiri rannsóknir sýna nú að ef maður tekur kollagen daglega í 6-12 vikur þá getur teygjanleiki og raki aukist í húðinni og andlitslínur orðið minna áberandi. Svo virðist sem líkaminn geti nýtt sér aminósýrur og lítil peptíð úr kollagen fæðubótarefni og vísbendingar eru um að það geti gefið smiðunum spark til að framleiða meira kollagen auk þess að hafa taumhald á skemmdarvörgunum sem við töluðum um í fyrri pistli. Sem dæmi reyndust 35 til 55 ára konur sem tóku 2.5 eða 5 grömm af kollageni daglega í átta vikur með meiri teygjanleika í húðinni miðað við þær sem tóku ekki kollagen. Önnur rannsókn sýndi að konur sem tóku einungis 1 gramm á dag af kollageni í 12 vikur voru með 76% minni þurrk í húðinni, 12% minni hrukkur, betra blóðflæði í húðinni og mældust með 6% meira kollagen. Fjórum vikum eftir að meðferð lauk voru eldri konurnar enn með meiri teygjanleika í húðinni í samanburði við þær sem tóku lyfleysu. Áhrifin hafa reynst mest hjá þeim sem eru komin yfir þrítugt.

Kollagen virðist einnig geta flýtt fyrir að sár grói og hjálpað til við myndun nýrra blóðæða en ein rannsókn sýndi að sár gréru tvisvar sinnum hraðar hjá þeim sem tóku kollagen þrisvar á dag í 8 vikur.  

Þrátt fyrir allt eru rannsóknirnar enn tiltölulega fáar og ekki enn komnar nógu margar fram til að leiða okkur í sannleikann um gagnsemi eða ógagnsemi kollagen fæðubótarefna. Annað sem þarf að hafa í huga er að gleypa ekki strax við rannsóknarniðurstöðunum sem gerðar eru af framleiðendunum sjálfum því í slíkum rannsóknum er hættara við að útkomunni hafi verið hagrætt þeim í vil.

 

Getur kollagen verið skaðlegt?

Þekkt er að kollagen fæðubótarefni geti haft aukaverkanir eins og meltingaróþægindi en það er oft eitthvað sem lagast með tímanum. Ef þú ert með ofnæmi fyrir fisk þá er kollagen úr sjávarfangi sennilega ekki fyrir þig. Kollagen er heldur ekki hentugt fyrir grænmetisætur þar sem það er unnið úr dýraafurðum.

Menn hafa haft áhyggjur af að nautin sem notuð eru til framleiðslu kollagens gætu verið smituð af kúariðu sem geti valdið taugasjúkdómnum Creutzfeldt-Jakob hjá okkur mönnunum en nú hefur verið sýnt fram á að líkur á smiti eru litlar sem engar. Aftur á móti hafa kannanir sýnt að fæðubótariðnaðurinn selur ósjaldan vörur undir fölsku flaggi því eftirliti er oft á tíðum ábótavant og við stikkprufur hefur reynst lítið sem ekkert af auglýstu fæðubótarefni í viðkomandi vöru. Ég myndi því gefa mér tíma til að velja framleiðslufyrirtæki sem er með vottun fyrir framleiðslunni.

Annað sem menn hafa haft áhyggjur af er að vefirnir sem notaðir eru við framleiðslu kollagens sogi til sín þungmálma sem geti verið skaðlegir líkamanum. Því taka nú mörg framleiðslufyrirtæki fram að varan þeirra sé prófuð fyrir þungmálmum til að tryggja að þeim sé haldið í lágmarki.

Sjálf hef ég verið að prófa ýmsar tegundir (sjá mynd) og fékk slæmt mígrenikast eftir að Kollagenhafa tekið inn kollagen unnið úr nautgripum en ég er ein af þeim sem þoli illa rautt kjöt og fæ til dæmis liðverki eftir að neyta þess. Ég vaknaði um miðja nótt með versta höfuðverk sem ég hef upplifað og var nokkra daga að jafna mig á eftir. Hvort það tengist beint viðkomandi kollageni get ég ekki fullyrt um en er rög við að gefa þessu aðra tilraun. Ég prófaði einnig að taka kollagen frá erlendu fyrirtæki sem ég hætti fljótlega að taka því mér varð óglatt af því. Aftur á móti hef ég tekið inn kollagen á fastandi maga bæði frá Feel Iceland og Protis og þoldi vel hvoru tveggja - þetta er ekki auglýsing! Þannig að ein tegund af kollageni hentar ekki öllum og best að fullvissa sig hvaðan það kemur. Eins og íslenska grænmetið - þú veist hvaðan það kemur!

 

Erum við að tala um æskubrunn eða nýtt æði?

Af öllu því sem ég hef komist að um kollagen fæðubótarefni eru vísbendingar um að það geti haft jákvæð áhrif á húðina en framtíðin á eftir að leiða það betur í ljós. Það er sæmileg uppspretta próteina og innihalda sjaldnast salt eða sykur sem er oft stærsti hluti svokallaða próteinstykkja.

Um þremur vikum eftir að ég byrjaði að taka inn kollagen birtust augnhárin aftur eins og ekkert hefði í skorist. Mín tilfinning er sú að mig hafi skort ákveðnar aminósýrur því ég borða lítið af kjöti. Hvort andlitslínurnar hafi minnkað veit ég svo sem ekki en mér finnst húðin hafa fallegri áferð hvort það sé kollageninu að þakka eða einhverju öðru. En ég get ekki séð neitt því til fyrirstöðu annað en að hver prófi fyrir sig í þrjá mánuði og meti sjálfur árangurinn. Við erum öll ólík og það sem hentar einum hentar ekki endilega öðrum.

Í lokin læt ég fylgja með eina kollagenuppskrift sem er vinsæl á okkar heimili.

Kollagenbomba

Brúna í olíu lauk og gulrót (smátt skorið) með salti og pipar. Kjúklingabein sett út í pottinn ásamt vatni sem þekur beinin. Soðið við vægan hita í amsk 4 klst og beinin fjarlægð. Sjóðið núðlur. Sítrussafi er svo upplagður á kantinum til að fá C-vítamín svo húðin geti nýtt kollagenið. Einn bolli af kjúklingasoði inniheldur um 6 grömm af kollagen-peptíðum.

Lára G. Sigurðardóttir

Lára Guðrún Sigurðardóttir

Lára Guðrún Sigurðardóttir

Læknir og doktor í lýðheilsuvísindum sem grúskar í fræðigreinum til að skilja betur mannshugann og -líkamann. Meðhöfundur Húðbókarinnar (2022) og meðeigandi húðmeðferðarstöðvarinnar HÚÐIN skin clinic.

Meira