c

Pistlar:

30. nóvember 2014 kl. 21:58

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Hugleiðingar Lindu: Kynferðisglæpir, hin hliðin...

Við heyrum mjög oft sögur af mönnum ( og örfáum konum) sem hafa áreitt börn kynferðislega og eða misnotað þau.

En hvað með þá sem standa næst þessum mönnum og konum ? Hvernig verður td líf konu sem fær ásakanir um slíkt inn á borð til sín varðandi mann sinn? Hvernig líður börnunum, tengdabörnum, barnabörnum, foreldrum og öðrum nánum ættingjum?

Ég veit að það fylgir mjög mikil skömm þeim sem standa að gerandanum. Skömm vegna atburða sem þeir eiga þó enga sök á. Og ofan á skömmina bætist við fyrirlitning samfélagsins og kannski ekki síst þeirra sem ættu að standa þeim næst.

Það vill gleymast að það fólk sem að gerandanum stendur á líka til tilfinningar.

Líf þeirra breytist, skilnaðir verða, fjölskyldan flosnar upp og allir syrgja. Þetta sorgarferli getur tekið langan tíma og oft þarf að vinna varlega úr þessum málum með aðstoð sérfræðinga og jafnvel þeirra sem gengið hafa þessa götu á undan.

En þá komum við að vandamálinu varðandi það... Það eru bara engin samtök til sem styðja við þá sem eru þarna megin borðsins og ég verð að spyrja, afhverju?

Ég veit svosem svarið við þessari spurningu. Þetta er allt of sárt og niðurlægjandi til þess að draga það fram í ljósið, skömmin, niðurlægingin, sársaukinn, brotin á hjartanu, sálinni, lífinu og fleira og fleira verður til að varna því. Þetta er engu að síður fólkið sem oft gleymist í umræðunni. Fólkið sem á sér engan málsvara. Fólkið sem stendur eftir með brotna drauma, fjölskyldan og heimilið farið, stórfjölskyldan hafnar oft þeirra tilfinningum og tilverurétti. Það vill gleymast að makinn, börnin og fjölskyldan öll sem að gerandanum standa eru ekki síðri fórnarlömb þessa glæps.

Ég veit að ég er stödd á sprengjusvæði, því að þeir sem verða fórnarlömb kynferðisglæpa eru ekki alltaf til í að horfa á þessa hlið mála, og ég virði þann rétt, en einhver verður að taka upp hanskann fyrir þau fórnarlömb sem enga umfjöllun fá.

Hvað ætli það séu mörg börn sem líða og gjalda fyrir það að foreldri þess er með stimpil kynferðisglæps? Þau eru jafnvel litin hornauga og búist er við því að þau séu eins og foreldrið. Foreldrar sem eru litnir illu auga fyrir það eitt að hafa alið upp þennan óþverra, makinn sem átti að gæta betur barnanna og var giftur þessum aðila og geldur oft ekki síður ef ekki verr fyrir glæpi gerandans en hann sjálfur.

Það kemur verulega við mitt hjarta að fórnarlömbin (fjölskyldan) fái enga hjálp og engan skilning samfélagsins, það er enginn sem veit hvernig það er að vera í þessum sporum fyrr en hann lendir þar sjálfur, og fáir sem spyrja að því hvernig líðan þeirra er.

Það að þurfa að splundra fjölskyldu sem þú hélst að væri bara í góðum málum þar til þessi skyndilega sprenging verður, börn sem þurfa að mæta skólafélögum sem pískra.

Stundum velja fjölskyldurnar að fara í afneitun vegna þess að þetta er allt of sárt til að taka á því. Skiljanlega... Allir draumar framtíðar brotnir, fjölskyldumynstrið farið og fáir sem vilja þekkja þig þar sem þú tengdist gerandanum og ekki síður því sem hann gerði. Áfallastreitan og sorgin sem fylgir er á við það að lenda í stórslysi eða náttúruhamförum, en fáir virðast hugsa um það. Nafn gerandans og mynd birtist jafnvel í blöðum og á óvönduðum síðum sem enga samhygð hafa með þeim sem standa að baki þessum aðilum. Og enginn virðist átta sig á því að líf svo margra var lagt í rúst, ekki bara þess sem fyrir kynferðisglæpnum varð. Það urðu allir sem tengjast gerandanum fórnarlömb þessa glæps.

Yndislegt þætti mér ef að við gætum tekið umræðuna á þennan stað svona einu sinni, dvalið um stund í samhygð og kærleika til þeirra sem fyrir kynferðisglæpnum varð, og eins hinna sem enga málsvara eiga sér, en líða fyrir gjörðir annarra. Ef við gætum séð þó ekki væri nema örlitla stund hversu sárt það er að missa og sakna lífsvegsins sem aðilar þessir fengu ekki að ganga og njóta vegna brota sem meiddu alla aðila. Dáinna drauma um framtíð og fjölskyldueiningu, brostnar vonir um ást, vináttu og samlíf. Líf sem á einni stundu. varð að martröð, erfiðu ákvarðanirnar sem þurfti að taka í kjölfarið og síðast en ekki síst, kvíðinn og þunglyndið sem oft fylgir því að þurfa að byrja lífið frá nýjum grunni án þess þó að hafa ætlað sér það. Aðgát skal höfð í nærveru sálar, bæði gagnvart þeim sem fyrir kynferðisglæpnum varð, og eins þeirra sem þurftu að gjalda fyrir glæp sem þau frömdu þó ekki og gátu engu um hann ráðið.

Þar til næst elskurnar,

Xoxo

Ykkar Linda

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira