c

Pistlar:

16. febrúar 2015 kl. 13:08

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Hugleiðingar Lindu: Eymd

Afríka

Ég heyrði um daginn frásögn og skoðaði myndir af þeirri eymd sem vinir mínir á ferð sinni um Afríku upplifðu. A þessum myndum sá ég fjölskyldur sem voru við hungurmörk, og eins og við vitum eru margir sem deyja úr hungri eða eyðni í þessari heimsálfu dag hvern. Þar þykir það ekki sjálfsagt að eiga heimili og því síður postulínsslegið salerni. Skólpræsin liggja opin, uppfull af bakteríum og allskonar viðbjóði. Munaðarlaus börnin ganga um stelandi, búa á öskuhaugum þorpanna sniffandi lím og bensín til að deyfa vanlíðan sína. Þetta er ekki fögur mynd og afar átakanleg að mínu mati. Sorglegt að við sem eitt mannkyn skulum ekki sjá sóma okkar í því að sjá öllum íbúum jarðarinnar fyrir lágmarksþörfum og aðbúnaði.

Ein myndin vakti þó athygli mína, en hún var tekin var í yfirfullum skóla, en á þeirri mynd sá ég afar glöð börn sem voru uppfull af þakklæti fyrir menntunina sem þau fá þarna, og möguleikana sem menntunin getur fært þeim. (ekki held ég að íslensku börnin sjái skólagöngu sína með sama hætti) Mér þótti afar vænt um að sjá að gleðin finnst enn þarna, þrátt fyrir aðstæðurnar. 

Mér varð nú hálf illt í hjarta mínu eftir að hafa hlustað á þessa Afríkufrásögn. Hugsaði með mér að við mættum skammast okkar rækilega fyrir vanþakklæti okkar hér á Íslandi. Við erum dekruð í drasl af Guði okkar, erum greinilega litlu dekurrófurnar hans með öll þau lífsgæði sem við búum við.

Hér höfum við allt til alls. Hituð húsnæði, skolphreinsistöðvar, mat sem við höfum oft áhyggjur af að losna við af bústnum líkömum okkar frekar en hitt. Hér höfum við fatnað, skóla, spítala, og ekki má gleyma himneska íslenska vatninu sem við höfum ofgnótt af, og svona má lengi telja upp af gæðum landsins okkar. 

En þökkum við fyrir það?

Ekki finnst mér svo vera þegar ég les blöð eða kíki á netmiðla. Þar er sífellt kvartað og kveinað yfir því hvað við höfum það skítt, og öllu fundið eitthvað til foráttu. Ókurteis erum við með ólíkindum, og höldum að við getum sagt hvað sem er í commentakerfum vefsíðna.

En þrátt fyrir öll þessi gæði sem við búum við og allt það frelsi sem við höfum, finnst mér ég merkilegt nokk, sjá sama vonleysis og eymdar augnaráðið skína úr augum okkar dekurrófanna eins og þeirra sem ekkert hafa.

Ég held líka að það sé nú einfaldlega þannig að það eru ekki þessi lífsgæði sem við keppumst alla daga við að kvarta yfir og heimta bót á, sem skipta öllu máli þegar allt kemur til alls.

Það sem skiptir okkur flest máli, hvort sem er í svörtustu Afríku eða á Íslandinu kalda, er að fá að finna fyrir nánd, vináttu, kærleika,nærveru og samþykki hvers annars. Að tengjast og skapa einingu, að lífa í gleði. 

Ef skortur er á þessu eins og allt of algengt er í dag að ég sjái, leiðumst við oft út í það að deyfa okkur með einhverjum hætti til að finna ekki sársaukann, alveg eins og þessi ungi munaðarlausi límsniffandi drengur á myndinni hér fyrir ofan. Þessi mynd sem tekin var af vini mínum á ferð hans í Afríku í fyrra, er ein af mörgum sem sýnir þá eymd sem við honum blasti hvarvetna.

En afhverju er þessi eymd hjá okkur sem höfum allt til alls? afhverju erum við ekki hoppandi glöð alla daga yfir þeim gnægtum sem við höfum umfram marga aðra hér í heimi?

Mín einlæga skoðun er sú að við lifum að mörgu leiti við fyrringu neyslusamfélags sem setti gömul og góð gildi til hliðar fyrir hluti sem eru samt svo miklu minna virði en við héldum. (en þetta eru bara mínar skoðanir og þú mátt alveg vera ósammála þeim, ég ber fulla virðingu fyrir því ;) )

Við hentum í burtu góðum gildum og siðum að mínu mati, siðum eins og þeim að klæða sig upp á sunnudögum. þá kom fjölskyldan í kaffi og bakkelsi og talaði saman, í stað þess að hanga í sitthvoru horninu með síma og tölvur eins og algengt er í dag að sé. Fólk fór líka í heimsóknir án þess að senda þyrfti boðskort, einfaldlega vegna þess að þeim langaði til að hitta vini og fjölskyldu til að spjalla við um allt og ekkert. Við hentum líka gildum eins og þeim að standa saman sem eining í hjónabandi og láta fátt eða ekkert verða til að slíta þá einingu. Núna virðist mér það oft vera þannig að samböndum sé bara ætlað að standa þar til eitthvað betra verður á vegi okkar, og þá má bara henda hinu sem fyrir var.( Ekki heyra það sem ég er ekki að segja, þar sem neysla, ofbeldi eða framhjáhöld er til staðar, er allt annað í gangi en það sem ég er að tala um hér) Við hentum í burtu gildum eins og þeim að ala sjálf upp börnin okkar þegar við fórum fram á menntun og starfsframa fyrir okkur konur, en gleymdum að biðja um að störf okkar sem mæðra væri líka metið að verðleikum og jafnvel til launa. Við hættum að vinna heima og vera stuðningur við börnin okkar að loknum skóladegi þeirra og létum skólakerfið þess í stað sjá um uppeldið. Við gleymdum gildum eins og þeim að virða þá sem eldri eru og leyfa visku þeirra að byggja upp ungviðið. Þar gáfum við efir fjársjóð sem yngri kynslóðirnar þurfa nú að vera án. þessar kynslóðir eru aðskildar í dag að miklu leiti, og þeir eldri koma sífellt minna að uppfræðslu til afkomenda sinna. Ömmur og afar dagsins í dag eru oft of upptekin við að halda lookinu sínu í lagi og hamast í líkamsrækt eftir vinnu í stað þess að taka göngutúra með barnabörnunum. Þetta þurfa þeir eldri líklega að gera svo að þeir séu gjaldgengir í samfélagi æskudýrkunarinnar.

Virðing og kærleikur fyrir samferðamönnum okkar er líka á hröðu undanhaldi, og finnum við konur mjög mikið fyrir því í dag að karlmenn í auknum mæli líta á okkur sem söluvarning en ekki manneskjur með tilfinningar og sál svo eitthvað sé nefnt (og kannski erum við konur ekkert betri). Einelti á vinnustöðum og í skólum er bara vaxandi vandamál þrátt fyrir að reynt sé að sporna við með öllum tiltækum ráðum. Árásir í commentakerfum eða á netinu orðnar mjög svæsnar og meiðandi, og svona get ég haldið áfram að telja til.

Mér sýnist við vera einmanna sem aldrei fyrr, en búum þó í stærra húsnæði en nokkru sinni áður. Við erum frjáls og óháð, en samt svo nándarlaus og einnota. Við erum fjárhagslega sjálfstæð og getum flakkað um heiminn, en höfum oft fáa til að deila með upplifunum okkar, Við náum árangri í viðskiptum, námi eða á öðrum árangurssviðum, en við náum ekki árangri með andlega lífið okkar, fjölskyldur og hjónabönd. Við höfum verðfellt tryggð, einingu fjölskyldunnar, gæðatíma og nándar fyrir gjafir mammons. Fjölskyldumynstrið í dag er orðið of flókið fyrir flesta, og tilfinningalegt öryggi líklega sjaldan verið minna, en stressið, kvíðinn og þunglyndið sjaldnast verið meira.

Þannig að eftir að hafa skoðað muninn á Afríku og Íslandi finnst mér við vera lítið betur sett hér andlega séð en þau í Afríku, Við höfum bara annarskonar vandamál til að glíma við. Við eigum jú mat,vatn og húsaskjól umfram þau, en ekkert endilega neitt meira eða verðmætara í hjarta okkar og tilveru. Gleði okkar er oft minni í öllum auðæfunum og dekrinu en hjá þeim sem litla ástæðu ættu að hafa til að gleðjast yfir lífi sínu og aðstæðum. 

Mikið væri nú gott ef við litum inn á við, skoðuðum hvort við þyrftum ekki að byrja að laga betur til í nærumhverfi okkar. Skoðuðum líka hvort eða hvaða gömlu gildi við ættum að taka upp aftur, þökkuðum svo fyrir lífið og allsnægtirnar sem við höfum hér, og teldum blessanir þær sem við fáum dag hvern. 

Brosum og þökkum :)

Þar til næst elskurnar,

xoxo

Ykkar Linda 

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira