c

Pistlar:

24. nóvember 2014 kl. 21:31

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Hugleiðingar Lindu: Er hamingjuna að finna í klámi og villtu kynlífi?

Ég sit hér og les blöðin á netinu og það er sama hvert ég lít, allstaðar er verið að tala um klám og kynlíf í einni eða annarri mynd. Swing hér ;), berir kroppar þar, 10 aðferðir til að fullnægja hinu kyninu, fjarkynlífstæki og svo fr. 

Erum við hætt að kunna að meta kynlífið í sinni fallegu tæru mynd? Erum við orðin svo spennuleitandi að allt þarf að vera yfirdrifið, og kynlífið þarf á nýjum og nýjum stellingum, tækjum og tólum að halda til að geta fullnægt okkur? Þurfum við að horfa á klám til að geta átt gott samlíf með maka okkar eða bólfélaga? Er ekki nóg að horfa bara á þann sem við erum í rúminu með og nota þau tæki sem við fæddumst með okkur til ánægjuauka?

Æi ég veit ekki, ég er líklega bara gamaldags og leiðinleg...

En fyrir mér er kynlíf afleiðing ástar eða hrifningar á öðrum aðila, og leitun að nánd það sem kveikir kynlöngunina. Nánd þeirri sem aðeins fæst með því að tengjast í gegnum kærleikann fyrst og síðan samfarir og forleik þeirra.

En þetta finnst mér almennt aldrei vera í umræðunni, bara tækin, tólin og hvað allt sé í lagi í þessum efnum. Endaþarmsmök orðin algeng með tilheyrandi slæmri bakteríuflóru segja læknar mér. (smart) Við verðum bara töff ef við eigum sem flesta rekkjunauta og fullan kassa af dóti, erum til í makaskipti, threesome, búningaleiki og svo þurfum við að kunna 69 stellinguna uppá 10!

En ég heyri aldrei umræðu um hversu mikilvæg þessi nánu tengsl geta verið ef tilfinning og kærleikur tengist þeim. Heyri heldur ekki um allar beygðu sjálfsmyndirnar, niðurbrjótandi virðingaleysið sem fylgir oft í kjölfarið á tilfinningalausum kynlífsathöfnum, vonbrigðin og sjálfsfyrirdæminginguna sem líka fylgir hjá mörgum...Þetta heyri ég aldrei um, eða mjög sjaldan amk.

En þar sem ég er komin á nægjanlega virðulegan aldur til að segja hreint út það sem mér finnst um allt og ekkert, og er nokk sama hvað öðrum finnst um það sem ég hef að segja, þá leyfi ég mér einfaldlega að segja að við erum á kolröngum götum í dag. Götum sem geta ekki skapað næringu inn í sálina með nokkrum hætti að mínu mati. Ekkert plasttól eða rafmagns rúmtæki getur byggt upp neitt annað en tímabundna fullnægingu líkamans, og klámáhorf byggir upp kynlöngun sem skilar svo fáu öðru en því að kannski þarf alltaf meira og svæsnara klám til að vekja þá spennu sem leitað var að í upphafinu. 

En nánd og kærleikur byggja hinsvegar upp falleg tengsl, vináttu, sameiningu, virðingu, traust og einingakeðju sem fátt fær slitið. 

Hverju erum við eiginlega að leita að?

Jú ég held að við séum alltaf með einum eða öðrum hætti að leita hamingjunnar eða að jákvæðri reynslu með einum eða öðrum hætti. En ég get lofað því að hamingjan kemur ekki í formi þess að leita sífellt að nýjum stellingum og nýjum rafmagnsdrifnum plasttækjum, heldur með því að tengjast annarri manneskju sálar og líkamsböndum. 

En með þessum siðapostula pistli mínum er ég ekki að segja að það sem tveir aðilar koma sér saman um að sé spennandi og ánægjuaukandi í sambandi þeirra sé ekki í lagi, alls ekki. Svo lengi sem tengingin og kærleikurinn er til staðar má ýmislegt gera til að krydda kynlífið. En alltaf þarf það þó að vera gert með samþykki og löngun beggja aðila. Annað er ofbeldi.

En nú ætla ég að láta þessu rausi mínu ljúka með þessum orðum: 

Til að eiga frábært kynlíf leyfið ykkur þá að njóta hvors annars, horfið á hvort annað, leitið að hjarta hvors annars og viðkvæmum ertandi stöðum, gerið það sem þið bæði viljið gera og þráið, en passið að það búi ekki til sár sem aldrei geta gróið almennilega.

Ást og friður

Þar til næst

xoxo

ykkar Linda

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira